132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:46]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er alveg ótrúlegt að vera viðstaddur hér og horfa upp á það að hæstv. fjármálaráðherra firri sig ábyrgð á rekstri þessara heimila. Við vitum öll að það er ríkið sem greiðir rekstur hjúkrunarheimilanna þó að félagasamtök eða aðrir sjái um reksturinn. Þessi heimili eru rekin á úreltum daggjöldum en við breytum því auðvitað ekki núna á nokkrum dögum. Það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi en það þarf strax að bregðast við þeim lágu launum sem umönnunarstéttirnar búa við og ég benti á hér í fyrri ræðu minni. Við höfum ekki efni á því að greiða svona lág laun og hæstv. fjármálaráðherra verður að gjöra svo vel að axla þá ábyrgð sem hann ber í þessu máli.

Sjálfstæðismenn hér í Reykjavík segja að þeir ætli að setja öldrunarmálin í öndvegi. Er það trúverðugt, frú forseti, þegar hæstv. fjármálaráðherra, sem er með ríkiskassann, ætlar ekki að taka upp þjónustusamningana við hjúkrunarheimilin og greiða fólki mannsæmandi laun? Við stöndum frammi fyrir því að fólk mun fara úr þessum störfum. Það er verið að loka plássum á hjúkrunarheimilunum. Í gær talaði ég við eitt hjúkrunarheimili, þar eru 14 auð pláss. Og þannig er það örugglega víðar vegna þess að það fæst ekki fólk til að hjúkra fólkinu sem liggur þar.

Við erum með 350 manns í brýnni þörf fyrir að komast inn á hjúkrunarheimilin og það er enginn vilji til að gera neitt í málunum og hæstv. fjármálaráðherra vísar bara á aðra. Það verður að taka á þessum þjónustusamningum, öðruvísi geta heimilin ekki samið um betri laun fyrir það fólk sem vinnur þau verðmætu störf sem umönnun aldraðra er. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra, sem situr hér, fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra að taka höndum saman og leysa þetta mál. Aldraðir á hjúkrunarstofnunum geta ekki búið við það í næstu viku að vera þjónustulausir í tvo daga eins og allt útlit er fyrir ef ekkert verður að gert.