132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:10]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eitthvað minntu þessi síðustu orðaskipti mig á véfréttina í Delfí en nokkuð erfitt var að ráða í hvað menn væru að fara. Við erum að fjalla um frumvarp um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og eins og fram hefur komið af hálfu talsmanna minni hluta menntamálanefndar, hv. þm. Marðar Árnasonar og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, leggur hann til að frumvarpinu verði vísað frá. Í nefndaráliti er gerð rækileg grein fyrir þeirri afstöðu en í upphafi segir á þá leið að frumvarpið skapi Ríkisútvarpinu ekki til frambúðar þann starfsramma sem hæfi og þar af leiðandi ekki þann starfsfrið sem sé þeirri stofnun nauðsynlegur. Minni hlutinn segir að breyting Ríkisútvarpsins í hlutafélag væri mjög varhugavert skref sem í langflestum tilvikum öðrum hafi leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Þá er bent á að enn séu margir lausir endar í frumvarpinu og málatilbúnaði í tengslum við það og að málið sé vanreifað. Á þeirri forsendu er lagt til að því verði vísað frá. Að þessu mun ég víkja síðar.

Ég vona að hv. formaður menntamálanefndar hlýði á mál mitt. Hann hefur verið hér í húsinu og ég geri ráð fyrir því að hann sé staddur á skrifstofu sinni og fylgist með umræðunni því að ég kem til með að nefna ýmsa þætti sem fram komu í framsöguerindi hans og í málum sem hann hefur staðið að á Alþingi ásamt félögum sínum öðrum úr Sjálfstæðisflokknum og einnig ríkisstjórnarflokkunum. Sem kunnugt er koma þau nú hvert á fætur öðru, frumvörpin frá Stjórnarráðinu, þar sem gert er ráð fyrir hlutafélagavæðingu og markaðsvæðingu samfélagsþjónustunnar. Þar eru ríkisstjórnarflokkarnir mjög samstiga, nánast eins og síamstvíburar, en sá er munurinn á þeim tveimur flokkum að hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar er hans pólitíska stefna og pólitíska markmið að berjast fyrir, en Framsóknarflokkurinn er hins vegar að svíkja áður gefin fyrirheit og loforð. Hann setur þessi svik hins vegar í búning geysilegrar sigurgöngu, hann sé að sveigja Sjálfstæðisflokkinn af leið, sé að ná fram miklum og mikilvægum breytingum á frumvörpum. Þannig er það verk Framsóknarflokksins, eða svo eigum við að skilja, að í 1. gr. frumvarps til laga um Ríkisútvarpið hf. sé kveðið á um að sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess séu óheimil. Hér frammi í hliðarherbergi er annað frumvarp sem nýkomið er úr prentsmiðjunni, frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem sagt einkavæðing á sölukerfi áfengis og tóbaks, en í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Öll hlutabréf í ÁTVR hf. skulu vera eign ríkissjóðs. Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í ÁTVR hf.“ — Og hér kemur væntanlega sigur Framsóknarflokksins: — „Sala ÁTVR hf. eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess eru óheimil.“

Auðvitað freistast maður til að taka þessu eins og hverju öðru gríni, þessum málflutningi Framsóknarflokksins sem í hverju málinu á fætur öðru lyppast niður og lætur Sjálfstæðisflokkinn og markaðssinnana þar valta yfir sig.

Ég ætla að fara yfir það í nokkrum orðum hvað veldur því að ég kemst að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið eigi ekki að gera að hlutafélagi. Áður ætla ég aðeins að víkja að því sem fram kom hjá hv. formanni menntamálanefndar, Sigurði Kára Kristjánssyni, í ræðu hans fyrr í dag þar sem hann sagði að frumvarpið tryggði betur réttindi starfsmanna en aðrar hliðstæðar lagabreytingar. Ég kom upp í andsvari við hv. þingmann og kvaðst vilja staðnæmast við biðlaunaréttinn, biðlaunarétt starfsmanna. Í frumvarpinu um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins er biðlaunarétturinn fyrir það fyrsta tímabundinn, nær til ársins 2008. Það er sennilega sá tími sem menn ætla sér til að losa sig við starfsmenn innheimtudeildar Ríkisútvarpsins. En hann er einnig takmarkaður að öðru leyti, hann er takmarkaður að því leyti að ef starfsmaður ekki tekur starf hjá Ríkisútvarpinu hf. á hann ekki rétt til biðlauna. Ég hef nefnt dæmi um hið gagnstæða, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem var ríkisfélag, gert að hlutafélagi fyrir fáeinum árum. Réttur starfsmanna þar var sá að tækju þeir ekki starf hjá hlutafélagi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar áttu þeir rétt á biðlaunum. Biðlaunaréttur starfsmanna Ríkisútvarpsins er rýrari hvað þetta snertir. Hann er tímabundinn fyrir það fyrsta, eins og ég nefndi, og hann er rýrari einnig að þessu leyti. Ég tel alveg einsýnt að þetta muni enda í málaferlum. Það er verðugt fyrir hv. formann menntamálanefndar, lögfræðinginn Sigurð Kára Kristjánsson, að íhuga að ekki alls fyrir löngu féll dómur gegn Reykjanesbæ í máli starfsmanns vatnsveitna bæjarins, sem ég hygg að hafi flust yfir til Hitaveitu Suðurnesja, og naut ekki sömu lífeyriskjara og hann áður hafði haft en í ljósi fyrirheita sem gefin höfðu verið vann hann mál um biðlaunarétt. Ég held að það sé alveg augljóst mál að allt muni loga í málaferlum gagnvart Ríkisútvarpinu hf. ef þessu ákvæði lagafrumvarpsins verður ekki breytt. Ég held að það sé alveg augljóst mál.

Ég ætla að staðnæmast við annað atriði af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson staðhæfir að í frumvarpinu sé betur staðið við réttindi starfsmanna en við hliðstæðar lagabreytingar áður. Ég ætla að nefna lífeyrisréttindi hjá starfsmönnum Pósts og síma. Þó að það gerðist ekki við upphaflegu lagabreytinguna gerðist það síðar að starfsmenn Pósts og síma öðluðust rétt til þess að njóta lífeyrisréttar úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þótt þeir væru á sama tíma í starfi. Ef þeir höfðu á annað borð öðlast þennan rétt, náð tilskildum aldri en voru áfram í vinnu, gátu þeir notið þessa réttar jafnframt því sem þeir fengu kaup frá hlutafélaginu. Þetta er annað dæmi sem sýnir að staðhæfing þingmannsins er röng. Hún stenst ekki.

Annað sem ég nefndi í andsvari mínu fyrr í dag varðar þá staðhæfingu formanns menntamálanefndar að Ríkisútvarpið verði betur sett sem hlutafélag en áður. Ég spurði ítrekað hvort þingmaðurinn, hv. formaður menntamálanefndar Alþingis, mundi fyrir sitt leyti vinna að því að Ríkisútvarpið hefði eigi minna skattfé eftir breytinguna en það hefur nú í formi afnotagjalda. Ef það á að vera betur sett eftir breytinguna en áður þarf að bæta í. Við þurfum að fá svar frá hv. þingmanni á hvern hátt hann ætli að tryggja aukið fjármagn til Ríkisútvarpsins. Á hvern hátt á að tryggja aukið fjármagn til Ríkisútvarpsins ef það á að vera betur sett að þessu leyti? Mundi hann styðja aukna skattheimtu frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og mundi hann tryggja það til frambúðar? Þá vek ég athygli á því að hv. þingmaður er kominn í hrópandi mótsögn við sjálfan sig því að hann hefur staðið að lagafrumvörpum á Alþingi sem gera ráð fyrir sölu Ríkisútvarpsins, að Ríkisútvarpið verði selt. Það er reyndar stefna sem margir samflokksmenn hans hafa boðað áður, og eins og ég mun vísa í eru samþykktir frá landsfundum Sjálfstæðisflokksins og yfirlýsingar ýmissa talsmanna hans sem eru í þessa veru. Hv. þingmaður hefur ásamt þeim félögum sínum, hv. þm. Pétri Blöndal og Birgi Ármannssyni, flutt frumvarp um breytingu á útvarpslögunum sem er ótækt en sennilega sérkennilegasta frumvarp sem hefur komið fram á þessu sviði, a.m.k. sem ég hef séð.

Hv. þingmaður hefur að vísu sagt sig frá frumvarpinu núna, á þessu þingi, kannski vegna þess að hann er formaður menntamálanefndar þingsins og þarf að tala fyrir hlutafélagavæðingu og skattheimtu til Ríkisútvarpsins. Það má vera að það sé skýringin á því, og ekkert slæmt um það að segja í sjálfu sér. Hv. þingmaður hefur gert grein fyrir að gera þurfi fleira en gott þykir, hann hafi sín sjónarmið enn sem áður en beygi sig undir meirihlutavilja. Það er vissulega hægt að virða líka en þetta eru grundvallarsjónarmið hans engu að síður, að hann ætlar að beita sér fyrir því, væntanlega í framtíðinni, að Ríkisútvarpið verði selt og þá fæ ég illa skilið þær digru yfirlýsingar um að Ríkisútvarpið verði betur sett, fjárhagslega, en það var fyrir hlutafélagavæðingu.

Hvers vegna segi ég að frumvarp þessara ágætu þingmanna sé eitt sérkennilegasta frumvarp sem fram hefur komið í þinginu? Ástæðan er sú að ekki er nóg með það að þessir þingmenn af frjálshyggjukanti Sjálfstæðisflokksins vilji einkavæða Ríkisútvarpið, þeir vilja jafnframt ríkisvæða yfirráð yfir dagskrárgerð í landinu. Ég veit ekki hvort menn hafa almennt gert sér grein fyrir því hversu stórfengleg lagasmíð þetta yrði, ef hún yrði að veruleika. Frumvarpið gerir nefnilega ráð fyrir að eftir að Ríkisútvarpið hefur verið selt verði eftir sem áður starfandi útvarpsráð í landinu og það á að kjósa á Alþingi. Það er ríkisstjórnarmeirihlutinn sem á að ráða þar sem annars staðar. Og hvað á þetta ríkisrekna útvarpsráð að gera eftir að Ríkisútvarpið verður selt? Jú, fjallað er um skyldur útvarpsráðs í frumvarpinu — og hér kemur einn frumvarpssmiðurinn, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hér segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsráði er heimilt að sjá til þess að hljóðvarpað sé til annarra landa.“ — Gott og vel, hugsa stórt. — „Dagskrár skv. 1. mgr. skulu m.a. fela í sér almenna fréttaþjónustu og starfrækja vettvang fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða varða almenning. Þær skulu innihalda fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og þess skal gætt sérstaklega að á boðstólum sé fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi. Enn fremur skal m.a. vera á dagskrá efni á sviði lista og bókmennta, vísinda og sögu auk tónlistar. Veita skal almenna fræðslu og sjá til þess að send sé út fræðsludagskrá í samráði við fræðsluyfirvöld og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega.“ — (PHB: Geturðu ekki stutt þetta?) Ég er ekki á móti þessu, en við eigum eftir að botna þetta allt saman. — „Veita skal almenna fræðslu og sjá til þess að send sé út fræðsludagskrá í samráði við fræðsluyfirvöld og gera sjálfstæða dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega.“

Hið besta mál. (Gripið fram í: Má ekki vera betra.) (Gripið fram í: Hörkumál.) (Gripið fram í.) Þarna er sem sagt kveðið á um skemmtiefni, almenna fréttaþjónustu o.s.frv. Og áfram eru tíundaðir þættir sem allir eru af hinu góða. En bíðum við, síðan er fjallað um útboðsskyldu og hér segir, með leyfi forseta:

„Útvarpsráð skal bjóða út skipulag starfs síns, gæðaeftirlit og gerð og rekstur einstakra þátta þeirrar hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrár sem það er ábyrgt fyrir samkvæmt ákvæðum 8. gr. Enn fremur skal það bjóða út útsendingu, dreifingu og öryggisþjónustu.

Útvarpsráð skal skilgreina einstaka þætti dagskránna, gera kröfulýsingu og setja gæðastaðla.

Útboðin skulu vera til þriggja ára lengst. Við útboðin skal farið eftir lögum um framkvæmd útboða. Útvarpsráð skal fylgjast með framkvæmd útboða og leggja mat á gæði þeirra. Fyrir liggi hver á höfundarrétt hverju sinni.“

Hafa menn hugleitt hvað hér er verið að segja? (Gripið fram í: Já.) Útvarpsráð sem endurspeglar stjórnarmeirihlutann í landinu hverju sinni á að leggja mat á framkvæmd útboða og gæði þeirra og stýra með öðrum orðum því sem ég vísaði til, útboðum á m.a. fréttatengdu efni. Ef þetta er ekki pólitísk ríkisvæðing veit ég ekki hvað hún er. Þetta er svo galið að engu tali tekur. Svo þykjast þessir menn vera að tala á móti Ríkisútvarpinu eins og það er skipulagt núna og leggja til pólitísk yfirráð yfir dagskrárgerð í landinu, alveg grímulaust. Ég er alveg hissa á því hve litla umfjöllun það frumvarp hefur fengið í fjölmiðlum. Það á svo sannarlega skilið mikla og ítarlega umfjöllun, þetta frumvarp af frjálshyggjuvæng Sjálfstæðisflokksins á Alþingi. Það er búið að flytja það margoft og hefur greinilega fengið allt of litla umræðu í þinginu. Það er greinilega ekki metið að verðleikum.

Síðan er ... (Gripið fram í.) — rosalegar bollaleggingar, segir hv. þingmaður og er bara orðinn feiminn við sjálfan sig og eigin afurðir. (SKK: Ne-hei.) Auðvitað er þetta rosalegt, að ætla sér með skattheimtu að taka peninga, setja þá undir pólitískt kjörið útvarpsráð sem á að stýra útboðum á dagskrárgerð í landinu og leggja m.a. mat á fréttatengt efni. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta eru hægri sinnar í Sjálfstæðisflokknum sem í alvöru eru að leggja þetta til og eru að biðja Alþingi í alvöru að samþykkja þetta frumvarp um pólitísk yfirráð og stýringu á m.a. fréttaefni í landinu.

Síðan er þetta náttúrlega stefna Sjálfstæðisflokksins eins og ég gat um áðan, og það er ekkert nýtt. Ég ber að vissu leyti virðingu fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessum málum. Ég ítreka, og hef oft sagt það, að menn sem vilja gera þess vegna Ríkisútvarpið að hlutafélagi og fara með það alveg út á markað og nýta sér kosti hlutafélagsformsins eru menn sem eru sjálfum sér samkvæmir. Ég get tekið ofan fyrir þeim. (Gripið fram í.) Hins vegar þegar þeir koma síðan í öðru gervi og öðru líki og fara að tala fyrir aukinni skattheimtu og segja að Ríkisútvarpinu verði betur borgið í þeirra höndum eftir að það hefur verið gert að hlutafélagi vegna þess að þeir ætla að sjá því fyrir svo miklum skattpeningum. Þá fara að renna tvær grímur á menn, og menn fara að spyrja nánar út í hvað raunverulega vakir fyrir mönnum.

Aðeins um afstöðu stjórnarflokkanna. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði árið 1996 eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að markmið, rekstur og fjármögnun Ríkisútvarpsins, ekki síst sjónvarpsins verði endurskoðuð með tilliti til hagkvæmni og aukinnar samkeppni, og að samkeppnisstaða fjölmiðla verði jöfnuð með afnámi lögboðinna áskriftargjalda og jafnframt tryggt að stofnunin fari ekki með öðrum hætti í ríkissjóð.“

Er ekki verið að gera það núna? Þetta er þá væntanlega eitthvað tímabundið. Það segir a.m.k. Viðskiptaráð Íslands sem sagði í erindi til nefndasviðs Alþingis, efnahags- og viðskiptanefndar, dagsett 22. febrúar, sem álit við frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Viðskiptaráð þakkar nefndinni fyrir það tækifæri að fá að veita umsögn um ofangreint frumvarp sem fjallar um opinber hlutafélög.

Kostir þess að breyta stofnunum í hlutafélag eru aðallega þeir að það einfaldar einkavæðingu í kjölfarið auk þess sem ábyrgð stjórnenda er skýrari. Gallarnir eru hinsvegar þeir að stofnanir sem verða að hlutafélögum hafa meiri tilhneigingu til að hegða sér eins og einkaaðilar, t.d. er aukin hætta á því að stofnunin hefji samkeppni við einkaaðila. Það hefur lengi verið stefna Viðskiptaráðs að ríkið eigi að hætta þeirri starfsemi sem einkaaðilar geta innt jafn vel eða betur af hendi. Ráðið telur því að almennt sé heppilegt að breyta stofnun ekki í hlutafélag nema það sé gert sem undanfari einkavæðingar.“

Sjálfstæðisflokkurinn er að segja í þessari ályktun frá 1996, að lögboðin áskriftargjöld verði afnumin og, með leyfi forseta, „jafnframt tryggt að stofnunin fari ekki með öðrum hætti í ríkissjóð.“

Nú er það nefskatturinn, er það ekki? Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn farinn að brjóta þarna gegn eigin samþykktum? Ég hefði haldið það. (Gripið fram í.) Ha? Nei, ég er að vísa í samþykkt Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1996. Ég var síðan að sýna fram á skilning Viðskiptaráðs á hlutafélagavæðingu sem það taldi ekki vera til góðs nema sem undanfara sölu. Annars væri það til ills, en það auðveldaði hins vegar söluna.

Þetta var frá árinu 1996 en árið 2003 ályktaði landsfundur flokksins í mars það ár um fyrstu skrefin í markaðsvæðingu Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Skylduáskrift að fjölmiðlum verði afnumin nú þegar. Íslenskir neytendur eiga sjálfir að ráða hvort og hvaða fjölmiðla þeir kaupa. Endurskoða skal hlutverk ríkisins á þessum markaði.“

Í tengslum við þennan sama landsfund Sjálfstæðisflokksins var eftirfarandi haft eftir þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins í fréttum útvarps 23. mars 2003, með leyfi forseta:

„Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra segir Sjálfstæðisflokkinn vilja afnema skylduáskrift að Ríkisútvarpinu náist samkomulag um að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Flokkurinn vilji gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi en Framsóknarflokkurinn hafi hindrað það.“

Þess má einnig geta að 37. þing SUS ályktaði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„SUS telur mikilvægt að hafist verði handa við að undirbúa einkavæðingu á Íslandspósti, Landsvirkjun, Rafmagnsveitu ríkisins, orkuveitum sveitarfélaga, Ríkisútvarpinu og að Rás 2 verði seld þegar í stað.“

Síðan höfum við náttúrlega dæmi um frumvörpin sem sjálfstæðismenn hafa sett fram. Þá má geta þess í þessum samtíningi að ýmsir aðrir talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað í þessa veru. Þannig sagði Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í janúar 1992, með leyfi forseta:

„Ég held einfaldlega að Ríkisútvarpinu sé eins og öðrum opinberum rekstri markaður ákveðinn tími. Og ég held að sá tími sé einfaldlega liðinn ... Ég tel að það sé nauðsynlegt að leggja Ríkisútvarpið niður.“

Kjartan sagði á þessum tíma að taka ætti fyrir allar auglýsingar á Ríkisútvarpinu, breyta því í hlutafélag, selja hlutabréfin og, með leyfi forseta, „stefna að því að innan fimm ára verði ríkið alfarið hætt þessum rekstri“, þ.e. fyrir 1997 ef þessar dagsetningar eru látnar gilda.

