132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:34]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða málefni Vestmannaeyja varðandi samgöngur. Við eigum að ræða þau oft og lengi vegna þess að hér er um mjög brýnt mál að ræða, í raun og veru jafnbrýnt mál og atvinnu- og velferðarmál í Vestmannaeyjum. Samgöngumál eru undirstaða þess að fólk vilji búa í Vestmannaeyjum. Eins og við vitum eru Vestmannaeyjar ferðamannaparadís en Vestmannaeyingar hafa saknað þess mjög að Flugfélag Íslands og Flugleiðir hættu að fljúga þangað og að eftir það hafi þeir dottið út af kortum varðandi ferðamennsku og ferðaþjónustu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta skiptir okkur líka miklu máli sem búum uppi á landi í nágrenni við Vestmannaeyjar. Eftir því sem samgöngurnar eru greiðari og betri því meiri samvinna getur orðið á milli t.d. Rangárvallasýslu og Vestmannaeyja. Þess vegna eigum við að leggja metnað okkar í að bæta samgöngur milli lands og Eyja.