132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:12]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hægt er að taka undir býsna margt sem er í tillögu frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en auðvitað gefur málið líka tilefni til þess að velta því fyrir sér hvernig á því stendur að menn telja sig svo óviðbúna eins og raun ber vitni þegar síminn var til hæstv. utanríkisráðherra, Geirs Haardes, um daginn, símtal sem reyndar hefur komið fram að hann átti von á og vissi og gat valið sér daginn hvenær kæmi. Kannski vissi hann líka hvað hann átti að segja.

Að minnsta kosti höfðu menn ekki gert þær ráðstafanir sem hefði þurft að vera búið að gera. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þetta símtal um miðjan þennan mánuð hafi í raun verið til þess að lækka þröskuldana í samningaviðræðunum sem ríkisstjórnin á í við Bandaríkjamenn, því að þegar því var lýst yfir að herinn ætti að fara héðan fyrir þremur árum eða svo fór af stað undarleg atburðarás sem fólst í því að segja þjóðinni að nú færu í gang samningaviðræður við Bandaríkjamenn. Þar ættu menn nú aldeilis innangengt og hauka í horni til að ræða málið. Síðan hefur þjóðinni verið haldið uppi á því að þarna væri verið að fást við málin og niðurstaðan af þessu mundi verða einhver árangur ríkisstjórnarinnar hvað varðaði áframhaldandi varnir landsins eins og það heitir.

Niðurstaðan sem kom núna um daginn var sú að hinar sýnilegu varnir, þoturnar og þyrlurnar ættu að fara héðan. Ég vil halda því fram að Bandaríkjamenn hafi tekið ómakið af Íslendingum að þessu leyti, að Íslendingar eða ríkisstjórnin hefði nú tæplega viljað koma heim úr samningaviðræðum með eitthvert smáræði þar sem öllum stóru kröfunum hefði verið hafnað, þ.e. um að hafa hér sýnilegar varnir, og hafi þótt það heldur skárra að Bandaríkjamenn köstuðu þá út af borðinu þessum stóru ágreiningsmálum svo að hægt yrði að semja um þau litlu og koma þá með eitthvað heim úr þeirri samningaferð.

Það ferli stendur yfir núna. Það er sem sagt búið að lækka þröskuldana. Bandaríkjamenn gerðu það með símtali þann 15. þessa mánaðar. En það er margt sem þarf að skoða í samhengi við þetta mál og sérstaklega ber að huga að því fólki sem þarna vinnur og framtíð þess og atvinnusvæðis þess sem þarna um ræðir. Ég held því fram að þetta sé í heildina ekki óskaplega mikið atvinnulegt áfall fyrir höfuðborgarsvæðið en þetta er mjög stórt verkefni og áfall fyrir nærsvæðið á Reykjanesi og þá sem þar vinna og gera þarf allt sem mögulegt er til að koma til móts við það fólk. Það þarf að gera með því að skapa ný atvinnutækifæri og líka með því að koma til móts við það fólk sem er að nálgast mjög eftirlaunaaldur.

Ég vil koma því hér að að ég hef flutt ásamt tveimur öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar þingsályktunartillögu sem er núna í félagsmálanefnd sem var einmitt hugsuð til þess að hægt væri að koma til móts við fólk sem missti atvinnu sína á viðkvæmum tíma þegar það nálgast eftirlaunaaldur.

Þó svo að við höfum verið að fá góðar fréttir af því að Atvinnuleysistryggingasjóði eigi að breyta og fólk eigi að fá hærri tekjur úr honum í þrjá mánuði eftir að það missir atvinnu sína, þá gerir það ekki nema mjög lítið til að bæta það áfall sem verður þegar fólk missir atvinnu sína á efri árum, fer að nálgast eftirlaunaaldurinn, og á kannski litla möguleika á að endurhæfa sig eða finna sér störf við hæfi. Fólk sem hefur greitt alla sína ævi í lífeyrissjóði á betra skilið en að vera á atvinnuleysisbótum kannski þrjú, fjögur, fimm ár, í lok starfsævi sinnar.

Ég tel að það sé verkefni lífeyrissjóðanna og Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórnvalda í landinu, ásamt verkalýðsfélögunum og atvinnurekendum, að leiða saman krafta til þess að fólk geti hætt störfum fyrr þegar svona hagar til. Þess vegna var sú tillaga flutt sem ég nefndi. Ég tel að slík aðferð geti vel verið hluti af því að leysa umrædd vandamál.

Þó svo hér hafi farið af stað mikil umræða um uppbyggingu álvers á því svæði finnst mér í sjálfu sér að ákveðin tækifærismennska sé fólgin í því vegna þess að vinna við það mun ekki leysa úr atvinnuvandanum á svæðinu. Það er atvinna sem kemur þá til miklu síðar og er kannski allt annað mál og ætti að ræða á annan hátt en í tengslum við þetta verkefni sem nú er til umræðu.

Ég ætlaði mér ekki að halda langa ræðu. Ég vildi draga athyglina að þeirri tillögu sem ég hef flutt undanfarin tvö þing sem er núna í félagsmálanefnd af því að ég tel að hún geti með almennum hætti komið til móts við fólk sem lendir í aðstæðum eins og þarna hefur verið lýst, þó nokkuð margir virðast vera í þeirri stöðu að hafa unnið lengi á vellinum og eru að missa núna atvinnu sína þegar tiltölulega fá ár eru þangað til þeir geta farið að taka eftirlaun. Það þarf að vera sveigjanleiki þarna. Menn hafa haft skilning á þessu í þingsölum því slíkur sveigjanleiki er til staðar fyrir alþingismenn. Samkvæmt nýlegum lögum geta alþingismenn og ráðherrar tekið nokkuð snemma til þess ráðs að fara á eftirlaun. Það er því sveigjanleiki þar. Ég tel að þann sveigjanleika eigi menn að hafa í huga þegar þeir velta því fyrir sér hvernig eigi að taka á þessu máli líka.

En ég tek síðan undir það sem hv. þingmaður sagði um að menn þurfi að vanda sig við viðskilnaðinn. Menn þurfa að ræða við Bandaríkjamenn af yfirvegun, taka sér góðan tíma til þess. Það er ekki neitt sem hastar í raun og veru í þeim viðræðum, og þannig verði gengið frá málum að við sitjum ekki uppi með áralöng vandamál eins og raun ber vitni að hefur bæði orðið hér á landi og í öðrum löndum þar sem menn hafa yfirgefið herstöðvar. Það skulu vera lokaorð mín.