Þetta eru þær yfirlýsingar sem eru teknar nánast af handahófi frá Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum.

Síðan hefur hann fengið því framgengt að stíga þessi fyrstu skref, og vesalings Framsókn nær því fram að fá eina setningu í lagagreinina um að það megi ekki selja — núna. Það er búið að vera í öllum þessum lögum, þetta var í bankalögunum líka og er í símalögunum. Auðvitað er ekkert að marka þetta, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Sá maður sem hefur þó komið auga á þetta og haft döngun í sér til að halda því á lofti er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Þegar Framsóknarflokkurinn hóf flóttann í haust skrifaði hv. þingflokksformaður flokksins grein í Morgunblaðið, 3. nóvember. Hann sagði, með leyfi forseta:

„... að hvort RÚV verði sameignarfélag, sjálfseignarstofnun eða hlutafélag þá breytir það í sjálfu sér litlu hvað varðar stofnunina sem almenningseign.“

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson svaraði í blaðagrein í sama blaði nokkrum dögum síðar og kvað þetta, með leyfi forseta, „hraustlega mælt í ljósi þess, að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt „Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag“ og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að „breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun“. Loks var ályktað á þessu ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Þetta var tilvitnun í blaðagrein eftir hv. þingmann Framsóknarflokksins, Kristin H. Gunnarsson, frá síðasta hausti. Þetta er túlkun hans á afstöðu og afstöðubreytingu Framsóknarflokksins í málinu.

Þetta er sem sagt um afstöðu stjórnarflokkanna. Stefna Sjálfstæðisflokksins og ásetningur hans er kýrskýr. Hann vill að Ríkisútvarpið verði markaðsvætt, það verði lagt niður. Því er lýst yfir, tíminn er liðinn. Það er ekki hægt að gera annað við þessar aðstæður því að ekki má niðurlægja Framsóknarflokkinn meira en þessu nemur. Það er ljóst. Síðan er náttúrlega á hitt að líta líka, að aðstæður í þjóðfélaginu kunna að hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn einnig, tímabundið. Hann telur fjölmiðlaveldið, eða taldi til skamms tíma kannski, í þjóðfélaginu hafa verið sér mótdrægt — það kann að verða breyting á því — og Ríkisútvarpið ekki kannski allra róttækasti fjölmiðill í heiminum hvað varðar gagnrýni á stefnu ríkisstjórnar og það sem stjórnarflokkarnir aðhafast, með fullri virðingu fyrir Ríkisútvarpinu sem hefur gert marga hluti stórvel.

Það kann að skýra þetta að einhverju leyti.

Hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóri hafa talað mjög ákaft fyrir hlutafélagavæðingu. Í blaðagrein í Morgunblaðinu hinn 19. janúar sl. sagði útvarpsstjóri, Páll Magnússon, með leyfi forseta:

„Nú er rétt í þann mund að hefjast á Alþingi umræða um breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins á grundvelli frumvarps menntamálaráðherra þar að lútandi. Einhverjum kann í fljótu bragði að þykja sem þetta skipti ekki miklu máli, — formið sé aukaatriði en innihaldið aðalatriði. Ekkert er fjær lagi. Þvert á móti má færa fyrir því gild rök að óbreytt rekstrarfyrirkomulag beri í sér dauðann sjálfan fyrir þessa merku stofnun. Og það sem helst geldur þessa úrelta fyrirkomulags er einmitt innihaldið — sjálf dagskrá Ríkisútvarpsins — sem er jú þegar allt kemur til alls eini lífstilgangur stofnunarinnar.

Núverandi rekstrarform kemur beinlínis í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði rekið með skilvirkum og árangursríkum hætti. Það leiðir til verri nýtingar á fjármunum en ella væri, sem aftur þýðir að minna fé verður til ráðstöfunar í sjálfa dagskrána — útvarp og sjónvarp. Gagnvart notendum og eigendum — þjóðinni — er þetta helsta meinsemdin í núverandi fyrirkomulagi og sú afdrifaríkasta þegar til lengri tíma er litið: minni og verri dagskrá fyrir sama eða meiri pening. Aðrar birtingarmyndir þessa úrelta forms lúta svo að stjórnskipulaginu, — t.d. sérkennilegu ferli þegar kemur að ráðningum í ýmsar lykilstöður. Man einhver eftir „fréttastjóramálinu“?“

Ég man eftir fréttastjóramálinu. Ég hugsa að þjóðin muni öll eftir því. Ef fréttastjóramálið hefði komið upp á annarri stöð hefði það aldrei orðið að máli, einfaldlega vegna þess að almenningur í landinu hefur ekki sama aðgang að öðrum fjölmiðlum og hann hefur að Ríkisútvarpinu vegna þess að hann á það og hefur tengsl í starfsemina, getur nýtt sér upplýsingalögin og eitt kannski til viðbótar. Þar er starfsfólk sem býr við sæmilegt starfsöryggi, a.m.k. betra og traustara en gerist á öðrum stöðum. Það er staðreynd.

Þegar jafnvel fréttastjórum og fréttamönnum hefur verið sagt upp á öðrum fjölmiðlum hefur það ekki komið nokkrum manni við. Ég gæti nefnt marga sem koma upp í hugann þar sem undarlega var staðið að ráðningum og ekki síður uppsögnum án þess að nokkur gæti hreyft við málinu. Blaðamanni var sagt upp á Fréttablaðinu ekki alls fyrir löngu sem hafði gagnrýnt forsvarsmenn blaðsins. Þegar þeir voru inntir eftir því hvað ylli því að honum hefði verið sagt upp sögðu þeir einfaldlega að það kæmi mönnum ekki við, þeir mundu ekki tjá sig um efnið. Nú hef ég ekki forsendur til að meta það mál, alls ekki. Ég er hins vegar að segja að munurinn á fjölmiðli í eigu þjóðarinnar og undir hennar forsjá annars vegar og einkareknum miðli hins vegar kemur þarna í ljós.

Fréttastjóra í ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpinu væri ekki sagt upp skýringalaust eins og gert var á Stöð 2 ekki alls fyrir löngu. Hvorki viðkomandi fréttastjóri né hlustendur fengu nokkrar skýringar. Það kom þeim ekki við. Þetta er sá heimur sem við erum að fara með Ríkisútvarpið í. Svo leyfa talsmenn stjórnarmeirihlutans sér að tala um þetta sem einhverja nútímavæðingu. Svona er verið að hverfa aftur til fortíðar, húsbóndaveldis, húsbænda og hjúa. Þetta er slík hugsun. Þetta er forneskjuhugsun og á að heyra til liðinni tíð. Það sem gerir vinnustaði sterka og ekki síst fjölmiðla eru sterkir einstaklingar. Hvar er trúin á einstaklinginn hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins? Er þetta ekki flokkur einstaklinganna? Er þetta bara flokkur einstaklingsins, eins einstaklings, sem á að ráða yfir öllum öðrum? Út á hvað gengur lagabreytingin? Draga á úr vægi almennra starfsmanna, réttindum þeirra, en færa völdin á eina hönd. Þetta er sú hugsun að starfsmenn séu tæki þess sem veit og kann, hins góða stjórnanda sem er ráðinn fyrir ofurfé af því að hann býr yfir svo miklum mannkostum og stjórnvisku til að stýra okkur hinum. Þetta er gömul, úrelt og hættuleg hugmyndafræði og á að heyra til liðnum tíma.

Í því formi þar sem eignarrétturinn er við lýði er erfiðara við að eiga. Þó hefur verkalýðshreyfing verið að sækja fram og reynt að treysta og styrkja réttindi launafólks, jafnvel innan slíkra aðstæðna. En það er erfiðara um vik en þegar eignarrétturinn og forsjáin er hjá þjóðinni.

Það er því alveg réttmætt að spyrja: Man einhver eftir fréttastjóramálinu? Já, við munum nefnilega allt of vel eftir því.

Útvarpsstjóri heldur svo áfram og segir, með leyfi forseta:

„Því ber að fagna fyrirhuguðum breytingum á rekstrarformi Ríkisútvarpsins — og ég tel mig tala þar fyrir munn alls þorra starfsmanna og stjórnenda stofnunarinnar. Í því sambandi má minna á bréf sem stjórn Starfsmannasamtaka RÚV sendi öllum þingmönnum fyrir skemmstu, þar sem skorað var á þá að breyta rekstrarforminu.“

Við skulum hafa sem fæst orð um það bréf, en staðreyndin er sú að frá öllum samtökum starfsmanna Ríkisútvarpsins koma mjög ströng varnaðarorð gagnvart breytingunum. Síðast í dag fékk Alþingi ályktun almenns starfsmannafundar um nýtt fyrirtæki, Ríkisútvarpið hf., svo að vísað sé til fyrirsagnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn Ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Bent hefur verið á opin ákvæði í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára. Þær virðast nú hafa endað í óútfylltri ávísun til framtíðar. Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra.

Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi.

Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með því að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf.

Það er lágmarkskrafa að réttindi starfsmanna verði tryggð, sérstaklega fullur biðlaunaréttur, aðild allra starfsmanna að LSR og áframhaldandi aðild starfsmanna að núverandi stéttarfélögum innan RÚV. Starfsmenn RÚV hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin, sem eru eign starfsmanna, mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágu laununum.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að ný lög hafi ekki verið nógu vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Væntanlega til að tryggja starfsemi stofnunarinnar og þau réttindi sem starfsfólkið þar býr við. (Gripið fram í: Þingmaðurinn er hrifinn af þessu.) Já, þetta er ágætur texti sem kemur frá fundi starfsmanna.

Ég er líka hrifinn af öðrum texta sem vitnað var í fyrr í dag. Hv. þm. Mörður Árnason vitnaði í leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. forsætisráðherra. Þar kveður við heldur annan tón en hjá fyrrum, eða sennilega núverandi flokksfélögum hans á Alþingi, sjálfstæðismönnunum sem standa að frumvarpinu sem hann vísar til sem rauðkuhugmyndafræði.

Þorsteinn Pálsson segir í grundvallaratriðum þetta í leiðaranum: Fram til þessa hefur verið víðtæk sátt um Ríkisútvarpið, og sú sátt hefur verið þverpólitísk og náð frá hægri og yfir til vinstri. Það er hefð, segir Þorsteinn Pálsson, að ósátt hafi verið frá hægri hvað varðar innkomu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkað, að mönnum hafi þótt Ríkisútvarpið fá heldur fríar hendur á auglýsingamarkaði. Núna sé það hins vegar að gerast að sáttinni sé einnig sagt upp frá vinstri vegna þess að fyrirtæki sem er gert að hlutafélagi er ekki nema að hluta til sjálfsaflandi en nýtur greiðslna úr ríkissjóði eða af skattfé, það hljóti að þurfa að vera undir almennum reglum sem tryggja jafnræði og sé opið fyrir öllum upplýsingum. Það sé ekki hægt að fela slíku fyrirtæki ráðstöfun skattfjárins án þess að lúta á einhvern hátt almenningi, eiganda sínum. Þegar það gerist að Ríkisútvarpið er fjarlægt eiganda sínum á þann hátt sem gert er með frumvarpinu sé þessari sátt sagt upp. Þorsteinn Pálsson segir orðrétt, með leyfi forseta, í leiðaranum sem birtist föstudaginn 31. mars sl.:

„Rökin fyrir því að reka Ríkisútvarp með skattpeningum jafnframt þátttöku á samkeppnismarkaði auglýsinganna hanga vissulega á hálmstrái eða í mesta lagi á rótarhvönn. Þau fela í sér svo verulegt frávik frá almennum leikreglum. Ríkisstjórnin er að kippa þessu haldi í burtu. Hún hefur vitaskuld þingmeirihluta til þess að koma málinu fram. En hætt er við að hún setji með því móti í uppnám framtíðarsátt um ríkisrekið útvarp. Það eru einfaldlega of mikil menningarverðmæti í húfi til að sú áhætta sé réttlætanleg.“

Þorsteini Pálssyni, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, finnst það vera óásættanleg áhætta, að sú áhætta sé einfaldlega ekki réttlætanleg að samþykkja það lagafrumvarp sem nú liggur fyrir þinginu og er til umræðu í kvöld.

Ég spyr: Hvað hefðu þeir sagt, og hvað segja þeir, eldri hógværari sjálfstæðismenn, sem eru margir, sem eru fylgjandi frjálsu blönduðu markaðskerfi en vilja engu að síður standa vörð um vissa grunnþætti í velferðarþjónustu og menningarstarfsemi? Hvað segir t.d. maður eins og Jón Þórarinsson, fyrrum dagskrárstjóri, hjá sjónvarpinu? Ég vona að ég sé ekki að gera honum upp skoðanir, ég tel hann standa til hægri í stjórnmálum, en engu að síður er hann talsmaður menningarinnar. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið föstudaginn 11. mars á síðasta ári um framlag Ríkisútvarpsins til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og í þeirri grein furðar hann sig á afstöðu manna til samstarfs Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Margt er nú rætt um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, m.a. í yfirgripsmikilli samantekt í Morgunblaðinu nýlega (Ríkisfjölmiðill í tilvistarkreppu, Morgunblaðið 6.3. 2005). Þar og víðar í þessari umræðu hefur verið talin hin mesta nauðsyn fyrir útvarpið að létt væri af því „framlagi“ til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á þessu ári er sagt nema 118,5 millj. kr. Látið er líta svo út sem þetta sé hreinn „framfærslustyrkur“, sem útvarpið hafi verið blekkt eða kúgað til að taka á sig, og hvergi er á það minnst að neitt komi á móti „framlaginu“ eða útvarpið fái neitt fyrir snúð sinn. Af þessum ástæðum þykir mér ástæða til að rifja upp nokkrar staðreyndir um þetta mál, sumpart sögulegar en sumpart bara bláberar staðreyndir.“

Rakið er síðan hvernig Sinfóníuhljómsveitin hefur átt samstarf og framlag til Ríkisútvarpsins í áranna rás. Jón Þórarinsson endar greinina á því að segja, með leyfi forseta:

„Hitt er svo hörmuleg staðreynd að Ríkisútvarpið hefur ekki hirt um að notfæra sér heimildirnar“ — þ.e. til þess að nýta sér hljómleika sveitarinnar — „nema að nokkrum hluta, en það er framkvæmdaatriði sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins.“

Ég verð að segja að mér hefur fundist fara of mikið fyrir því í seinni tíð í umræðunni um Ríkisútvarpið, að menn væru uppteknir við, og þá er ég að vísa til stjórnvalda, að losa Ríkisútvarpið undan ýmsum menningarlegum skyldum sínum, t.d. Sinfóníuna, í stað þess sem menn sem vildu verja þennan fjölmiðil gerðu áður, og ekki bara verja hann heldur gera hann að því sem hann er orðinn, ein öflugasta menningarstofnun landsins, þ.e. að kalla skyldurnar til stofnunarinnar, að búa svo um að hún tæki á sig skyldur. Það sem Jón Þórarinsson segir hins vegar í þessari grein er að það sem menn kalla bagga og skyldur og vísi í sem eins konar framfærslustyrk sé alrangt því að auðvitað hafi Ríkisútvarpið notið framlags Sinfóníuhljómsveitarinnar og eigi að nýta sér sem allra best á komandi tímum.

Ég hef vitnað í yfirlýsingu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, í yfirlýsingar núverandi útvarpsstjóra, Páls Magnússonar, og ég hef einnig vísað í yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um að Ríkisútvarpið verði betur sett hvað stjórnsýslu og fjárráð snertir eftir breytinguna. Hef ég um þetta mjög miklar efasemdir. Við skulum ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn og núverandi stjórnarmeirihluti hefur skammtað Ríkisútvarpinu fjármagnið á undanförnum árum, allar götur frá 1995 þegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur tóku saman. Hvernig skyldi það hafa gengið?

Í ítarlegri úttekt sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. mars á síðasta ári eftir Björn Jóhann Björnsson segir m.a. um fjárhagshliðina, með leyfi forseta:

„Þegar afkoma Ríkisútvarpsins síðustu árin er skoðuð sést fljótt að stofnunin glímir við mikinn rekstrarvanda sem undið hefur upp á sig. Á þetta bæði við um sjónvarpið og útvarpið en þess skal getið að hlutur sjónvarpsins í tekjum og útgjöldum RÚV er jafnan um 75%. Síðast skilaði Ríkisútvarpið tekjuafgangi árið 1997, upp á 86 milljónir króna. Síðan þá hefur verið látlaus taprekstur, alls upp á ríflega 1.400 milljónir króna. Mestur varð hallinn árin 1998, þegar lífeyrisskuldbindingar starfsmanna komu inn með fullum þunga, síðan 2001 og 2003, eða yfir 300 milljónir króna hvert ár. Um svipað leyti og RÚV tók á sig auknar lífeyrisskuldbindingar var stofnuninni gert að leggja árlega til fjármagn til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þegar Menningarsjóður útvarpsstöðva var lagður niður og eldri lög um hljómsveitina tóku gildi.“

Síðan er hallinn og fjárhagsþrengingarnar raknar. Síðar segir, með leyfi forseta:

„Forráðamenn RÚV benda á að tekjur stofnunarinnar á síðustu árum hafi ekki fylgt launaþróun í landinu. Séu afnotagjöldin uppreiknuð miðað við launavísitölu drógust þau saman um 19% á árunum 1994–2004, auglýsingatekjur hafa með sama útreikningi lækkað mun minna en heildartekjur drógust saman um 15% á liðnum áratug, miðað við launavísitöluna. Sé miðað við neysluvísitölu án húsnæðis hækkuðu tekjurnar hins vegar um 25% frá árinu 1994, á meðan vísitalan hækkaði á sama tíma um 30%. Auglýsingatekjur hafa hlutfallslega ekki aukist í tekjustofninum og numið árlega um 700–800 milljónum króna undanfarin ár. Þrátt fyrir aukna samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum, m.a. með tilkomu Fréttablaðsins, hefur RÚV náð að halda sínum hlut, sem var rúm 16% árið 2003, miðað við hreinar auglýsingatekjur.“

Margt annað fróðlegt kemur fram í greininni en sérstaklega vil ég vísa í það sem lýtur að starfsmannahaldinu og rekstrinum því að um þann þátt segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið hefur eftir megni reynt að hagræða í rekstri sínum og t.d. hefur starfsmönnum fækkað verulega undanfarin ár, eða um 15% frá 1996. Það ár voru fastráðnir starfsmenn að meðaltali 378 en voru um 320 á síðasta ári. Bæði er um raunfækkun að ræða og meiri verktöku á sumum deildum.“

Verktökuhugsunin er nokkuð sem ekki hefur alltaf verið til fyrirmyndar hjá Ríkisútvarpinu. Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem segjast bera hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti og segjast vilja búa vel að stofnuninni eru ekki beinlínis trúverðugir í ljósi þessara staðreynda, hvernig Ríkisútvarpið hefur verið látið drabbast niður, ekki heimilað að hækka afnotagjöldin þannig að þau haldist í takt við launavísitölu. Eins og fram kom dróst hún saman á árabilinu 1994–2004 um 19% séu þau uppreiknuð miðað við launavísitöluna.

