132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:03]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmaður velti þessu fyrir sér og komi með tilgátu. Ég held að það sé mjög þarft að við skoðum þetta og reynum að átta okkur á þessu. Ég er alveg sannfærður um að það er eitthvað í þá veruna sem hv. þingmaður er að fara, sem er skýringin á þessu. Það er eitthvað tengt samstarfi ríkisstjórnarflokkanna hvernig að þessu er staðið, ég er alveg sannfærður um það.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði þann hluta ræðu minnar þar sem ég fjallaði einmitt um að svo neðarlega, ég sagði nú því miður, væri Framsóknarflokkurinn kominn að það virtist ekki einu sinni vera orka eftir til að horfa á taktískar hliðar í stjórnarsamstarfinu, þ.e. Framsóknarflokkurinn áttaði sig ekki einu sinni á því að reyna að láta málin vegast eitthvað á, þannig að Framsóknarflokkurinn væri þá í einhverri stöðu til að segja: hingað og ekki lengra, gagnvart ákveðnum málum.

Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér að samningurinn hafi gengið út á að ákveðnir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengju að láta ljós sitt skína í nokkurn tíma í ákveðnu máli til að koma skilaboðum út. En þegar þetta væri komið í gegn væri því lokið. Við auðvitað bíðum og sjáum. Ég efast um að við fáum hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að gefa okkur nokkrar skýringar, að minnsta kosti hér í ræðustól. En það er kannski hægt að fara aðrar leiðir til að fá þær. Við sjáum hver raunveruleikinn verður þegar fram líða stundir. En ég held að það sé alveg ljóst að við sem höfum miklar efasemdir í þessu máli hljótum að nýta okkur allan okkar rétt í að reyna að hafa áhrif á hvernig málið fer í gegnum þingið. Við skulum þá a.m.k. reyna að tryggja, herra forseti, að (Forseti hringir.) sá tími sem þessir hv. þingmenn fá að njóta sín verði sem allra lengstur.