132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um að setja Rafmagnsveitur ríkisins yfir í hlutafélag. Í slíkt ferli hefur verið farið með Orkubú Vestfjarða nú þegar. Það verður að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að allt ferlið á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar varðandi raforkumál hefur ekki þjónað hagsmunum almennings, þvert á móti. Það hefur orðið til kostnaðarauka fyrir almenning og nú síðast notaði hæstv. iðnaðarráðherra það sem rök fyrir ákveðnum svörum sínum í þessum ræðustól að tekin hefði verið upp skattlagning á orkufyrirtækin og þess vegna hefði m.a. orkuverð hækkað. (Iðnrh.: Þetta er ekki rétt.)

Það er afar leitt til þess að vita að hæstv. ráðherra skuli vera svo trénuð, hæstv. forseti, að hún geti ekki skipt um skoðun á máli sem greinilega færir þjóðinni ekki ábata. (HBl: Hvað á þingmaðurinn við með því að konan sé trénuð?) Með því á ég við að hún sitji kyrr í því fari sem hún hefur markað sér. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Hæstv. forseti. Ég tel að það ferli sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur leitt áfram í raforkumálum almennt sé ekki þjóðinni og fólkinu í landinu til hagsbóta. Þess vegna er það niðurstaða okkar í Frjálslynda flokknum að styðja þá frávísunartillögu sem hér verður borin upp og síðan munum við, að henni felldri ef svo fer, sitja hjá við afgreiðslu málsins.