Ríkisútvarpið bregst engu að síður þannig við að draga saman seglin, segja upp starfsfólki og mér finnst sláandi að frá 1996 til ársins 2004 hafi fastráðnum starfsmönnum fækkað um 15%. Þetta gerist þegar stofnunin er undir handarjaðri alls þessa óskaplega góða velviljaða fólks sem segist allt fyrir stofnunina vilja gera. Hins vegar höfum við í stjórnarandstöðunni hvað eftir annað hvatt til þess að hlaupið yrði undir bagga með Ríkisútvarpinu. Allt sem þarf til að svo verði gert er viljinn. Það þarf engar kerfisbreytingar, engar formbreytingar — það þarf pólitískan vilja. Þegar þessi mál hafa verið rædd í þingsalnum og stjórnarþingmenn hafa verið spurðir hvort þeir séu tilbúnir að styðja breytingar til að styrkja fjárhag Ríkisútvarpsins og hvort það vaki fyrir þeim með kerfisbreytingum og lagabreytingum að beina meira fjármagni úr almannasjóðum eða frá almenningi til stofnunarinnar hefur svarið alltaf verið neikvætt. Núna, á þessum viðkvæma punkti, á ögurstundu, þegar við stöndum frammi fyrir hugsanlegum grundvallarbreytingum á lögum um Ríkisútvarpið neita menn hins vegar að svara. Þá leiða menn málið hjá sér.

Í ljósi þessa finnst mér dapurlegt að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins, sumir hverjir, skuli kalla á þessa breytingu. Reyndar kemur það fram í álitsgerðum frá Ríkisútvarpinu og útvarpsstjóra, að hann telji að gera þurfi ýmsar breytingar hvað fjárhaginn varðar til að styrkja eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins. Hann hefur nefnt það og kemur fram í álitsgerðum hans og yfirlýsingum, að heppilegt væri að taka skuldir við ríkissjóð sem m.a. eru tilkomnar, eftir því sem ég skil, af vangreiddum gjöldum til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, a.m.k. að hluta til, og snúa þeim yfir í hlutafé sem síðan rynni til stofnunarinnar að nýju.

Síðan er hitt sem var nú pínulítill brandari við 1. umr. málsins, þegar ágætur þingmaður úr stjórnarliðinu talaði um 5 milljarða framlagið til Ríkisútvarpsins sem átti að fylgja lagabreytingunni. Hann hafði hreinlega ekki trúað að það gæti verið satt að það væru bara 5 millj. Þetta er framlagið sem á að fylgja með í heimanmund. Þetta er sem sagt hátturinn sem að lagabreytingunum er staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Sannast sagna finnst mér þetta ekki óskaplega trúverðugt.

Hvað varðar stjórnsýsluna, og þar vísa ég aftur í yfirlýsingar forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, forsvarsmanna Ríkisútvarpsins, talsmanns menntamálanefndar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi, að Ríkisútvarpið verði betur sett eftir að það verður hlutafélagavætt en það er nú með tilvísan í stjórnsýslu. Ég staðhæfi að allt sem gera þarf í Ríkisútvarpinu í því efni er hægt að gera án þess að breyta stofnuninni í hlutafélag. Hægt er að breyta innra skipulagi Ríkisútvarpsins án þess að því sé breytt í hlutafélag. Hér á eftir mun ég gera grein fyrir frumvarpi sem við höfum lagt fram í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þar sem við tökum sérstaklega á þessu. Fyrir okkur vakir að skera á hin pólitísku yfirráðatengsl, núverandi skipan útvarpsráðs þar sem stjórnarmeirihlutinn er ráðandi. Við viljum víðari skírskotun, víðari tengingu og einnig gera alla innri stjórnun stofnunarinnar miklu markvissari en hún er núna.

Hvaða leiðir fara aðrar þjóðir, hvað gera aðrar þjóðir í þessum efnum? Það er allur gangur á því. Ég tek eftir því að þegar talsmenn fyrirkomulagsins vísa í aðrar þjóðir er alltaf tveimur löndum sleppt, Danmörku og Bretlandi. Menn segja að aðrar þjóðir séu allar með ríkisútvarp sem hlutafélög, Norðmenn eru með hlutafélagarekstur, Svíar, Finnar o.s.frv. — en hvað með Dani? Hvað með Breta? Hafa menn hugleitt það að engin ríkisstofnun, ekkert ríkissjónvarp eða -útvarp á Norðurlöndum hefur verið eins árangursríkt í sölumennsku og Danmarks Radio? Það gat framleitt og selt til 42 Evrópulanda hinn margverðlaunaða þátt Matador, Króníkuna, Taxa, Rejseholdet og Örninn. Hvaða fyrirtæki framleiðir þessar myndir? Ríkisstofnunin Danmarks Radio. Það er ekki hlutafélag, það er ríkisstofnunin Danmarks Radio.

Síðan kemur hér eitthvert trénað lið úr gamalli stjórnmálahugsun og segir að ekkert sé hægt að gera af viti nema stofnuninni sé breytt í hlutafélag. Þarf ekki bara hugkvæmni? Þarf ekki bara dugnað, atorku, fjármuni og stuðning til þess að ná árangri? Sú árátta að hugsa í formi einvörðungu, að allt lagist ef maður breytir formi, er algjörlega út í hött. Ríkisútvarpinu hefur verið haldið í fjársvelti á undanförnum árum og þess vegna hefur fjarað undan því. Íslendingar hafa smám saman verið að styðja betur við kvikmyndaiðnaðinn og alls kyns listsköpun, mættum gera það miklu betur, miklu myndarlegar, og þá einnig við þessa stofnun, í framleiðslu hennar. Eins og Danir hafa gert og náð verulegum árangri.

Bretar eru nýbúnir að ganga frá skýrslu um BBC, kalla hana Green Paper. Hún er mjög merkilegt plagg. Ég er með skýrsluna hérna, Review of the BBC's Royal Charter: A strong BBC, independent of government. Hún kom út fyrir réttu ári, í mars, og það er magnað að lesa það sem fram kemur hjá mennta- og menningarmálaráðherra Breta, Tessa Jowell, a.m.k. á þeim tíma sem skýrslan birtist. Ég vil vitna í inngangsorð hennar í skýrslunni, með leyfi forseta:

„BBC er, engu síður en heilbrigðiskerfið, inngróinn hluti af bresku þjóðlífi. BBC er ætíð til staðar og öllum til afnota, stöðugt að reyna að ná í hæstu hæðir gæða. BBC þarf, engu síður en heilbrigðisþjónustan, að taka stöðugum breytingum svo því takist að starfa á eins markvissan hátt í framtíðinni og það hefur gert hingað til.“

Þetta segir Tessa Jowell, menningarmálaráðherra Breta, í formála að skýrslu um framtíð breska útvarpsins BBC sem út kom fyrir réttu ári, í mars árið 2005, undir því heiti sem ég vísaði í.

Menningarmálaráðherrann breski minnir á að skýrslan um BBC sé hin sjöunda sinnar tegundar frá stofnun BBC árið 1927. Reglulega hafi farið fram endurskoðun á starfseminni og þeim lagagrunni sem BBC hvílir á. Margt hafi breyst, ekki síst á seinni hluta 20. aldarinnar. Þannig hafi BBC verið eina sjónvarpsstöðin árið 1955 og eina löglega útvarpsstöðin fram til ársins 1973. Frá 1997, þegar síðast hafi farið fram endurskoðun af þessu tagi, hafi sjónvarpsrásum fjölgað um helming á Bretlandi og séu nú um 400 talsins og frá sama tíma hafi útvarpsstöðvum fjölgað um 50% og séu nú um 300 talsins. Þá hafi aðgengi almennings að útvarps- og sjónvarpsefni aukist gríðarlega í margvíslegu formi. Internetið komi til með að bjóða upp á enn frekari möguleika þannig að fólk muni eiga þess kost að ákveða sína eigin dagskrá.

Hvað þýðir þetta fyrir BBC? Nú vitna ég aftur í ráðherra menningarmála Breta í formálsorðum hennar, með leyfi forseta:

„Þessarar spurningar urðum við að spyrja. Hvers ætlast fólk til af BBC, nú þegar framboð á efni er eins mikið og raun ber vitni? Við komumst að þeirri niðurstöðu að mestu máli skipti að vita hver væri vilji eigenda BBC, þeirra sem borga brúsann, greiða reikningana. Við ákváðum að snúa okkur til þeirra.“

Og áfram heldur Tessa Jowell, með leyfi forseta:

„Með skoðanakönnunum, með tilstilli rýnihópa, opinna umræðufunda, með hjálp internetsins fengum við sjónarmið þúsunda og aftur þúsunda. Skoðanir þessa fólks voru afar skýrar. BBC nýtur trausts og stuðnings milljóna. BBC er talið hafa hlutverki að gegna sem fréttamiðill og kjölfesta í upplýstu lýðræðissamfélagi. Hlutverk almannaútvarps nýtur skilnings og stuðnings. Og þótt fólk, milljónum saman, nýti sér og njóti alls þess sem ný tækni býður upp á lítur það svo á að BBC eigi framtíðina fyrir sér í heimi nýrrar fjölmiðlunar. Ef nokkuð er, þá er litið á almannaútvarp sem enn þýðingarmeira eftir því sem markaðsstöðvunum hefur fjölgað.“

Staða BBC er vissulega ekki óumdeild. Ráðherrann bendir á að sumum þyki stofnunin ekki nógu skemmtileg, of áþekk öðrum stöðvum, ekki svara kröfum ungs fólks nægilega vel, þá sé viðskiptalífið gagnrýnið á ýmsa starfsemi á vegum BBC sem betur væri, að þess mati, komin hjá markaðsfyrirtækjum og þannig mætti áfram telja.

Niðurstaðan er sú, að mati Tessu Jowell, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin er meðvituð um stórkostlegt framlag BBC til þjóðlífs og menningar, heima og heiman. Við erum einnig sammála meiri hluta Breta sem vilja að fjölmiðlunarveröld framtíðarinnar njóti áfram krafta BBC. Og við erum einnig sammála því að BBC þurfi að laga sig nýjum aðstæðum. Þjóðin þarf á BBC að halda til að halda uppi háum gæðum, stöðugri endursköpun þar sem nýjungum og hæfileikaríku fólki er komið á framfæri svo þjóðin fái að kynnast sjálfri sér; en við viljum jafnframt BBC sem sýnir öðrum stöðvum og framlagi þeirra virðingu.“

Í skýrslu bresku ríkisstjórnarinnar eru settir niður fjórir meginþættir.

Í fyrsta lagi er skapaður friður um BBC í eins konar sáttmála til tíu ára en þá er ráðgert að næsta endurskoðun fari fram, þ.e. 2016.

Í öðru lagi skal stofnunin áfram fjármögnuð með áskriftargjöldum. Þetta hefur annmarka segja skýrsluhöfundar en þeir telja þetta engu að síður enn vera skásta kostinn. Þeirri niðurstöðu höfðu Íslendingar komist að fram til þessa, fram að nefskattinum sem nú á að fara að setja á.

Ég get sagt frá því að í nefnd sem ég veitti formennsku og var sett á laggirnar 1989, á vegum þáverandi ríkisstjórnar, um ný útvarpslög, var farið mjög rækilega yfir þennan þátt. Niðurstaða okkar sem vorum í þeirri nefnd var sú að við ættum að halda okkur við afnotagjöldin. Í þeirri nefnd voru til fróðleiks Eiður Guðnason alþingismaður, Hörður Vilhjálmsson, fjármálastjóri Ríkisútvarpsins, Erna Indriðadóttir deildarstjóri, Jón Óttar Ragnarsson sjónvarpsstjóri, Helgi Guðmundsson, fulltrúi í útvarpsréttarnefnd, Magdalena Schram blaðamaður, Þorgeir Ástvaldsson útvarpsstjóri og Arnþrúður Karlsdóttir sem jafnframt var ritari nefndarinnar. Þá störfuðu með nefndinni Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, og Þórunn J. Hafstein, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu.

Nefndin var ekki sammála um alla hluti. Ágreiningurinn snerist hins vegar ekki um afnotagjöldin sem slík heldur um auglýsingar. Þar vildu talsmenn einkastöðvanna að Ríkisútvarpinu yrðu takmörk sett í þeim efnum. Ég var hins vegar ekki fylgjandi þeirri skoðun af tveim ástæðum.

Annars vegar tel ég auglýsingar ekki vera slæmar. Auglýsingar eru hvorki góðar né slæmar, þær eru góðar ef þær eru upplýsandi, þá eru þær þjónusta við fólk og fyrirtæki. Ef þær eru blekkjandi eða upplýsa ekki eru þær að sjálfsögðu slæmar. Hins vegar er það slæmt sem Ríkisútvarpið hefur gert allt of mikið af, kostunin, að hleypa fyrirtækjum í dagskrána með svokallaðri kostun þar sem þau eru þá farin að stýra dagskrárgerðinni og hafa áhrif á hana. Það er slæmt, afspyrnuslæmt.

Hin ástæðan fyrir því að ég vildi ekki hverfa frá auglýsingum á þessum tíma var praktísk, auglýsingar væru tæplega þriðjungur eða þar um bil af rekstrartekjum Ríkisútvarpsins og það gæti hreinlega ekki án þeirra tekna verið. Ég hafði trú á því og hef enn trú á því að það verði torsótt að afla Ríkisútvarpinu tekna sem tekjutapinu nemur ef það yrði af auglýsingatekjunum. Það er praktísk ástæða og málefnaleg.

Þetta var útúrdúr, ég var að tala um annan þátt í niðurstöðum nefndar bresku stjórnarinnar um nýjan grunn fyrir BBC til 10 ára. Þar er lagt til að áskriftargjöld verði áfram tekjugrunnur BBC. Ég mun á eftir fara yfir þá gagnrýni sem fram hefur komið í ítarlegu máli frá ríkisskattstjóra um hversu óvarlegt og óhyggilegt sé að fara út á þá braut að fjármagna Ríkisútvarpið með svokölluðum nefskatti sem kemur þá hlutfallslega harðar niður á láglaunafólkinu en þeim sem hafa hærri laun. Þetta er mjög vafasamur skattur að því leyti. Það eru ábendingar sem fram koma t.d. frá Alþýðusambandi Íslands, Öryrkjabandalaginu, ef ég man rétt — þó skal ég ekki fullyrða um það, ég mun að sjálfsögðu fara yfir það á eftir — en frá ýmsum aðilum hafa komið ábendingar í þá veru og mjög rækilega rökstuddar af hálfu ríkisskattstjóra.

Í þriðja lagi bendir nefnd bresku stjórnarinnar á að hún telji að BBC eigi að vera heimilt að færa út kvíarnar að vild hvað tækni snertir. Hvað efnistökum viðkemur, hins vegar, er því beint til stofnunarinnar að leggja megináherslu á það sem kallað er almannaútvarp, Public Service. Þetta er umhugsunarverður þáttur vegna þess að við erum alltaf að takast á um þetta í ríkisrekstrinum við talsmenn einkaframtaksins. Við heyrðum það ekki alls fyrir löngu að Samtök verslunar og þjónustu, held ég að það hafi verið, skömmuðu ríkisstjórnina og ríkisvald fyrir að heimila opinberum stofnunum að keppa t.d. á sviði tölvubúnaðar og tölvuvinnslu margvíslegrar og á öðrum sviðum þar sem samkeppni væri fyrir hendi því þetta væri mjög bagalegt og hefti einkaframtakið. Ég hef hins vegar jafnan sagt að ef við heimilum ekki opinberri starfsemi að blómstra á þessu sviði og leita hagkvæmari kosta, jafnvel þótt það sé á sviðum þar sem aðrir eru einnig að hasla sér völl, klippum við af þessari starfsemi vaxtarsprotann. Þá klippum við vaxtarsprotann af.

Mér finnst athyglisverðar þessar ábendingar nefndar bresku stjórnarinnar þegar hún segir — hún er með varnaðarorð gagnvart efninu — að BBC eigi að fara varlega hvað efnið, prógrömmin, snertir í samkeppni við einkastöðvarnar, að þar eigi að sýna ákveðna tillitssemi og aðhaldssemi og íhaldssemi kannski, en ekki hvað varðar tæknimöguleika, þ.e. að bjóða upp á nýjar lausnir, ný samskiptaform og nýja tækni. Ég er þessu alveg sammála. Ég held að ekki eigi að skerða möguleika Ríkisútvarpsins hvað þetta snertir. Þarna held ég að Bretarnir séu á hárréttri braut og gott ef ég hef ekki heyrt hv. þm. Mörð Árnason — af því að hann er hér í salnum — iðulega leggja mjög ríka áherslu á þetta sem Bretar kalla Public Service-innihald ríkisútvarpsins, að það sinni menningarlegum skyldum sínum myndarlega.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir stjórnkerfisbreytingum hjá BBC. Annars vegar skal vera framkvæmdastjórn og hins vegar nokkuð sem Bretar kalla „Trust“, sem í þessu tilviki mætti einfaldlega þýða sem útvarpsráð. Framkvæmdastjórn BBC, innri stjórnsýslan, á að vera ábyrg gagnvart þessu ráði sem síðan á að svara til ábyrgðar gagnvart þjóðinni, þ.e. útvarpsráð. Hugsunin er sú að útvarpsráð verði ekki tæki ríkisstjórnarinnar hverju sinni heldur tengist almenningi og er það í samræmi við vinnuaðferð skýrsluhöfunda, sem áður segir, en þeir leituðu til þjóðarinnar í allri sinni eftirgrennslan og sögðu sem svo: Við eigum að skapa BBC lagagrundvöll eða rekstrarskilyrði til komandi ára. Hvern eigum við að spyrja álits? Eigandann, þjóðina. Það er mjög merkilegt að kynna sér þessa skýrslu, ekki bara efnið og það sem hér kemur fram heldur efnistökin og aðferðina, nálgunina.

