132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri pólitísku viljayfirlýsingu ráðherra sem kemur fram í því að hann ætli að skipa starfshóp til að greiða úr málunum en hann þarf að láta hann skila ákaflega hratt af sér af því að það er fullkomlega óboðlegt eins og fram hefur komið í umræðunni að skoskar rottur og annað óöryggi í tengslum við strenginn geti haft það í hendi sér hve traustum fótum þekkingariðnaður okkar stendur. Það er algerlega óboðlegt. Netsamband við umheiminn er ótryggt og það er til trafala fyrir þá sem mest þurfa á því að halda sem eru fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði, fjármálaþjónustu, þekkingu, nýsköpun, rannsóknum og hvers kyns slíkum iðnaði. Það er algerlega óþolandi að rekstur þessara fyrirtækja og klasasamstarf rannsóknastofnana ýmiss konar eigi það undir sér að strengurinn hangi í sambandi og það óörugga netsamband sem við búum við rofni ekki út af einhverjum undarlegum uppákomum eins og hafa verið nefndar með rottugang og aðra slíka óværu sem getur valdið tæknilegum truflunum.

Við þurfum að sjálfsögðu að leggja annan streng. Við þurfum að vera með varastreng, Farice-2. Fjarskiptafyrirtækin eiga ekki að ráða því hvort við leggjum þann streng. Það er pólitísk ákvörðun samgönguyfirvalda og ég skora á hæstv. ráðherra að taka þá ákvörðun og beita sér fyrir því að hópurinn sem hann nefndi skili mjög hratt af sér af því að við þurfum að tryggja öruggt netsamband við útlönd. Þetta er ein þeirra grunnstoða samfélagsins sem þurfa að vera traustar í dag. Óheyrilega hár kostnaður verður líka að lækka og það mundi skjóta styrkari stoðum undir Farice hf. ef RH-netið kæmi og verslaði við hann í stað Cantats og ýmis þannig atriði má telja upp en tíminn er allt of skammur.

Þetta að lokum. Ástandið er óboðlegt. Við búum við allt of ótryggt netsamband við umheiminn. Úr því verður að bæta bæði með því að greiða fyrir rekstri Farice eins og hann er rekinn núna og að leggja varastreng.