132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:29]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var svar að hætti hússins. Fyrst var reynt að gera lítið úr fyrirspyrjanda og síðan að varpa rýrð á málflutning hans. Auðvitað er sjálfsagt mál að taka upp samgöngumál um Vestmannaeyjar, brýnasta mál þeirrar byggðar sem hefur verið í töluverðri vörn á síðustu árum þar sem íbúum hefur fækkað um hátt í þúsund manns á einum áratug. Hægt er að fullyrða að yfir standi einhvers konar fólksflótti úr þessari fallegu eyju þar sem við þurfum að sjálfsögðu að efla búsetuskilyrði. Þar er aðeins eitt sem skiptir algjörlega höfuðmáli. Það eru samgöngur á milli lands og Eyja. Þar eru þrír meginkostir. Það er háhraðaferja frá Bakkafjöru, það eru göng á milli lands og Eyja og það er nýr Herjólfur sem siglir áfram til Þorlákshafnar.

Það virðist sem vísbendingarnar bendi flestar í þá átt að farið verði í ferjulægi við Bakka sem mundi gjörbreyta aðstæðum. Ég fagna því að umræða skuli tekin um það á Alþingi um leið og það hefði verið skemmtilegt og fróðlegt og gott fyrir eyjarnar og samfélagið þar að fá sterkari pólitíska vísbendingu frá hæstv. ráðherra um framtíðarsýn hans í málinu. Hún kom hvergi fram.