Ég held að þetta nefnilega skipti allt saman máli. Ferlið sem menn fara til að komast að niðurstöðu skiptir nefnilega máli líka. Ekki er náttúrlega saman að jafna vinnubrögðum Breta og því sem við erum vitni að hér á landi, en sem kunnugt er gengur frumvarp ríkisstjórnarinnar út á það að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi með einu hlutabréfi sem verði sett undir einn ráðherra. Hún eða hann eftir atvikum skipar stjórn en að undangenginni kosningu hér í þessum sal þar sem stjórnarmeirihlutinn hverju sinni tryggir sér sinn meiri hluta og hann á síðan að fara með völdin að því leyti að sjá til þess að útvarpsstjórinn og hans fólk fari að almennum lögum. Að öðru leyti er útvarpsstjórinn einráður um framkvæmd dagskrár og mannaráðningar. Þetta er óskaplega mikil þrenging frá því sem nú er þannig að ég segi: Ólíkt hafast þeir að, menntamálaráðherrar Bretlands og Íslands.

Þetta er sem sagt sú leið sem Bretarnir fara og þá kemur að því að spyrja nánar, maður er nú byrjaður að skauta utan í það: Hvaða leið vill íslenska ríkisstjórnin fara? Jú, það er frumvarpið sem við erum að ræða, þ.e. að Ríkisútvarpið hf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, eins og við þekkjum hér af 1. gr. frumvarpsins. Án þess að ég ætli að fara ítarlega í einstakar greinar frumvarpsins þá er hér eins og í öðrum lögum um Ríkisútvarpið vísað í margvíslegar skyldur útvarpsins og er athyglisvert að ýmsir þeir sem skila áliti til menntamálanefndar eru gagnrýnir hvað þennan þátt varðar, hvað varðar menningarlegar skyldur. Menn hefðu viljað hnykkja á ýmsum þáttum þar. En síðan þegar kemur að stjórnsýslunni er ástæða til að staldra örlítið við. Í III. kafla frumvarpsins er stjórnskipulag Ríkisútvarpsins hf. tekið til umfjöllunar. Þar kemur fram að menntamálaráðherra fari með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu hf. en að um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins hf. skuli mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins Í 9. gr. frumvarpsins er síðan kveðið á um stjórn þessarar stofnunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.

Stjórnarmenn skulu vera lögráða, bú þeirra hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og þeir skulu hafa óflekkað mannorð.“

Síðan er nánar fjallað um þá þætti. En það er undarlegt fyrirkomulag að stjórnin skuli kosin á aðalfundi og að hana skuli skipa fimm menn og jafnmargir til vara en viðkomandi skulu áður kosnir hlutbundinni kosningu á Alþingi, sem þýðir að stjórnarmeirihlutinn ræður hverjir þarna sitja. Þetta er náttúrlega alveg fráleitt og í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram hefur farið um pólitísk tengsl og pólitísk yfirráð er þetta aldeilis alveg fráleitt og í hrópandi mótsögn við það sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hafa látið í veðri vaka í umræðu um þessi mál á undanförnum árum. Þar hefur verið talað um að skera á eða draga úr pólitískum afskiptum. Fyrir mitt leyti hef ég aldrei verið andvígur því nema síður sé að fulltrúar Alþingis komi að stjórnsýslu Ríkisútvarpsins á einhvern hátt. Ég hef hins vegar viljað að þeir kæmu þar að sem fulltrúar viðhorfa og fulltrúar almennings að því leyti að vera tengiliðir þá inn í þingsalinn og þaðan út í þjóðlífið með upplýsingar miklu frekar en sem ráðandi aðilar. Ég tel mjög mikilvægt að stofnunin sé að öllu leyti opin, ekki síst stofnun sem á að vera kjölfestan í fréttamiðlun í landinu, menningar- og fréttastofnun sem skiptir okkur öll mjög miklu máli að sé sem allra sterkust. En þar þurfa einnig að koma fleiri aðilar til. Nei, þetta er sem sagt niðurstaða stjórnarmeirihlutans, þ.e. stjórnarmeirihlutinn á að ráða samsetningu útvarpsráðs eða öllu heldur endurspeglast meirihlutavaldið hér í þingsalnum og í Stjórnarráðinu í útvarpsráði. Þetta er því alveg fráleitt og í hrópandi mótsögn við það sem menn hafa verið að segja, nánast allir, nánast allt þjóðfélagið á undanförnum árum. Ég ítreka að ég er því alls ekki andvígur að alþingismenn komi þarna við sögu en þá sem fulltrúar viðhorfa, fulltrúar flokka, fulltrúar sjónarmiða en ekki sem valdboðendur.

Starfssvið stjórnarinnar er ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni í dag um þetta efni, að í raun er útvarpsstjórinn mjög háður þessum aðilum vegna þess að þeir geta ráðið hann og þeir geta sett hann af. Það er stjórnarmeirihlutinn sem hefur þessi völd yfir einvaldinum í Ríkisútvarpinu. Þó að hvorki hv. þm. Mörður Árnason né ég mælum því bót að menntamálaráðherra skipi útvarpsstjórann — ef ég heyrði rétt það sem hv. þingmaður sagði í umræðunni fyrr í kvöld — er þarna komin ákveðin fjarlægð við útvarpsráðið sem er ekki fyrir hendi í þessum lagabreytingum. Þarna hefði þurft að koma allt annars konar breyting til sögunnar og að mínum dómi sú að útvarpsráðið réði útvarpsstjórann. Ég væri ekki hræddur við það ef það byggði ekki á pólitísku meirihlutavaldi sem endurspeglaði ríkisstjórnarmeirihlutann á hverjum tíma.

Starfssvið stjórnar er líka að taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir o.s.frv. og samþykkja fjárhagsáætlun og þar fram eftir götunum. Ég ætla ekki að staðnæmast við annað sem snýr að starfssviði stjórnarinnar en það fjallar fyrst og fremst um mjög almenna þætti. Annað er á hendi útvarpsstjórans sem jafnframt er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins eins og kemur síðan fram í 11. gr. frumvarpsins. Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Útvarpsstjóri ræður aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins hf.

Í samþykktum félagsins má skilgreina nánar starfssvið útvarpsstjóra.“

Þetta er alveg gjörsamlega óaðgengilegt og fráleitar lagabreytingar að okkar dómi.

Síðan eru það tekjustofnar Ríkisútvarpsins og þar, sem kunnugt er, á að fara inn á þá braut að hafa nefskatt sem er jafnhár skattur innheimtur af tekjulágum sem tekjuháum. Einhverjir hópar eru undanþegnir gjaldinu. Engu að síður er tekjulágu fólki gert að greiða hann. Ég tel að hægt sé að fara aðrar leiðir ef menn vilja hverfa frá iðgjaldinu, afnotagjaldinu sem að mörgu leyti er mjög gallað. Það er að mörgu leyti gallað form þó að menn hafi ekki treyst sér til að hverfa frá því hingað til hér á landi. Og eins og ég gat um áðan heldur BBC enn þá tryggð við þetta gjald og telur að þrátt fyrir allt sé það skásta innheimtuleiðin. En vilji menn hverfa frá því þá held ég að aðrar leiðir séu færar. Við höfum þar bent á einhvers konar tengingu við fasteignir og að það væri heppilegra form.

Síðan er vísað í lögin um hlutafélög. Eins og við þekkjum klifar ríkisstjórnin sífellt á því að hún sé að koma með stórkostlega réttarbót hvað varðar opinber hlutafélög og felst í því að ljósmyndarar mega koma á aðalfundi hjá hinum opinberu hlutafélögum. Stórfenglegast af öllu er að um það er rætt að alþingismenn, ef það eru ríkishlutafélög og bæjarstjórnarmenn í sveitarfélögum — ég er ekki alveg viss um hvort þetta hafi náð fram að ganga eða ekki en þetta hefur verið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd — fá að koma á þessa fundi og bera fram skriflegar spurningar. Þetta er stórfenglegt.

Með því að gera stofnun að hlutafélagi, og þar með Ríkisútvarpið, jafngildir það ákvörðun um að gera það að markaðsfyrirtæki, draga úr mikilvægi þess sem þjónustustofnun sem eigi að vera opin og öllum ljós og gera hana að markaðsstofnun sem á að geta hagað sér eins og fyrirtæki á markaði, geta falið viðskiptaleyndarmálin og sé ekki heft af mannskapnum í þessum sal og fjölmiðlum á þann veg að þurfa stöðugt að vera að upplýsa um áform sín í heimi samkeppninnar. Þetta eru bara tveir heimar. Hvora leiðina viljum við fara? Viljum við fara með Ríkisútvarpið á markaðsbrautina og gera það að fyrirtæki í samkeppni við önnur fyrirtæki í fjölmiðlum eða viljum við hafa þetta opna þjónustustofnun sem sinnir almannaútvarpi? Ég vil það. Þetta er ágreiningurinn sem er uppi í grundvallaratriðum. Þá segi ég og horfi til þess sem Bretarnir segja varðandi BBC. BBC á að fara varlega þegar kemur að því að keppa við aðrar stöðvar um efni sem þær geta auðveldlega sinnt, færa út kvíarnar til að bæta tækni og þjónustu sína, ekki setja neinar hömlur á stofnunina að því leyti. Þetta er nokkuð sem ég tel að við ættum a.m.k. að hyggja að. Hins vegar skal það viðurkennt að það er ekki auðvelt að finna hvar markalínurnar eiga að liggja. Auðvitað vill maður að ríkisútvarp geti boðið upp á efni sem höfðar til mjög margra, er vinsælt og þar af leiðandi eftirsótt af fyrirtækjum sem eru algjörlega á markaði. Þetta er kannski hægara sagt en gert.

Þetta er sem sagt sú leið sem ríkisstjórnin vill fara með frumvarpi sínu.

Langar mig þá til að víkja að frumvarpi sem við höfum sett fram, í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum sett það fram á tveimur þingum og hefur það fallið í góðan jarðveg hjá mörgum sem hafa kynnt sér málið. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem hafa þann tilgang að renna styrkari stoðum undir rekstur þess og efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi í yfirstjórn þess.

Flutningsmenn telja að Ríkisútvarpið hafi miklum lýðræðislegum og menningarlegum skyldum að gegna auk þess sem það er öryggistæki fyrir alla landsmenn. Þess vegna er nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og að það hafi góðar tekjur svo að það rísi undir skyldum sínum. Stöðugur og traustur rekstur þess er kjölfesta í lýðræðislegri umræðu í þjóðfélaginu og tryggir hlutlæga umfjöllun og þátttöku landsmanna í landsmálum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu og stjórnarformi Ríkisútvarpsins sem fela í sér að dagskrárráð og framkvæmdastjórn skipi veigamikinn sess í rekstri þess.

Frumvarpið byggist á núgildandi ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins en í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skerpt verði á skyldum Ríkisútvarpsins til að sinna innlendri dagskrárgerð.

Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til ný skipan og hlutverk framkvæmdastjórnar. Lagt er til að framkvæmdastjórn beri ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og í þessari grein er samsetning hennar og valdsvið skilgreint. Lagt er til að fulltrúi dagskrárráðs eigi sæti í framkvæmdastjórn með málfrelsi og tillögurétt til að styrkja tengsl innan stofnunarinnar. Flutningsmenn telja rétt að áhrif starfsmanna í stjórn stofnunarinnar verði efld til þess að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum, fagmennsku og samábyrgð.

Í 4. gr. er gerð tillaga um að útvarpsstjóri verði skipaður af ráðherra en samkvæmt tillögu dagskrárráðs. Verði frumvarpið að lögum verður tillaga dagskrárráðs bindandi en þannig er lýðræðisleg skipun tryggð betur en nú. Hlutverk dagskrárráðs við mannaráðningar verður því aðeins að gera tillögu um útvarpsstjóra.“ — Þetta eru einu afskiptin eða aðkoma dagskrárráðs að mannaráðningum við Ríkisútvarpið samkvæmt tillögum okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð.

„Samkvæmt frumvarpinu tekur dagskrárráð yfir flest störf útvarpsráðs. Lagt er til að ráðið verði skipað fulltrúum þingflokkanna, sveitarfélaga, Neytendasamtakanna og Bandalags íslenskra listamanna auk þess sem útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar hljóðvarps og sjónvarps og fulltrúi starfsmanna eigi sæti í ráðinu. Dagskrárráð verði ekki umsagnaraðili um mannaráðningar eða skipan mála innan stofnunarinnar eins og útvarpsráð er samkvæmt gildandi lögum ef frá er talin skipun útvarpsstjóra. Höfuðhlutverk þess verði að fjalla um útsenda dagskrá og er brýnt að þannig verði búið um hnútana að gagnrýni og fyrirspurnir fái skriflega afgreiðslu frá stofnuninni. Ráðið á að endurspegla ólík sjónarmið í þjóðfélaginu en ekki valdahlutföll, auk þess sem aðild starfsmanna stuðlar að tengslum við innra starf stofnunarinnar. Við skipun í ráðið skal þess gætt að bæði byggðasjónarmið og kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar.

Ákvæði gildandi laga um framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins í 5. mgr. 9. gr. fellur brott með vísan til 3. gr. frumvarpsins.“ — Þetta eru lagatæknileg atriði. Og enn fjallar hér um lagatæknileg atriði í greinargerð með frumvarpinu. — „Þá er einnig gerð tillaga um breytingu á 6. mgr. 9. gr. laganna er fjallar um mannaráðningar að teknu tilliti til efnisákvæða frumvarpsins.

Þá er í frumvarpinu lagt til að sérstök lög verði sett um afnotagjöld Ríkisútvarpsins þar sem kveðið verði nánar á um gjaldið, stofn þess og innheimtu. Hingað til hafa gjöldin alltaf verið miðuð við skráð viðtæki með þeirri undantekningu að ekki er innheimt nema eitt gjald á hverju heimili þar sem viðtæki er skráð. Hins vegar er lögð til sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að stofn afnotagjalds verði íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á. Með þessu er afnotagjaldinu fundinn nýr farvegur sem tryggir jafnræði milli notenda og Ríkisútvarpinu eðlilegar tekjur af afnotagjaldi. Því er lagt til að gjaldið verði framvegis miðað við fjölda íbúða í landinu og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á. Því er slegið föstu að hverri íbúð fylgi réttur til að nýta þá þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir landsmönnum. Fyrir þann rétt sé síðan greitt afnotagjald eftir nánari reglum sem settar verða í sér lögum.“

Svo að ég fari aðeins nánar yfir þetta, ég vísaði áðan í 3. gr., um framkvæmdastjórnina, að þar sitji útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar allra deilda Ríkisútvarpsins og jafnmargir fulltrúar kjörnir af starfsmönnum, einn frá hverri deild, og fulltrúi dagskrárráðs en hann hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Útvarpsstjóri er formaður framkvæmdastjórnar og er framkvæmdastjóri fjármáladeildar varamaður hans.

Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á almennum rekstri, mannaráðningum, samræmingu á starfi deilda og annarri stjórn Ríkisútvarpsins.

Hjá framkvæmdastjórninni hvílir ábyrgðin á mannaráðningum. Hins vegar er það náttúrlega svo í stórri stofnun að einstakar deildir, einstök svið ráða einstaklingana til starfa en það er mikilvægt, að sjálfsögðu, að ábyrgðin sé skilgreind, hvar hún eigi að liggja.

Sem áður segir skipar ráðherra útvarpsstjóra til fimm ára í senn. Það er í samræmi við reglur sem gilda almennt um embættismenn, en hann gerir það að tillögu dagskrárráðs sem yrði bindandi.

„Menntamálaráðherra“ — segir hér í 5. gr. — „skipar í dagskrárráð Ríkisútvarpsins eftir hverjar alþingiskosningar einn fulltrúa tilnefndan af hverjum þingflokki, tvo fulltrúa tilnefnda af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn fulltrúa tilnefndan af Neytendasamtökunum, einn fulltrúa tilnefndan af Bandalagi íslenskra listamanna, útvarpsstjóra, framkvæmdastjóra hljóðvarps og sjónvarps og einn fulltrúa tilnefndan af starfsmönnum Ríkisútvarpsins.

Dagskrárráð skiptir með sér verkum.“

Dagskrárráð er miklu víðtækara en útvarpsráð sem við þekkjum núna, og eins og ég gat um áðan er þetta spurning um að vera fulltrúi viðhorfa frekar en valdboðs. Þar eru komin til sögunnar Samband íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtökin, Bandalag íslenskra listamanna og fleiri aðilar. Jafnan er gætt að því að starfsmenn eigi sína fulltrúa, í þessu tilviki einn fulltrúa sem starfsmenn tilnefna.

Þetta dagskrárráð á samkvæmt lagafrumvarpi okkar að fjalla um útsenda dagskrá Ríkisútvarpsins og fylgjast með að ákvæði 3. og 5. gr. laganna séu haldin en í þeim greinum er kveðið á um skyldur Ríkisútvarpsins. Síðan segir hér:

„Athugasemdum dagskrárráðs skal svara skriflega sé þess óskað.“

Þarna er enn verið að tala um gagnsæi og aðhald sem er nauðsynlegt, að sjálfsögðu, í þessari stofnun eins og öllum öðrum stofnunum. Við skulum ekki gleyma að í hlutafélögum er iðulega um mikið aðhald að ræða, mjög mikið aðhald. Hvaðan kemur það? Það kemur frá hluthöfum. Það eru þeir sem mæta á fundi og tryggja að starfsemin sé rekin samkvæmt því sem þeir vilja helst og best, og yfirleitt er það til þess að tryggja þeim arð, en látum það vera. Það er til þess. Þegar menn segja að hlutafélagsformið sé gott form og að menn hafi fengið góða reynslu er það rétt. Ég tek undir það. Það á hins vegar bara við um ákveðnar aðstæður. Aðrar ekki. Þegar hlutabréfið er eitt og er sett undir einn ráðherra er eitthvað mjög undarlegt að gerast og við nýtum aldeilis ekki þá kosti sem þetta form hefur upp á að bjóða.

Síðan kemur hér fram að dagskrárráð komi að jafnaði saman mánaðarlega og oftar ef þörf krefur og geti haft frumkvæði að dagskrártillögum. Það er ekkert bindandi, en það getur haft frumkvæði að tillögum.

