132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Hlutafélög.

684. mál
[16:56]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Það kom fram í máli hennar að þetta frumvarp tengist einungis með óbeinum hætti þeirri umfangsmiklu breytingu sem hún er að beita sér fyrir og varðar samruna og breytingar á högum Byggðastofnunar og Iðntæknistofnunar.

Ég kom hér einungis upp til að fá forvitni minni svalað um það hvort þarna væru einhver tengsl í milli. Ef þau hefðu verið sterkari en hæstv. ráðherra skýrði svo skilmerkilega frá þá hefði ég spurt hana hvernig hún hefði smyglað þessu frumvarpi í gegnum þingflokk sjálfstæðismanna. Hann hefur hingað til ekki lagst mjög á sveifina með hæstv. ráðherra í því máli, en hugsanlegt er að hún eigi stuðningsmenn og miklu sterkari og betri annars staðar en í þeim flokki í því máli.