132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar bárum fram þessa tillögu til að láta reyna á það hvort einhver sannfæring væri á bak við það sem við höfum heyrt hjá fjölmörgum þingmönnum hér, að þeir teldu mjög eðlilegt að ábyrgð á þessu fyrirtæki væri hjá fjármálaráðuneytinu en ekki ráðherra iðnaðarmála. Ég lýsti því fyrr í dag hvernig hagsmunaárekstrar eru bókstaflega í höndum þessa ágæta ráðherra þegar hún afgreiðir mál hinna ýmsu aðila í raforkugeiranum. Það var þess vegna mjög sérkennilegt að hlusta á nei frá ýmsum þingmönnum sem ég hef heyrt segja já um þetta mál áður. Það segir sitt um það að handjárnin virka vel þegar á þarf að halda í sölum Alþingis, líka sitthvað um það hvað menn hafa velt mikið fyrir sér hvernig þeir afgreiða mál í sölum Alþingis (Forseti hringir.) þegar þeir fá tækifæri til.