Síðan segir í 7. gr. að útvarpsstjóri annist ráðningu starfsmanna, þó jafnan að tillögu framkvæmdastjórnar ef um starfsfólk dagskrár er að ræða.

Svo að ég vísi aftur í 3. gr., þar kemur í ljós að ábyrgðin á mannaráðningum er hjá framkvæmdastjórninni. Útvarpsstjóri annast ráðninguna, fer með formlegheitin, en þó jafnan að tillögu framkvæmdastjórnar ef um starfsfólk dagskrár er að ræða. Til að koma í veg fyrir að útvarpsstjóri ráði einn, manni einn fréttastofurnar og alla dagskrárgerðarmenn, þarf framkvæmdastjórnin að koma þar við sögu.

Síðan eru það tekjustofnarnir sem áður segir, og þar erum við með tillögu um að gjaldstofn afnotagjaldsins miðist við íbúðir og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á. Um afnotagjöld og innheimtu þeirra fari eftir ákvæðum laga um afnotagjöld Ríkisútvarpsins, og það er nokkuð sem yrði að ganga sérstaklega frá.

Samkvæmt þessu frumvarpi yrðu gerðar umtalsverðar breytingar á stjórnsýslu Ríkisútvarpsins, tengslum hennar við Alþingi og framkvæmdarvaldið auk þess sem lagt er til að afnotagjald í þeirri mynd sem nú tíðkast yrði lagt niður.

Svo að ég fari í örstuttu máli yfir helstu þættina yrði útvarpsráð lagt niður og í þess stað kæmi dagskrárráð sem fyrst og fremst sinnti því hlutverki að sjá til þess að Ríkisútvarpið sinnti lögbundnum skyldum sínum og veitti stofnuninni þannig faglegt og lýðræðislegt aðhald. Dagskrárráð hefði ekki afskipti af innri stjórnsýslu Ríkisútvarpsins að öðru leyti en því að útvarpsstjóri skyldi jafnan skipaður með samþykki dagskrárráðs. Ráðið byggði ekki á pólitískum valdahlutföllum, heldur væri við skipan þess reynt að tryggja aðkomu mismunandi viðhorfa í samfélaginu. Ekki yrði skorið á tengsl Ríkisútvarpsins við Alþingi því að allir þingflokkar skyldu tilnefna fulltrúa í dagskrárráð ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi íslenskra listamanna og Neytendasamtökunum. Æðstu menn stjórnsýslu Ríkisútvarpsins ættu einnig sæti í dagskrárráði auk fulltrúa starfsmanna. Framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ætti samkvæmt þessu frumvarpi að bera ábyrgð á allri stjórnsýslu stofnunarinnar og væri útvarpsstjóri ábyrgur gagnvart henni. Framkvæmdastjórn væri skipuð forsvarsmönnum deilda Ríkisútvarpsins auk fulltrúa starfsmanna. Útvarpsstjóri í umboði framkvæmdastjórnar annaðist ráðningu starfsmanna en þegar um væri að ræða ráðningu þeirra sem önnuðust dagskrárgerð skyldi ætíð byggt á samþykki framkvæmdastjórnar. Þá er gerð tillaga um að afnotagjöld í núverandi mynd yrðu lögð niður og þess í stað yrðu fasteign íbúða og atvinnuhúsnæði stofn gjaldsins. Gert er ráð fyrir því að um gjöldin, fyrirkomulag og innheimtu, yrðu sett sérstök lög, sérlög. Í frumvarpinu er byggt á ákvæðum í núgildandi lögum um hlutverk Ríkisútvarpsins en skerpt á skyldum þess varðandi íslenskt dagskrárefni.

Þetta er sá valkostur sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum boðið upp á. Við höfum lagt áherslu á það, ásamt félögum okkar í stjórnarandstöðunni, að reyna að ná saman um þverpólitíska lausn í þessu máli. Er það gerlegt? Já, það er það. Ef við gefum okkur að Sjálfstæðisflokknum sé alvara með að hann vilji ekki og ætli sér ekki að selja Ríkisútvarpið — við höfum okkar grunsemdir en gefum okkur þetta, hann vilji hins vegar bæta stjórnsýslu stofnunarinnar þannig að hún verði markvissari og betri, við gefum okkur líka að Framsóknarflokkurinn sé sama sinnis — er hitt í rauninni tæknilegt úrlausnarefni. Ef menn láta af þessari hörðu hlutafélagslínu en horfa einvörðungu á markmiðin, hvað það er sem menn vilja ná, held ég að menn gætu náð saman.

Mætti ekki þá reisa nákvæmlega sömu kröfu á mig, og okkur sem er svo uppsigað við hlutafélagsformið? Jú, vissulega. En þá spyr ég á móti: Er það órýmilegt? Er ekki bara skiljanlegt að menn vilji ekki sætta sig við formbreytingu sem hefur í för með sér réttindaskerðingu fyrir starfsfólk? Og að stofnun sé fjarlægð almenningi með að taka hana undan upplýsingalögum? Við eyddum miklum tíma í upplýsingalögin á sínum tíma, miklum tíma í vandaða yfirferð. Menn töldu það skipta svo miklu máli að stjórnsýslan og hið opinbera væri öllum opið. Hvaða stofnun ætti að vera opnust af öllum stofnunum? Er það ekki Ríkisútvarpið sem er þungamiðjan í fréttaflutningi í landinu? Er það ekki hún sem á að vera opnust af öllum? Ég hefði haldið það. Þó að stjórnarandstaðan hafi orðað það sem möguleika í einhvers konar málamiðlun að skoða önnur rekstrarform, hugsanlega einkaréttarlegs eðlis þó að ég sé ekki hrifinn af því — en gefum okkur að við séum að reyna að ná saman um einhverja málamiðlun — skulum við ekki gleyma því að það felur engu að síður í sér að við fjarlægjumst þessi lög sem kveða á um opnun, gagnsæi og aðgang almennings í gegnum upplýsingalög og önnur lög sem eiga einnig að standa vörð um réttindi starfsmanna. Það skiptir líka máli þegar um er að ræða þá sem sinna ýmsum störfum þar sem reynir á frelsi og sjálfstæði einstaklinganna. Þá er ég að horfa til fréttamannanna.

Hæstv. forseti. Af því að við höfum svo góðan tíma hér í fámenninu í kvöld langar mig að fara svolítið yfir þær umsagnir sem bárust menntamálanefnd um þetta frumvarp. Sumt af því hefur komið fram hér áður við umræðuna og ég ætla ekki að hafa langt mál um það svo að við séum ekki að tvítaka okkur hér en víkja að ýmsum þáttum sem mér finnst skipta máli. Ég skipti þessum athugasemdum í nokkra flokka.

Í fyrsta lagi er sá flokkur sem gagnrýnir frumvarpið á viðskiptalegum forsendum, eigum við að segja frá hægri eða eigum við að segja bara á viðskiptalegum forsendum? Þá er ég að horfa til aðila á borð við Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins, fyrirtækja á borð við 365 fjölmiðla, Skjá 1, Útvarp Sögu og hugsanlega fleiri aðila einnig sem segja að Ríkisútvarpinu verði heimilað samkvæmt þessum lögum að fara of langt inn á samkeppnismarkað. Þannig segir hér í áliti sem menntamálanefnd barst frá Viðskiptaráði, með leyfi forseta:

„Viðskiptaráð hefur margoft látið í ljós þá skoðun að reglur um samkeppni þjóni ekki tilgangi sínum fyrr en ríki og sveitarfélög dragi úr þeim rekstri sínum sem keppir við einkaaðila og hindrar þannig aðgang að markaðnum. Þess vegna hefur Viðskiptaráð mælt fyrir því að starfsumhverfi ríkisfjölmiðlanna verði endurskoðað. Hefur ráðið einkum lagt það til að RÚV verði gert að hlutafélagi með það að markmiði að selja að minnsta kosti hluta þess.

Viðskiptaráð fagnar því að Ríkisútvarpið verði sett í nútímalegt rekstrarform, sbr. 1. málsl. 1. gr. frumvarpsins.“ — Það er tilvísun í hlutafélagavæðinguna. — „Hlutafélagaformið skerpir á hlutverki og ábyrgð stjórnenda. Þá ber að fagna því að hlutverk útvarpsins sé tilgreint í 3. gr. frumvarpsins. Mikilvægt er að félagið muni halda sig innan þess ramma sem þar er veittur og standi ekki í samkeppni um dagskrárefni við einkarekna fjölmiðla.“

Síðan heldur áfram án þess að ég ætli að fara nánar út í þá sálma. Hér er að finna umsögn frá sama aðila, Viðskiptaráði Íslands, sennilega tekið af vefsíðu Viðskiptaráðsins en er að finna í gögnum menntamálanefndar þar sem kveður við svipaðan tón. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi menntamálaráðherra er verið að blása til sóknar ríkisrekstrar gegn einkarekstri sem hefur þegar haslað sér völl á markaðnum. Þessi framganga ríkisins spillir heilbrigðum rekstrarskilyrðum á fjölmiðlamarkaði. Þannig liggur í augum uppi að ef frumvarpið fjallaði ekki um RÚV heldur fyrirtæki í einhverri annarri atvinnustarfsemi í landinu sæist glögglega hve frávik frá eðlilegum leikreglum markaðarins eru hrópandi í frumvarpinu. Að sama skapi hefur Viðskiptaráð margoft bent á það að ríkinu beri skylda til að sporna gegn frekari útgjaldaþenslu með því að gæta aðhalds í rekstri sínum, draga úr starfsemi hins opinbera og lækka álögur á skattgreiðendur. Fyrirliggjandi frumvarp um RÚV hf. er síst til þess fallið að uppfylla slíkar skyldur.“

Síðan eru miklar vangaveltur um heilbrigða samkeppni sem svo er nefnd í þessu áliti og skrifum sem birtust á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands.

Það er eitt athyglisvert í því sem ég las hér upp áðan, þ.e. þar sem segir að það kæmi glögglega í ljós ef fjallað væri um einhverja aðra atvinnustarfsemi en Ríkisútvarpið. Þá sæist glögglega hve hrópandi frávikin í frumvarpinu eru frá því sem kallað er eðlilegar leikreglur markaðarins.

Staðreyndin er náttúrlega sú að við erum ekki að tala um hverja aðra atvinnustarfsemi. Ríkisútvarpið sinnir menningarlegum skyldum og því er einmitt ætlað að axla ábyrgð og sinna skyldum sem eru þess vegna ekki markaðsvænar, svo að við notum það orðalag. Sá er mergurinn málsins. Við erum að fjalla um annars konar starfsemi. Þannig hefur verið á það bent að þegar ESA-dómstóll eða samkeppnisyfirvöld á hinu Evrópska efnahagssvæði nálgast þessi viðfangsefni horfi þau til slíkra þátta en síðan horfi aðrir aðilar á hina menningarlegu þungamiðju, hinar menningarlegu skyldur. Þar hefur m.a. verið vísað í aðra evrópska stofnun, Evrópuráðið. En Viðskiptaráðið leggur áherslu á að Ríkisútvarpið sem og reyndar aðrar stofnanir hjá ríkinu haldi sig á mottunni og færi sig ekki yfir á svið þar sem eru önnur fyrirtæki.

Hér er ég með umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, og reyndar tvær því að það er tæpur ársmunur á þeim. Fyrri umsögnin er frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram í reyndar annarri mynd. Þá átti útvarpið að verða — ja, hvað átti það að verða? Átti það ekki að verða sameignarfélag, eða hvað? (MÁ: Jú, sameignarfélag.) Sameignarfélag, það vafðist fyrir mörgum að finna út hvað það þýddi, hverjir sameigendurnir væru því að þegar frumvarpið var síðan lesið var eigandinn bara einn og hann var ríkið. Menn áttu erfitt með að átta sig á því hvað vekti eiginlega fyrir ríkisstjórninni.

Þá var það svo, þegar það frumvarp kom fram, að allt ætlaði að farast, svo mikill var ákafinn að reyna að koma málinu í gegn. Þetta yrði bókstaflega að verða að lögum fyrir vorið var okkur sagt. Síðan leið og beið. Mikil andstaða myndaðist við frumvarpið í þjóðfélaginu almennt og sú andstaða var vel þekkt hér innan þingsins einnig þannig að úr varð að frumvarpinu var frestað. Nú eru allir guðslifandi fegnir að sá óskapnaður varð ekki að lögum. Það frumvarp var að mörgu leyti enn þá vitlausara en þetta þegar kom að ýmsum innviðum í stjórnsýslunni. Ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma en ég hef heyrt ýmsa aðstandendur þess frumvarps hrósa happi yfir því að það náði ekki fram að ganga á sínum tíma. Þannig er það oft með lagasmíð og breytingar sem verið er að gera af því tagi sem hér er til umfjöllunar að það er hyggilegt að fara varlega í sakirnar. Bretar gefa sér nokkur ár til þess að ræða lagagrunninn undir breska ríkisútvarpinu og síðan gefa þeir stofnuninni frið í áratug eða svo þangað til aftur er farið af stað. Menn fylgja stöðugt tíðarandanum og því sem talið er vera til bóta á hverjum tíma.

Í seinni álitsgerð Samtaka atvinnulífsins er vísað í fyrra álit því að hér segir í miðri umsögninni, með leyfi forseta:

„Hið nýja frumvarp felur í sér vissa framför frá því sem áður var, sem einkum felst í því að ráðgert er að hlutafélag í 100% eigu ríkisins verði stofnað um reksturinn í stað sameignarfélags áður. Þá er það til bóta að gert er ráð fyrir þeim möguleika að fjárhagslegur aðskilnaður verði milli útvarps í almannaþágu og annarrar hugsanlegrar starfsemi Ríkisútvarpsins.“

Það er nefnilega það. Þetta er atriði sem þyrfti líka að ræða mjög rækilega. Hvað eiga menn nákvæmlega við með þessu? Eru menn að feta sig inn í þau landamærafræði sem ég vísaði til varðandi BBC og ég tók að vissu leyti undir áðan eða er það eitthvað annað? Ég er sannfærður um að mín skilgreining á því hvar þessi landamæri ættu að liggja eru á allt öðrum stað en skilgreining landamærafræðinga Samtaka atvinnulífsins.

Hér eru ítarlegar álitsgerðir frá Samtökum atvinnulífsins frá því í fyrra sem ég hirði að sjálfsögðu ekki um að rekja, og ekki heldur frá ýmsum aðilum. Hér er Rithöfundasambandið með álit og er það nú komið inn í bunkann hjá mér því að ég ætlaði að halda mig við fyrirtækjahópinn í álitsgjöfum. Það eru annars vegar samtökin, þ.e. Viðskiptaráð eins og það heitir núna og Samtök atvinnulífsins, og síðan koma einstakar fyrirtækjasamsteypur og hér er heilmikið plagg frá 365 fjölmiðlum, undirritað af Ara Edwald, forstjóra þess fyrirtækis. Þar er því haldið fram að frumvarpið samræmist ekki ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki og harðlega er gagnrýnt að frumvarpið víki frá grundvallarsamkeppnisreglum, eins og hér er talið.

Ég ætla að lesa niðurlagið orðrétt, með leyfi forseta:

„Burt séð hins vegar frá því hvaða heimildir íslensk stjórnvöld kynnu að hafa gagnvart Evrópureglum til að víkja frá grundvallarsamkeppnisreglum hlýtur að sæta furðu að stjórnvöld vilji leggja til skipan á sviði fjölmiðlarekstrar sem felur í sér algert stílbrot frá þeirri þróun sem orðið hefur í umhverfi annarrar atvinnustarfsemi á Íslandi á undanförnum árum. Nægir þar að vísa til breytinga á fjarskiptamarkaði og fjármálamarkaði og umræðu um stöðu Íbúðalánasjóðs, svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

Það fyrirkomulag órökstuddrar mismununar og ójafnrar samkeppnisstöðu sem hér er verið að leggja til er tímaskekkja og 365 miðlar hljóta að treysta því að frumvarpið verði ekki óbreytt að lögum.“

Þarna er mjög hörð gagnrýni frá hægri, frá viðskiptalífinu, nokkuð sem ég get alls ekki tekið undir, og allra síst þegar vísað er í stofnanir á borð við Íbúðalánasjóð sem þessi samtök vilja feig. Hins vegar hef ég ákveðinn skilning á þessu viðhorfi, ekki síst þegar ákvörðun er tekin um það að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og halda með það inn á markað. Þá finnst mér þessi gagnrýni, því miður liggur mér við að segja því að ég hef verið og er mikill stuðningsmaður Ríkisútvarpsins, og þessir aðilar hafa meira til síns máls, það er mín skoðun. Ég er sannfærður, sérstaklega í ljósi yfirlýsingar sem aðilar eins og Ari Edwald fyrir hönd 365 fjölmiðla gefa, um að þetta standist ekki EES-reglur, um að þessi mál eigi eftir að lenda fyrir dómstólum. Það eru ekki bara biðlaunin og réttindaskerðingin hjá starfsmönnum heldur á þetta án efa eftir að fara þangað inn.

Eitt mjög slæmt er að gerast innan Evrópusambandsins, og ég held að ég tali fyrir hönd mjög margra algjörlega óháð því hvaða skoðun menn hafa á Evrópusambandinu, og það er að dómstólar eru að verða sífellt meira pólitískt mótandi um framvinduna. Þá gerist það þannig að sá sem setur reglurnar, lög eða reglur, setur reglur mjög almenns eðlis. Síðan eru saumaðir inn í þær reglur alls kyns fyrirvarar til að koma í veg fyrir eitthvað sem hagsmunaaðilar eða þrýstihópar vilja hafa áhrif á. Dómstólarnir horfa hins vegar frekar til grunnreglunnar og hirða minna um fyrirvarana. Þetta er þróun sem á sér í sífellt ríkari mæli stað innan Evrópusambandsins segja þeir sem glöggt þekkja til þeirra mála.

Þetta voru 365 fjölmiðlar. Hér er, enn í mjög ítarlegu máli, álitsgerð frá sömu aðilum frá því í fyrra sem ég læt liggja á milli hluta. Eins er hér Skjárinn með umsögn um frumvarpið. Þar er gagnrýni, ekki síst á auglýsingatekjurnar, frumvarpið er gagnrýnt frá þeirri hliðinni. Sú gagnrýni hefur komið fram hjá þessum aðilum í langan tíma þannig að það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Skjárinn vísar einnig í athugasemdir sem koma frá Samtökum atvinnulífsins og tekur undir þær. En á þeim bæ er líka mikil gleði yfir því mikla framfaraspori sem þeir telja felast í því að Ríkisútvarpið verði gert að öllu leyti að hlutafélagi.

