132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:40]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var farið ítarlega yfir þetta mál í störfum iðnaðarnefndar. Fulltrúar starfsmanna og forsvarsmenn fyrirtækisins voru kallaðir á fund nefndarinnar. Það kom skýrt fram í störfum nefndarinnar hvert álit starfsmanna fyrirtækisins var og er. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gæti fengið upplýsingar um það hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni sem á sæti í hv. iðnaðarnefnd hver skilaboð þeirra voru. Þau voru ótvíræð. Þeir óskuðu eftir þessari breytingu.

Hv. þingmaður segir að hér hafi ekki komið fram nein rök. Hér er talað um að ábyrgð stjórnenda muni aukast. Í greinargerð er farið yfir það að reksturinn verði sveigjanlegur, fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldar í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðli að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.

Hv. þingmaður segir síðan að engin rök hafi verið lögð á borðið í þessari umræðu sem undirbyggi hlutafélagavæðingu Rariks. Ég hafna því algerlega. Ég hvet hv. þingmann til að lesa greinargerðina og til að tala við flokksfélaga sinn, hv. þm. Sigurjón Þórðarson sem átti sæti í nefndinni og sat fundi með starfsmönnum og forsvarsmönnum Rariks sem hafa óskað eftir þessari breytingu. Ef þetta er eru ekki rök í þessari umræðu þá er það undarlegt.

Ég tel um vel undirbyggt mál að ræða, um mjög jákvæða breytingu og þróun að ræða sem muni verða Rarik hf. og viðskiptamönnum þess til hagsbóta.