Síðan er álitsgerð frá Útvarpi Sögu. Í því áliti kemur fram nokkuð nýstárleg tillaga því að útvarpsstjóri þar, Arnþrúður Karlsdóttir, er með þá tillögu að í stað þess að gjald verði greitt til Ríkisútvarpsins eins verði greiðandanum heimilað að velja á milli útvarpsstöðva, að hann greiði það gjald sem um er rætt, 13.500 kr., en merki við til hvaða stöðvar, fyrirtækis, hann vilji láta gjaldið renna. Þetta minnir svolítið á trúarbrögðin, hvort menn vilji láta peningana renna til — reyndar er þar nú ekki eins mikið valfrelsi en menn geta þó valið milli þjóðkirkju og Háskóla Íslands. Eða geta menn valið á milli annarra trúarhópa? Svo mun, að ég hygg, ekki vera. En þarna kemur fram tillaga frá Útvarpi Sögu. Og þarna er enn gagnrýni á þessa aðstöðu Ríkisútvarpsins.

Síðan er það Ríkisútvarpið sjálft. Það sendir ítarlega greinargerð frá útvarpsstjóranum og samstarfsmönnum hans þar sem lögð er áhersla á að félaginu verði tryggt eðlilegt eigið fé frá byrjun. Þetta er hlutur sem er enn óleystur. Eins og ég gat um áðan hefur útvarpsstjóri gert tillögu um að skuldum Ríkisútvarpsins við ríkissjóð verði snúið yfir í hlutafé og þær látnar renna til stofnunarinnar að nýju. Þetta eigi a.m.k. að hluta til að leysa vanda Ríkisútvarpsins. En stóra spurningin er þessi: Hvernig kemur stofnuninni til með að reiða af þegar fram líða stundir? Þetta er ekkert bara spurning um byrjunina heldur einnig hvernig að henni verði búið til frambúðar. Lögð er einmitt áhersla á að rekstrarforsendur verði skýrar hvað varðar tekjur og gjöld. Það eru mjög skiljanlega ábendingar og óskir sem koma frá Ríkisútvarpinu, útvarpsstjóra og samstarfsmönnum hans.

Síðan erum við komin í annan flokk umsagnaraðila, menningartengdra aðila. Ég vil taka fram að ég sleppi fjölmörgum aðilum sem hafa sent inn athugasemdir um þetta frumvarp. Ég gat um það áðan í yfirferð minni að margir aðilar sem tengjast menningu, menntun og listum vilja ríkari áherslu í lagafrumvarpinu á skyldur Ríkisútvarpsins í menningarlegu tilliti.

Í umsögn Málvísindastofnunar Háskóla Íslands er áhersla lögð á þýðingar, í sjónvarpi sérstaklega, á íslenskt tal eða texta. Þau hafa staðnæmst við orðið „jafnan“ og vilja hafa „ætíð“, að það sé alltaf þýtt, ætíð en ekki jafnan. Það er sjónarmið þeirra. Sama kemur frá Íslenskri málstöð. Þar er lögð rík áhersla á þýðingarnar og íslenskt tal. Hér er umsögn frá íslenskuskor Háskóla Íslands. Þar er einnig lögð áhersla á að hnykkt sé á skyldum Ríkisútvarpsins og í þessu tilviki varðandi bókmenntir og aðra þætti einnig.

Þetta voru hinir menningarlegu aðilar, og þeir eru fleiri. Síðan eru það aðilar sem láta sig öryggið varða, ríkislögreglustjórinn og Landssamband lögreglumanna, sem leggja áherslu á að Ríkisútvarpið eigi að sinna nauðsynlegri öryggisþjónustu. Það er ekki beint í anda frumvarps þeirra hv. þm. Péturs H. Blöndals og Birgis Ármannssonar, og hér áður Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem vildu láta bjóða út öryggisþáttinn.

Hér eru fleiri aðilar, t.d. Orðabókin. Svo er talsmaður neytenda með allítarlega umfjöllun. Hann er þeirrar skoðunar að afnotagjald, eins og verið hefur við lýði, hafi verið vel til þess fallið að notendur greiði fyrir þjónustu Ríkisútvarpsins og að ekki sé æskilegt í sjálfu sér að rjúfa tengsl þjónustu og gjalds. Hann hefur sem sagt efasemdir um þetta. Hann reifar einnig aðra þætti, og segir m.a., með leyfi forseta:

„Ekki er vikið að því í frumvarpinu hvernig notendum Ríkisútvarpsins er fært að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi útvarpsþjónustu í almannaþágu. Ég tel í þessu sambandi æskilegt að komið verði á fót lýðræðislega skipuðu ráði notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu – neytendaráði – einkum ef ofangreind formbreyting til hlutafélags verður samþykkt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir enda er sú breyting, sem sagt, ekki til þess fallin að bæta stöðu notenda; má þá auka gegnsæi, aðhald og áhrif notenda með þessu móti í staðinn. Hugsanlega má koma slíku ráði á fyrir fleiri ljósvakamiðla með því að setja ákvæði um það í almenn útvarpslög. Tel ég neytendaráð til þess fallið að veita ljósvakamiðlum stuðning og aðhald.“

Þetta eru athyglisverðar vangaveltur sem fram koma hjá talsmanni neytenda sem gagnrýnir nefskattinn, telur þá breytingu ekki horfa til framfara. Síðan segir hann um sjálfa formbreytinguna, rekstrarformsbreytinguna, með leyfi forseta:

„Ég tel að í greinargerð með frumvarpinu (bls. 10–11) sé ekki sýnt fram á að hagsmunum og réttindum neytenda – notenda þjónustu Ríkisútvarpsins – sé betur borgið með því að Ríkisútvarpinu sé breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Lít ég þá annars vegar til þess að af því virðist leiða að lög á borð við upplýsingalög, nr. 50/1996, með síðari breytingum, og stjórnsýslulög, nr. 37/1993, með síðari breytingum — sem taka til „stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga“ — gildi ekki um Ríkisútvarpið; er það að mínu mati ekki til þess fallið að bæta stöðu notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hins vegar tel ég að hlutafélagsformið sé ætlað fyrir rekstur með arðsemismarkmið — en ég tel óljóst hvort arðsemi eigi samkvæmt frumvarpinu að vera tilgangur Ríkisútvarpsins framvegis. Verði sýnt fram á nauðsyn formbreytingar tel ég að hagsmunum notenda útvarpsþjónustu í almannaþágu sé betur borgið með því að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun eins og nefnt er sem valkostur á sama stað í greinargerð með frumvarpinu. Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur gilda lög nr. 33/1999; þar eru ítarleg og skýr ákvæði um stjórnun og fjárhagslegan aðskilnað (sjá t.a.m. 29. gr. þeirra laga) sem samrýmast vel þeim sjónarmiðum sem nefnd eru í greinargerðinni (bls. 11 og 12) til stuðnings vali á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Sjálfseignarstofnun er að mínu mati hentugt form fyrir rekstur sem hefur almannaþjónustu sem megintilgang. Sjálfseignarstofnun hefur arðsemi ekki sem rekstrartilgang heldur rennur hugsanlegur arður af starfseminni aftur inn í reksturinn til þess að sinna markmiðinu með honum og þar með til notenda þjónustunnar. Þá er sjálfseignarstofnun með takmarkaða ábyrgð enda er hún ekki tengd neinum eigendum þar eð stofnendur skilja sig frá rekstri sjálfseignarstofnunar þegar hún er sett á fót.

Vikið er að því í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins (bls. 20) að sú krafa sé í vaxandi mæli gerð til fyrirtækja sem reka útvarp í almannaþágu að þau „skili jafnvel hagnaði“. Einnig er í inngangi almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu (bls. 7) fjallað um þann skilning Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) að taka þurfi tillit (3. tl.) til „sanngjarnrar framlegðar“ af rekstri og (4. tl.) til „sanngjarnrar arðsemiskröfu“. Á hinn bóginn má skilja uppsetningu 3.–5. gr. frumvarpsins og ummæli í greinargerð (bls. 8) á þá lund að „starfsemi sem sé viðskiptalegs eðlis“ sé frávik frá almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.“

Síðan heldur talsmaður neytenda áfram í alllöngu og ítarlegu máli. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma en vek athygli á þeim sjónarmiðum að hann gagnrýnir þessa kerfisbreytingu, þessa rekstrarformsbreytingu, á þeirri forsendu að ekki hafi verið sýnt fram á að hún þjóni þeim markmiðum sem lagasmiðirnir tala sjálfir fyrir. Það væri nær að fara aðrar leiðir til að ná þessum markmiðum. Síðan er talsmaður neytenda með ýmsar ábendingar sem varða auglýsingar.

Annar aðili, talsmanni neytenda skyldur, þ.e. Neytendasamtökin, er einnig með álitsgerð um frumvarpið. Neytendasamtökin segjast ekki taka afstöðu til rekstrarforms Ríkisútvarpsins en leggja áherslu á að það eigi að vera í eigu almannavaldsins og eru með ýmsar aðrar ábendingar einnig. Neytendasamtökin telja að betur þurfi að skýra ýmsar greinar frumvarpsins, t.d. 3. gr. sem tíundar hlutverk Ríkisútvarpsins, hún þurfi að verða ítarlegri. Þá er vikið að fjármögnun Ríkisútvarpsins og sagt að upphæð nefskatts sem kynnt sé í frumvarpinu sé mjög há og komi illa við mörg heimili þar sem stálpaðir unglingar eða ungt fólk býr enn í foreldrahúsum. Neytendasamtökin minna á að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu með afnotagjöldum hafi reynst óvinsæl hjá mörgum og að hætt sé við því að nefskattur sem er jafnhár og frumvarpið gerir ráð fyrir verði ekki síður óvinsæll. Neytendasamtökin mæla með því að skoðað verði hvort ekki eigi að flétta saman mismunandi fjármögnunarleiðum, þ.e. nefskatti sem yrði lægri en fram kemur í frumvarpinu og fjárveitingum sem ákveðnar yrðu af Alþingi, auk auglýsinga og kostunar. Neytendasamtökin vísa síðan í sjónarmið sem fram koma í umsögn Hollvina Ríkisútvarpsins um akademíska stjórn stofnunarinnar en það mun hafa verið við frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi um Ríkisútvarpið sf., sameignarfélag. Sitthvað fleira kemur fram í þessari álitsgerð.

Síðan væri hægt að staldra við og hafa mjög langt mál um þær deilur sem hafa risið vegna hljóðfæraeignar. Þá er það náttúrlega fiðlan fræga sem hefur verið til umfjöllunar en ástæða þess að ég minnist á þetta er sú að ég er með fyrir framan mig umsögn frá starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem telur ekki nægilega ljóst hvernig löggjafinn vilji að málum verði háttað gagnvart Sinfóníunni í framtíðinni. Það er önnur saga og annað frumvarp þó að það sé nátengt þessu.

Þá erum við, hæstv. forseti, farin að nálgast álitsgerðir frá starfsmannafélögum og reyndar ýmsum almannasamtökum. Áður en ég kem að þeim vísa ég í álitsgerðir frá samtökum kvikmyndagerðarmanna sem hafa viljað að Ríkisútvarpið kæmi betur til móts við þá. Hér eru ítarlegar greinargerðir sem fylgja áliti þeirra þar sem m.a. er farið yfir íslenska dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu og nokkuð sem vert væri að fara nánar í saumana á síðar við þessa umræðu.

Ég ætla einnig að láta hitt bíða hér örlítið, mjög athyglisverða umsögn frá ríkisskattstjóra, en víkja hins vegar að álitsgerðum starfsmannafélaganna, frá Landssambandi eldri borgara og öðrum aðilum. Ég var búinn að víkja að Landssambandi lögreglumanna sem lagði áherslu á öryggishlutverk Ríkisútvarpsins. Hér er Kennaraháskóli Íslands sem segir að tryggja þurfi vandaða útvarpsþjónustu í almannaþágu með bæði hljóðvarpi og sjónvarpi þar sem metnaður er lagður í fjölbreytta dagskrárgerð til fræðslu og skemmtunar fyrir alla aldurshópa.

Það er athyglisvert hve vel allar helstu mennta- og menningarstofnanir landsins vilja búa að Ríkisútvarpinu. Það er einhugur um það, og afskaplega sorglegt að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn séu að hrifsa þessa stofnun úr hendi þjóðarinnar og þröngva henni út á markaðinn. Ég er sannfærður um að það er í andstöðu við yfirgnæfandi meiri hluta starfsmanna og yrði væntanlega í andstöðu við alla eða a.m.k. flesta ef málin fengju nægilega góðan tíma til umfjöllunar.

Landssamband eldri borgara sendir ekki langa umsögn. Þar er vísað í öryggishlutverkið, og stuðningi lýst við afnotagjöldin. Landssambandið segir að afnotagjöldin séu viðtekin fjármögnunarleið í nágrannalöndunum og verulegt umhugsunarefni hvort hróflað skuli við því formi.

Alþýðusamband Íslands varar í umsögn sinni við nefskattinum, ef ég man rétt. Alþýðusambandið rifjar það upp að á síðasta ári hafi sambandið gefið umsögn um breytingu á Ríkisútvarpinu í sameignarfélag en andstöðu verið lýst af hálfu ASÍ við þá breytingu, bæði á rekstrarforminu og fjármögnun Ríkisútvarpsins. Hér segir, með leyfi forseta:

„ASÍ var og er þeirrar skoðunar að víðtækt hlutverk RÚV í almannaþágu, bæði í óháðri fréttamiðlun og menningarlegu hlutverki, sé þess eðlis að afar mikilvægt sé að RÚV verði með öruggum hætti áfram í almannaeigu.

ASÍ telur mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði RÚV og telur að það megi gera með því að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkist víða, þ.e. að starfsmönnum og sjálfstæðum aðilum utan stofnunar verði auk þings og ráðherra gert að skipa fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.

Sem fyrr lýsir ASÍ efasemdum sínum við fyrirhugaða breytingu á fjármögnun RÚV, þ.e. með sérstökum nefskatti í stað afnotagjalda eins og fram kom í fyrri umsögn. Jafnframt má benda á, að með því að breyta fjármögnun RÚV með þessum hætti getur það leitt til röskunar á samkeppnisstöðu gagnvart öðrum fjölmiðlafyrirtækjum, sem innheimta afnotagjöld.

Verði af fyrirhuguðum breytingum á rekstrarformi RÚV, leggur ASÍ áherslu á, að í hvívetna og með sýnilegum og virkum hætti verði fylgt lögum um aðilaskipti að fyrirtækjum og réttarstaða allra starfsmanna sem margir eiga allan starfstíma sinn hjá stofnuninni verði tryggð. Mörg undanfarin ár hefur og mörgum starfsmönnum RÚV verið haldið á endurteknum tímabundnum ráðningarsamningum og eins konar verktökusamningum. ASÍ leggur áherslu á að öllum þessum starfsmönnum verði tryggð sama réttarstaða og annarra starfsmanna RÚV ef og þegar breytingarnar fara fram. Mikilvægt er að ráðherra gefi skýrar yfirlýsingar hér að lútandi svo þeir starfsmenn sem ekki hafa notið fullnægjandi réttarstöðu njóti sömu réttinda og fast starfslið RÚV. Þá er og bent á, að til þess að tryggja sjálfstæði starfsmanna gagnvart stjórn og framkvæmdastjóra er og nauðsynlegt að lögin geymi sérstök ákvæði um málefnalegar, rökstuddar og áfrýjanlegar uppsagnir.“

Undir þetta tek ég með Alþýðusambandi Íslands. Verð ég að segja að þetta er ljóður á ráði RÚV til nokkurra ára, þ.e. hve það hefur tíðkast innan stofnunarinnar að ráða fólk til verktöku. Með því móti er starfsöryggi fólksins minna og réttarstaðan rýrari að ýmsu leyti. Ég tek undir þessar ábendingar Alþýðusambands Íslands.

Umsögn stjórnar Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins um frumvarp um Ríkisútvarpið hf., með leyfi forseta:

„Stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins fagnar því að hlutverk Ríkisútvarpsins eigi áfram að vera að reka útvarp og sjónvarp í almannaþágu. Hins vegar telja samtökin það óviðunandi að eigendurnir, það er fólkið sem byggir þetta land, eigi samkvæmt frumvarpinu ekki neina leið til að koma athugasemdum á framfæri um dagskrá og fréttir stofnunarinnar. Hvergi í frumvarpinu er að finna ákvæði um hvernig farið skuli með athugasemdir og ábendingar frá almenningi.

SSR leggur til að í frumvarpið verði sett inn sérstakt ákvæði um umboðsmann hlustenda. Sá hafi það hlutverk að taka við kvörtunum og ábendingum og fylgjast með því að fyllstu óhlutdrægni hafi verið gætt í fréttaflutningi, frásögnum, túlkunum og dagskrárgerð. Enn fremur telur SSR að Ríkisútvarpið sem fyrirtæki í almannaeign skuli lúta upplýsingalögum.“

Það þýðir í reynd að stofnuninni ætti ekki að breyta í hlutafélag vegna þess að hlutafélög, eðli máls samkvæmt, eru undanþegin upplýsingalögum.

Áfram segir um einstaka liði, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að greinilegar komi fram í lagatexta innihald skýringargreinar við I. kafla um að ekki megi selja neitt af hinu nýja fyrirtæki, hvorki í heild né í hlutum þar með talin dótturfyrirtæki, án nýrrar lagasetningar.“

Varðandi II. kafla eru einnig gerðar athugasemdir um mögulegar breytingar og síðan segir að það sé verulega óljóst við hvað sé átt í 4. gr., hvers konar fyrirtæki gæti verið um að ræða og hvernig rekstri þess skuli háttað.

Þar er vikið að lagagrein sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti.“

Hérna vill stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins að skýrar sé kveðið á um hvernig rekstrarfyrirkomulag gæti fyrirtæki haft sem er til að mynda að hluta til í eigu Ríkisútvarpsins hf. og að hluta til í eigu fyrirtækis á almennum markaði. Nánar er vikið að þessu.

Síðan er áhersla lögð á að starfsmenn haldi öllum áunnum réttindum sínum. Þá er þess krafist að setningunni sem er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Ríkisútvarpið hf. skal bjóða störf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins“ verði breytt og hún hljóði svo: „Ríkisútvarpið hf. skal bjóða sama starf öllum starfsmönnum Ríkisútvarpsins.“

Að öðru leyti vísa starfsmannasamtökin til umsagna BSRB, BHM og Rafiðnaðarsambandsins um réttindi starfsmanna. Ýmsar nánari ábendingar eru í þessari umsögn frá stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins sem eru eins konar regnhlífarsamtök, en athygli vakin á því að tekið er undir þær ábendingar sem koma fram hjá BHM, BSRB og Rafiðnaðarsambandinu.

Stjórn Blaðamannafélagsins er með álitsgerð þar sem vakin er athygli á ýmsum þáttum. Ég staðnæmist við það sem hér segir undir það síðasta, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu ræður útvarpsstjóri aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins hf. Lagt er til í frumvarpinu að nánar verði kveðið á um starfssvið útvarpsstjóra í samþykktum félagsins. Þá er útvarpsstjóri samkvæmt frumvarpinu æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins.

Stjórn BÍ telur rétt að skilgreina betur starfssvið útvarpsstjóra í lögunum, eða að lögin kveði á um að settar verði sérstakar reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart útvarpsstjóra.“

Það er eitt athyglisvert líka hjá Blaðamannafélaginu og reyndar margt í umsögn þess. Stjórn Blaðamannafélagsins leggur t.d. til að fleiri aðilar en Alþingi fái að skipa fulltrúa í stjórn hlutafélagsins, m.a. starfsmenn Ríkisútvarpsins, og að slíkt eigi sér fordæmi í nágrannalöndum okkar. Það er vísað til NRK í Noregi í því sambandi. Ítarlegar er fjallað um mikilvægi þess að tryggja sjálfstæði ritstjórna gagnvart flokkspólitískri eða efnahagslegri íhlutun, það megi m.a. gera með því að kveða á um að setja þurfi innri reglur sem fjalli m.a. um skilyrði áminningar og brottvikningar.

Þar er, hæstv. forseti, vísað í lög og reglur sem eru við lýði núna, eru í Ríkisútvarpinu núna. Menn sitja hér með prjóna og sauma og reyna að stoppa upp í göt á hlutafélagalögum til þess að reyna að nálgast það fyrirkomulag sem við erum með núna og er verið að eyðileggja með þessu frumvarpi.

Frá Hollvinasamtökunum kemur ítarleg greinargerð sem ég ætlaði að vera búinn að taka fyrir áður en ég kæmi inn í álitsgerðir stéttarsamtakanna. Ég ætlaði að víkja aðeins að Hollvinasamtökunum sem eru mjög merkileg samtök, stofnuð til þess að verja og vernda Ríkisútvarpið. Fyrir nokkrum árum var vitað hvert stefndi, við höfðum heyrt þennan ásetning og yfirlýsingar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vildu leggja Ríkisútvarpið niður, markaðsvæða það, selja það og leggja niður eins og framkvæmdastjóri flokksins orðaði það, tími þess væri einfaldlega liðinn. Ég hef grun um að Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins hafi sprottið upp úr því andrúmslofti þó að þar sé eflaust fólk komið að úr ýmsum áttum.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Grundvallarstefna Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er andstaða við hlutafélagavæðingu þess. Samtökin telja að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi verði hlutverki þess sem þjóðarútvarps ógnað. Ríkisútvarpið hefur hingað til haft skyldum að gegna umfram það sem markaðsfyrirtæki sinna, svo sem mikilvægu öryggishlutverki og framleiðslu á íslensku menningarefni fyrir útvarp og sjónvarp. Vegna eðlis hlutafélaga er ljóst að með því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi rofna þau tengsl sem það hefur haft sem þjóðarútvarp með menningarlega og samfélagslega ábyrgð. Þess vegna leggjast samtökin gegn frumvarpi þessu.

Í 1. grein frumvarpsins er að vísu ákvæði um að ekki megi selja félagið eða hluta þess og hnykkt á því í athugasemdum með frumvarpinu að engin áform séu um slíkt. En öllum lögum má breyta sé fyrir því meiri hluti á Alþingi og Hollvinasamtökin minna á að sporin hræða vegna þess að hingað til hafa opinber fyrirtæki sem breytt hefur verið í einkafyrirtæki nær undantekningarlaust verið seld.

Á Alþingi heyrast háværar raddir um að rétt sé að einkavæða Ríkisútvarpið og meirihlutavilji þingsins getur breyst fyrr en varir. Minna má á að frumvarp um einkavæðingu Ríkisútvarpsins liggur nú fyrir þinginu. …

Hollvinasamtökin gera einnig athugasemd við 3. mgr. 3. greinar, þar sem fjallað er um skylduna að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni o.s.frv. Samtökin telja brýnt að það komi skýrar fram að efla beri framleiðslu innlendrar dagskrárgerðar.“

Áfram fjalla Hollvinasamtökin um ýmsar greinar frumvarpsins, leggja áherslu á rækt við heilbrigða samfélagsumræðu og vilja láta ítreka skyldu Ríkisútvarpsins til hlutlausrar umfjöllunar og síðan er vísað í orðalag og æskilegt orðalag sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Varðandi stjórnskipulagið gera Hollvinasamtökin athugasemdir við völd ráðherra sem þau telja vera of mikil.

Síðan segir hér, með leyfi forseta:

„Víða í nágrannalöndum okkar er æðsta stjórn ríkisútvarps skipuð fulltrúum ýmissa fjölmennra hópa í þjóðfélaginu. Innan Hollvinasamtakanna hefur verið rædd sú hugmynd að æðsta stjórn Ríkisútvarpsins verði að hluta til akademísk, þ.e. í henni ættu sæti lýðræðislega kjörnir fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi ásamt fulltrúum almennings, eigenda útvarpsins, þeirra sem nýta sér þjónustu þess. Ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar um stærð akademíunnar, allt frá 10 manns upp í 20–30. Þar eigi sæti fulltrúar ýmissa almannasamtaka, íþróttahreyfingar, verkalýðshreyfingar, háskólasamfélagsins, blaðamanna, nýbúa og ekki síst starfsmanna Ríkisútvarpsins; það má hugsa sér að í þessu ráði verði jöfn skipting kynjanna og þar verði fulltrúar allra landshluta.

Ráðið kæmi saman einu sinni til tvisvar á ári og seta í því væri mikilsverð viðurkenningar- og virðingarstaða. Í það væri valið hið hæfasta fólk með víða sýn yfir samfélagið. Meðal helstu verkefna þess væri að velja útvarpsstjóra til ákveðins tíma (þriggja til fimm ára), sem ætti að okkar mati að vera menningar- og fjölmiðlamaður.“

Hér held ég að vanti eitthvað aðeins inn í en svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Hollvinasamtökin telja þó að það gæti skipt miklu hvort ný lög um hlutafélög gætu a.m.k. tryggt upplýsingaskyldu og gagnsæi í rekstri hlutafélagsins.“

Nú er það komið fram að frumvarp ríkisstjórnarinnar í þeim efnum gerir það ekki, og langt í frá.

Síðan er ítrekuð andstaðan við hlutafélagsvæðinguna og sagt að samkvæmt ákvæðinu geti menntamálaráðherra ákveðið að leggja fram meira hlutafé en 5 millj. Það er þessi makalausa upphæð sem þingmaðurinn ágætur hélt að væri 5 milljarðar, og láir honum enginn. Það tók enginn eftir því í þingsal þegar það var sagt fyrst, það bara hlyti að vera rétt, 5 milljarðar. Það voru hins vegar 5 millj., bara svona vasapeningur.

Þetta voru Hollvinasamtökin sem eru samtök fólks sem er vinveitt Ríkisútvarpinu, þessari vinsælu stofnun sem þjóðin öll vill vel, hygg ég, og við gerum það að sjálfsögðu úr mörgum stjórnmálaflokkum. Það eru undantekningar, þeir aðilar sem vilja þessa stofnun feiga, leggja hana niður eða segja að hennar tími sé einfaldlega liðinn. Mönnum þykir almennt vænt um Ríkisútvarpið og þessi samtök eru stofnuð m.a. til að koma í veg fyrir að spellvirki verði unnin á þessari stofnun. Ég lít svo á að með þessu lagafrumvarpi sé einmitt verið að gera það.

Það eru fleiri samtök innan Ríkisútvarpsins sem létu frá sér heyra. Félagar í Útgarði, félagi innan Bandalags háskólamanna, sendu frá sér eftirfarandi ályktun, með leyfi forseta:

„Félagsmenn Útgarðs hjá Ríkisútvarpinu telja að ákvæði um réttindi starfsmanna í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf., séu ekki nægjanlega skýr. Þess vegna tökum við undir umsögn BSRB og BHM um frumvarpið í öllum atriðum. Félagsmenn óska eftir því að greinarbetri ákvæði um réttindi starfsmanna verði sett inn í lagafrumvarpið og lögin og að þau ákvæði tryggi að starfsmenn haldi lífeyrisréttindum sínum, biðlaunarétti, veikinda- og orlofsrétti svo nokkuð sé nefnt. Vísum við í lög um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands frá því í maí 1997. Í þeim eru ákvæði um réttindi starfsmanna þar sem tekið er nákvæmar á málum starfsmanna og óskum við eftir því að þau verði höfð til hliðsjónar.“

Þetta er Útgarður, félag háskólamanna innan Ríkisútvarpsins í aðskiljanlegum störfum.

Síðan er annað BHM-félag sem er Félag fréttamanna og síðan er SRÚ, Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins sem er innan BSRB.

Í umsögn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Umsögn Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins (SRÚ) um frumvarp um Ríkisútvarpið hf.

SRÚ vill halda samningsrétti sínum, fyrir hönd núverandi starfsmanna og þeirra sem ráðast eftir breytingu á rekstrarformi. SRÚ ætlar að vera áfram innan BSRB.

SRÚ vill að félagsmenn, bæði núverandi og þeir sem ráðast eftir breytingu á rekstrarformi, verði í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

SRÚ vill leggja áherslu á að allir félagsmenn SRÚ haldi núverandi réttindum sínum

SRÚ vill að starfsmönnum verði boðin sömu eða sambærileg störf eftir breytingu.

Að öðru leyti vísar SRÚ til umsagnar BSRB og BHM.“

Fyrir hönd stjórnar SRÚ ritar Gunnar Magnússon, formaður félagsins, undir þessa álitsgerð.

Er ég þá kominn að ítarlegustu álitsgerðinni sem fjallar um réttindi starfsmanna. Ætla ég að fara nokkuð ítarlega í þessa umsögn svo og umsögn ríkisskattstjóra en vil gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. forseta þingsins hve lengi standi til að halda þessum þingfundi áfram.

(Forseti (JBjart): Forseta finnst rétt að taka það fram, fyrst að hv. ræðumaður spyr, að ætlunin er að halda nokkuð áfram þannig að ræðumanni ætti að gefast kostur á að ljúka ræðu sinni.)

Að ljúka ræðu minni? Það get ég gert með styttri útgáfu eða lengri útgáfu. Ég held að enginn geti sakað mig um að hafa ekki fjallað á mjög málefnalegan hátt um þetta frumvarp. Ég geri það efnislega, ég hef sett mig mjög vel inn í þetta mál en ég á þess kost að fjalla um þá þætti sem hér eru eftir í síðari ræðum, bæði við 2. umr. málsins og einnig við 3. umr., og í því ljósi spyr ég hæstv. forseta hve lengi hún ætli að halda þessum fundi áfram því að lengd ræðutíma míns ræðst af ákvörðun hæstv. forseta.

(Forseti (JBjart): Forseti hefur engu við það að bæta að þingfundi verður haldið áfram þannig að ef hv. þingmaður kýs að ljúka ræðu sinni ætti að vinnast tóm til þess, en hann hefur auðvitað önnur tækifæri til.)

Verða þá aðrir þingmenn kallaðir í pontu?

(Forseti (JBjart): Vill hv. þingmaður gera forseta grein fyrir því hversu lengi hann hyggst halda áfram?)

Ég gæti lokið máli mínu á tiltölulega skömmum tíma og látið það sem eftir stendur af ræðunni bíða annarrar ræðu, að ég lyki sem sagt máli mínu núna fljótlega. En ég get líka haldið áfram og lokið þeirri umfjöllun sem ég er með hér á borðinu. Það er einfaldlega ákvörðun hæstv. forseta.

(Forseti (JBjart): Hv. þingmanni er það fullkomlega í sjálfsvald sett.)

Þá ætla ég að halda ræðu minni áfram af því að ég fæ ekki svör um það hvað vakir fyrir forseta um framhald þessa þingfundar sem er orðinn nokkuð langur. Eins og mönnum er kunnugt eru fundir í þingnefndum í fyrramálið og hefði ég haldið að æskilegt væri að ljúka fundi núna, eða fresta fundi öllu heldur. Enn þá eru margir á mælendaskrá en það þarf að vinnast ráðrúm til að kalla þá til sem ekki eru hér í salnum ef þeir ættu að hefja ræður sínar nú þannig að þetta er ástæðan fyrir því að ég hef verið að leita eftir þessum upplýsingum hjá hæstv. forseta. Ef ég fæ engin svör við þessu er ekkert um annað að gera en að halda tali mínu hér áfram.

Ég var að fara yfir álitsgerðir sem menntamálanefnd hafa borist. Ég flokkaði þessar álitsgerðir niður í meginflokka. Það eru álitsgerðir viðskiptalegs eðlis, álitsgerð frá Viðskiptaráði, álitsgerð frá Samtökum atvinnulífsins og síðan fyrirtækjum innan þessara samtaka, 365 fjölmiðlum, Skjánum, Útvarpi Sögu og fleiri aðilum.

Síðan eru það menningarlegir aðilar, þ.e. sem tengjast menningu, menntun og listum, sem vilja hnykkja á þeim ákvæðum frumvarpsins sem kveða á um skyldur Ríkisútvarpsins gagnvart menntuninni og listum.

Síðan eru aðilar á borð við talsmann neytenda, Neytendasamtökin og Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins sem eru mjög merk samtök og eru stofnuð til að standa vörð um þessa merku menningarstofnun. Það er athyglisvert að í álitsgerð Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins er mjög rík áhersla á að Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag. Það er tekið fram í upphafi álitsgerðarinnar, og í niðurlagi hennar er það sjónarmið og sú afstaða ítrekað.

Í fjórða lagi eru hagsmunasamtök starfsmanna. Ég er búinn að vísa í álitsgerð frá Alþýðusambandi Íslands sem í eru ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Ég er búinn að vísa í álitsgerð frá eins konar regnhlífarsamtökum starfsmanna og síðan eiginlegum stéttarfélögum, í Útgarð, í Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins og ætlaði að fara að teygja mig yfir í ítarlegustu umfjöllunina sem er frá BSRB og BHM en gleymdi þá umsögn Félags fréttamanna sem er athyglisverð fyrir ýmissa hluta sakir. Hún er ítarleg, hún er í 13 liðum og svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Umsögn Félags fréttamanna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf.

1. Félagið tekur ekki afstöðu til þess hvaða rekstrarform verður ákveðið fyrir stofnunina. Megináhersla félagsins er sú að öll réttindi félaga í FF haldist.

2. Félag fréttamanna krefst þess að félagsmenn verði áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það er besta trygging fyrir því að áunnin lífeyrisréttindi haldist, eins og stefnt er að og vilji er til hjá stjórnvöldum.

3. Félagið gerir skýlausa kröfu um að halda samningsrétti sínum og starfa áfram sem fag- og stéttarfélag fréttamanna. Félagið ætlar áfram að halda aðild sinni að BHM.

4. Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og öðrum lögum er snúa að starfsmönnum ríkisins er kveðið á um mikilvæg réttindi okkar og víðtækar skyldur. Við viljum að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gildi áfram um félaga í FF eftir formbreytingu. Um réttindamál starfsmanna er að öðru leyti vísað í og tekið undir sjónarmið sem fram koma í sameiginlegu áliti BHM og BSRB um frumvarpið.

5. Hjá RÚV eru starfandi tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir sem heyra undir fréttasvið. Félag fréttamanna vill tryggja að svo verði áfram. Við leggjum til að bætt verði við 7. lið 3. gr. frumvarpsins ákvæði þar um og greinin hljóði þá svo: „Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Fréttaþjónustu RÚV annast tvær sjálfstæðar fréttaritstjórnir þ.e. fréttastofa útvarpsins og fréttastofa sjónvarpsins.“ Tvær ritstjórnir eru nauðsynlegar til þess að viðhalda fjölbreytni, samkeppni á fjölmiðlamarkaði sér í lagi hjá ljósvakamiðlum þar sem eignarhald er ekki fjölbreytt. Tæknilega tryggir það þar að auki mun hnitmiðaðri umfjöllun og fréttaþjónustu að önnur ritstjórn sinni útvarpi og hin sjónvarpi. Eins og kunnugt er er netmiðlun frétta hjá RÚV samhæfð.“

Þetta lýtur að innra skipulagi stofnunarinnar sem Félag fréttamanna vill að hugað verði að við þessa lagabreytingu.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„6. Félag fréttamanna lýsir ánægju með orðalagið víðtæka fréttaþjónustu og teljum því að í frumvarpinu felist það markmið að fréttaþjónusta skuli efld til muna frá því sem nú er. Til að tryggja að öflug fréttaþjónusta nái til allra aldurshópa og allra landsmanna verður að vera tryggt í lögunum að útbreiðsla fjölmiðilsins vaxi fremur en minnki frá því sem nú er.

7. Við teljum að það eigi að vera kveðið á um það í frumvarpinu að RÚV hf. verði fjölmiðill sem reki að lágmarki tvær útvarpsrásir og eina sjónvarpsrás. Ef einhver þessara rása yrði skilin frá RÚV hf. eru forsendur fyrir sterkum fjölmiðli sem á að ná til alls almennings brostnar.

8. Við viljum að upplýsingalögin gildi um RÚV hf. því það er í eigu almennings.“

Þetta er sama áherslan og kom fram hjá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, að upplýsingalögin taki til þessarar stofnunar. Það þýðir, hæstv. forseti, að stofnunin verði áfram opinber stofnun en ekki gerð að hlutafélagi vegna þess að upplýsingalögin ná ekki til hlutafélaga.

Enn segir hér, með leyfi forseta:

„9. Okkur þykir réttur/aðgengi almennings, þ.e. eigenda RÚV, vera fyrir borð borinn í frumvarpinu því hvergi er getið um hvernig hann getur haft áhrif og komið sínum skoðunum á framfæri við RÚV. Þetta aðgengi verður að vera skýrt hjá fjölmiðli sem almenningur á og rekinn er í þágu þjóðarinnar. Sama gildir um tækifæri almennings til að nálgast upplýsingar um fjölmiðilinn og dagskrárstefnu hans. Almenningi er ekki tryggður sá réttur með lögum um hlutafélög í ríkiseigu, þrátt fyrir ákvæði um opna aðalfundi slíkra hlutafélaga.

10. Eldveggir til að verja sjálfstæða umfjöllun.

a. Tryggja þarf í frumvarpinu fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart útvarpsstjóra.

b. Jafnframt þarf að tryggja fullkomið sjálfstæði fréttaritstjórnanna gagnvart markaðsdeild og annarri þeirri starfsemi RÚV hf. sem á sitt undir auglýsendum eða kostendum efnis.

c. Tryggja þarf við ráðningar fréttamanna að farið sé að faglegum sjónarmiðum, forsendur séu öllum ljósar og fréttamenn gangist undir hæfnispróf áður en þeir eru ráðnir.

d. Tryggja þarf stofnuninni örugga tekjustofna.

11. Starfssvið útvarpsstjóra er ekki skýrt skilgreint í frumvarpinu. Þó virðist viðurkennt að þörf sé á slíkri skilgreiningu. Þannig segir í 11. gr. frumvarpsins um útvarpsstjóra: að í samþykktum félagsins megi nánar skilgreina starfssvið hans. Réttara er að gera það strax í frumvarpinu sjálfu. Þá kemur fram í 11. grein frumvarpsins að útvarpsstjóri sé æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar á vegum Ríkisútvarpsins. Ef starfssvið útvarpsstjóra er ekki skilgreint getur það valdið því að sjálfstæði fréttastjórna sé nákvæmlega jafnmikið eða jafnlítið og útvarpsstjóri ákveður hverju sinni.

12. FF telur afnotagjöld bestu leiðina til að fjármagna Ríkisútvarpið hf. Engin krafa er af hálfu ESA um að leggja afnotagjöldin niður, eins og sjá má af því að önnur ríkisútvörp í Evrópu halda sig við þessa fjármögnunarleið. Í umræðu um almannaútvarp BBC hefur niðurstaðan alltaf orðið sú að halda afnotagjöldum áfram. Einnig má nefna NRK sem verið hefur hlutafélag í meira en áratug, en heldur samt afnotagjöldum. FF telur afnotagjöldin tryggja sjálfstæði fyrirtækisins mun betur en nefskattur.

13. Ekki verður séð af frumvarpinu að tryggt sé að öllum fréttamönnum hjá RÚV verði áfram boðið sama starf. Þetta nægir Félagi fréttamanna ekki. FF gerir skýlausa kröfu um að fréttamenn haldi störfum sínum.“

Þetta er frá Félagi fréttamanna. Þetta er um margt mjög athyglisverð umsögn en eins og hér kemur fram tekur Félag fréttamanna í sjálfu sér ekki afstöðu til rekstrarformsins. Það staðnæmist við tiltekna þætti, við réttindi starfsmanna sérstaklega og tekur þar undir álitsgerð BSRB og BHM. Síðan er lögð áhersla á að Ríkisútvarpið heyri áfram undir upplýsingalög sem í mínum huga er krafa um að stofnunin verði ekki gerð að hlutafélagi því að þar með er það farið undan upplýsingalögum.

Síðan eru settar fram ýmsar tillögur um fyrirkomulag fréttastofanna, um tvær ritstjórnir og annað af því tagi og í lokin er vikið sérstaklega að starfssviði útvarpsstjóra. Félagið vill láta skilgreina starfssvið hans betur og skýrar en nú er gert og koma í veg fyrir að of mikil völd séu sett á hendur eins aðila með því móti.

Síðan er áhersla á að útvarpið haldi sig við afnotagjöldin, þetta sé sú leið sem útvarpsstöðvar í löndunum sem við iðulega og oftast berum okkur saman við hafi hjá sér, að þrátt fyrir alla galla sé þetta heppilegasta fyrirkomulagið.

Hæstv. forseti. Þá er ég kominn að umsögn BSRB og BHM um þetta frumvarp en það er ítarlegasta lögfræðilega úttektin sem gerð er af hálfu starfsmannasamtaka á þessum lagabreytingum.

Í fyrsta lagi gera þessi heildarsamtök innan almannaþjónustunnar, BSRB og BHM, athugasemdir um stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að Ríkisútvarpið (RÚV) verði gert að sjálfstæðu hlutafélagi í eigu íslenska ríkisins. BSRB og BHM þykir með ólíkindum sú aðferð sem beitt er gagnvart starfsmönnum þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður. Í landinu eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sem ætlað er að gilda við aðstæður sem þessar. Það er auðvitað óþolandi að það sé gert aftur og aftur, við þessi skilyrði, að setja sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum þannig að þessi „ómögulega“ staða komi ekki upp aftur og aftur. Þá þurfa ríkisstarfsmenn heldur ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki stenst þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í því að þetta gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er afleit lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.

Samtökin spyrja því, hver sé tilgangurinn með því að stofna hlutafélag um Ríkisútvarpið. Er það gert til þess eins að breyta réttarstöðu starfsmanna Ríkisútvarpsins og að RÚV hf. þurfi ekki að fylgja þeim lágmarkskröfum gagnvart starfsmönnum sínum sem gerðar eru til opinberra stofnana innan stjórnsýslunnar? Bent hefur verið á að þessi breyting minni um margt á kennitöluskipti í atvinnurekstri, þar sem vinnuveitendur eru að reyna að komast hjá því að standa við samninga sína við starfsmenn. Hlutafélagsformið á að mati samtakanna fyrst og fremst við þegar um er að ræða samkeppnisstarfsemi með arðsemissjónarmið að leiðarljósi en markmiðið með rekstri RÚV hefur verið og á að vera að veita þjónustu, sinna menningarskyldum og öryggishlutverki en ekki skapa eigendum sínum arð.“

Þetta eru almennar athugasemdir varðandi stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið frá stærstu heildarsamtökum, reyndar einu heildarsamtökum opinberra starfsmanna, samtaka í almannaþjónustu, BSRB og BHM. Má að sönnu tala um Kennarasambandið sem slík heildarsamtök en það á ekki aðild að þessu máli, er ekki með starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu innan sinna vébanda eins og gefur augaleið.

Hér er sem sagt talað um hentistefnu og óhreinskilni af hálfu löggjafans og bent á að þetta háttalag minni á kennitöluskipti, menn færi sig úr einu formi yfir í annað til þess að hafa réttindi af fólki. Réttilega er bent á að hér voru sett lög á sínum tíma, árið 1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Lögunum sem um það mál giltu var þá breytt og það olli miklum deilum hér í þessum þingsal og ég minnist þess að ég stóð lengi í ræðustól til að koma í veg fyrir að þau lög yrðu að veruleika. Þá glímdum við við þrjá lagabálka sem allir gengu út á að skerða réttindi launafólks. Það voru lög um réttindi og skyldur, lög um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og lög um vinnudeilur sem tóku til alls markaðarins. Okkur tókst að breyta sumum ákvæðum í þessum lögum, okkur tókst að koma lífeyrisfrumvarpinu út úr þinginu og gerbreyta því í samningum þannig að þegar upp var staðið, hvað þau lög snertir, varð um þau bærileg sátt eins og oft vill verða þegar menn gefa sér tíma og leita í alvöru eftir sameiginlegri lausn.

Það tókst ekki nema að óverulegu leyti varðandi þennan lagabálk, lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, 70/1996. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þegar biðlaunarétturinn var afnuminn, eins og gert var með þeim lögum — hann var takmarkaður því að biðlaunarétturinn tekur ekki til starfsmanna sem ráðnir eru eftir að þau lög komu til framkvæmda 1. janúar 1997. Hann gildir einvörðungu um starfsmenn sem eru ráðnir fyrir þann tíma. Þeir áttu hins vegar, og eiga, að njóta biðlaunaréttar.

Nú, með þessu frumvarpi, er verið að hafa þennan rétt af fólki. Hér leyfa menn sér að koma upp, talsmenn frumvarpsins, þeir hafa leyft sér að koma hér upp og segja að í engu sé verið að skerða rétt starfsmanna. Það er verið að skerða réttinn, og það er verið að gera það á tvennan hátt varðandi biðlaunaréttinn. Hann er takmarkaður við tímann fram til 2008. Þá ætla menn að vera búnir að leggja niður innheimtudeild afnotagjaldanna og lögin eiga að taka til þess fólks, væntanlega, en þau eiga ekki að taka til fólks sem ekki vill starfa hjá hlutafélaginu Ríkisútvarpi og það er gagnstætt því sem gert var varðandi starfsmenn Flugstöð Leifs Eiríkssonar svo að tekið sé dæmi sem kemur upp í hugann. Þetta er gert þrátt fyrir að í lögunum sé þessi réttur afdráttarlaus og hvað snertir starfsmenn hlutafélaga hefur það verið staðfest fyrir dómstólum að fólkið á þennan rétt ef það tekur ekki starf í fyrirtæki sem breytt er í hlutafélag. En ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn vill greinilega láta draga sig fyrir dómstóla til að tryggja starfsfólki þennan rétt. Það er svívirðileg framkoma við fólk að hafa þennan hátt á og ekki of djúpt í árinni tekið í þessu orðalagi sem ég hef hér vísað í í álitsgerð BHM og BSRB um þessa almennu breytingu á lögunum.

Í öðru lagi eru hér athugasemdir varðandi breytingu á réttarstöðu starfsmanna. Hér fyrst er fjallað um réttindi samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi.

Í álitsgerð heildarsamtakanna segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin RÚV verður lögð niður og fer þá um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Kemur þetta fram í II. kafla ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu.

Hvað þýðir þetta nákvæmlega varðandi réttarstöðu starfsmanna RÚV þegar stofnunin verður lögð niður og hlutafélagið tekur við rekstrinum? Ekki verður betur séð en að baki frumvarpinu búi sú hugsun að breytt skuli réttarstöðu þeirra ríkisstarfsmanna, sem starfa hjá RÚV, án þess þó að annar aðili en ríkið taki við starfseminni. Áfram á RÚV hf. að lúta stjórn ríkisvaldsins og það ber áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. Með öðrum orðum þá er verið að setja lög um að starfsmenn RÚV hf. verði áfram starfsmenn ríkisins án þess þó að um kjör þeirra, réttindi og skyldur, gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Árin 1993 og 1996 voru sett hér skýr og einföld lög, þ.e. upplýsinga- og stjórnsýslulög, sem gilda áttu um stjórnsýsluna til þess að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almenningsþágu. Í stað þess að stofnanir taki mið af þessum lögum þá er rekstrarformi þeirra breytt svo þær þurfi ekki lengur að lúta þessum reglum! Af hverju leita stjórnvöld ekki annarra leiða sem tryggi þann sveigjanleika sem stjórnendur telja sig þurfa að sækjast eftir? Með frumvarpinu er verið að færa RÚV hf. undan ákvæðum stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, reglum um auglýsingu á lausum störfum o.s.frv. Eins og að ofan greinir mun þetta m.a. hafa þau áhrif að RÚV hf. mun ekki þurfa að fylgja lágmarkskröfum sem gerðar eru til stjórnsýslunnar né þarf það að fylgja ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Skýtur það skökku við að ríkisútvarp sem hefur það meginhlutverk að reka hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu eins og lýst er í 3. gr. frumvarpsins, þurfi ekki að lúta stjórnsýslu- og upplýsingalögum eins og aðrar stofnanir sem sinna almannaþjónustu. Sú leið að opna á einhvers konar upplýsingaskyldu svokallaðra opinberra hlutafélaga í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög), er að mati BSRB og BHM ekki nægjanlegt þar sem sú upplýsingaskylda er mjög takmörkuð.“

Á þetta ber að leggja ríka áherslu, hæstv. forseti. Ég hef áður komið inn á þessa þætti, en hér voru fyrir aðeins fáeinum árum sett lög sem eiga að tryggja upplýsingaskyldu stjórnvalda. Hvar í ósköpunum ættu þessi lög betur heima en hjá ríkisútvarpi, útvarpi í eigu almennings í landinu sem á að sinna menningarskyldum og vera þungamiðjan, kjölfestan í fréttamiðlun í landinu?

Í álitsgerðinni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, á RÚV hf. að yfirtaka gildandi ráðningarsamninga með þeim réttindum og skyldum sem þar greinir. Þá eiga starfsmenn RÚV hf. að njóta réttinda og bera skyldur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Kjarasamningurinn á því að gilda þar til honum verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Í aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, segir um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum:

„3. gr. Launakjör og starfsskilyrði.

Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á að færast yfir til framsalshafa.

Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Ákvæði þetta gildir ekki um rétt starfsmanna til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerðum sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneyti. Það getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum í þeim sjóðum sem um er að ræða. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður starfar áfram hjá fyrirtækinu eða hluta þess eftir aðilaskipti eða ekki.

Ákvæði þetta á ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta. “

Samkvæmt þessu ber nýjum atvinnurekanda, eða framsalshafa eins og hann er kallaður í lögunum, að virða launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri atvinnurekanda, þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Þá eiga réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað að færast yfir til nýja atvinnurekandans. Áunnin réttindi, svo sem orlofsréttindi eða veikindaréttur, flytjast jafnframt með yfir til nýs atvinnurekanda. Þetta þýðir að þó nýr aðili taki við þá eiga laun og önnur starfskjör starfsmanna ekki af þeirri ástæðu einni að taka breytingum. Í ráðningarsamningi Ríkisútvarpsins við starfsmenn sína er sérstaklega tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt er tilgreint í ráðningarsamningi í hvaða deild LSR starfsmaður greiði. Er það því álit BSRB og BHM að þessi réttindi eigi að fylgja starfsmönnunum til RÚV hf. eins og skýrt er samkvæmt aðilaskiptalögunum. Hins vegar virðist sem frumvarpshöfundar séu ekki að fylgja aðilaskiptalögunum að öllu leyti.“

Hæstv. forseti. Hér kemur síðan að biðlaunaréttinum sem ég hef áður gert að umfjöllunarefni en í álitsgerð BSRB og BHM segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu segir að um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum hjá Ríkisútvarpinu, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, þó skulu starfsmenn halda biðlaunarétti sínum verði starf þeirra lagt niður fyrir 31. desember 2008. Í athugasemdum frumvarpsins um ákvæði til bráðabirgða II er nánar skýrt hvað átt er við með þessu. Segir þar að meginreglan sé sú að réttur til biðlauna flyst ekki til hlutafélagsins. Hins vegar sé gerð sú undanþága frá meginreglunni að biðlaunarétturinn flyst til hlutafélagsins til 31. desember 2008. Þessi tilhögun er rökstudd með því að miklar skipulagsbreytingar séu fram undan hjá RÚV hf. sem flestar verði komnar fram fyrir árslok 2008. Þeir sem eiga biðlaunarétt og missa starf sitt vegna niðurlagningar stöðu eftir 31. desember 2008 munu ekki njóta þeirra réttinda samkvæmt frumvarpinu.

Ef það er mat löggjafans að verið sé að bjóða sambærilegt starf hjá RÚV hf. og hjá RÚV eiga öll réttindi að fylgja við ráðningu, þar með talin biðlaunaréttindi, samanber aðilaskiptalögin.

Með því að fella niður biðlaunarétt eftir 31. desember 2008 er að mati BSRB og BHM verið að skerða réttindi þeirra starfsmanna RÚV sem njóta biðlaunaréttar. Með þessari löggjöf er verið að koma í veg fyrir að ríkisstarfsmenn fái notið réttinda sem þeir hafa áunnið sér í starfi og er það andstætt eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar.

Í frumvarpinu er ekki minnst á réttarstöðu starfsmanna sem heyra undir bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur hafni þeir starfi hjá RÚV hf. Þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn er ekki um að ræða sambærilegt starf hjá RÚV hf. Eiga þeir starfsmenn sem hafna starfi hjá félaginu því rétt á biðlaunum hafi þeir verið ráðnir fyrir 1. júlí 1996, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur. Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var hlutafélagavædd fengu þeir starfsmenn sem höfnuðu starfi hjá félaginu biðlaun. BSRB og BHM leggja áherslu á að sama þurfi að tryggja fyrir starfsmenn RÚV sem ákveða að taka ekki starfi hjá RÚV hf.“

Hér vil ég gera eina leiðréttingu á því sem ég sagði áðan, lögin um réttindi og skyldur tóku gildi 1. júlí eins og hér kemur fram en ekki 1. janúar 1997, og er ég þá að rugla því saman við lífeyrisréttindalögin sem tóku gildi í ársbyrjun 1997. Eins og ég gat um áðan tókst stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni að ná frumvarpinu út úr þinginu og koma því inn á samningsborð. Var um það samið fram á haustið 1996 og urðu allir sæmilega ásáttir um niðurstöðuna.

Það er einmitt vikið að niðurstöðunni í næsta kafla í þessari umsögn BSRB og BHM en þar segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu segir að starfsmaður RÚV sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfrest í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild LSR í dag. Iðgjöld hans miðast við þau laun sem hann hafði þegar staða hans var lögð niður og breytast iðgjaldagreiðslurnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Með öðrum orðum, það verður eins konar frysting á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá RÚV hf. því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs.

BSRB og BHM benda á það ójafnræði sem ákvæðið til bráðabirgða hefur í för með sér þar sem jafnræðisreglu er ekki gætt. Fjölmörg dæmi eru um fyrrverandi starfsmenn ríkisins sem eru í dag í starfi samhliða töku lífeyris. T.d. á það við um starfsmenn Póstsins og Símans sem er mjög stór hópur starfsmanna. Þá er stór hópur ríkisstarfsmanna sem eru í B-deild LSR og njóta lífeyris síns samhliða því að starfa á vinnumarkaðinum í tímavinnu eða lágu starfshlutfalli.“

Hæstv. forseti. Þetta er atriði sem starfsmenn hafa spurt mjög mikið eftir, þ.e. lífeyrisréttur þeirra. Þá er á það að líta að þeir eiga ekki lengur hald í viðmiðun við laun eftirmanns í starfi eins og tíðkast, þeir taka ekki mið af launum starfsmanns í Ríkisútvarpinu hf., heldur eru iðulega fundnir viðmiðunarhópar annars staðar í hinu opinbera kerfi eða þeir fylgja svokallaðri meðaltalsreglu sem gildir um laun opinberra starfsmanna og er þá horft á föst dagvinnulaun. Þó er á það að líta að þau hafa þróast mjög hagstætt fyrir lífeyrisþegann allar götur frá því að það kerfi var tekið upp í ársbyrjun 1997 þannig að að því leyti hafa menn ekki orðið fyrir skerðingu. Um það er hins vegar að ræða þegar starfsmaður sem gegnir stöðu sem flokkast undir almenn störf en fær síðan stjórnunarhlutverk innan hlutafélagsins, heldur sig á gömlu lífeyrisréttindunum, nýtur ekki ávinningsins sem þá kemur í launaumslagið. Hann hækkar iðulega í launum en nýtur þess ekki í ávinningi lífeyrisréttinda. Þetta er sú skerðing sem menn standa frammi fyrir í B-deild sjóðsins.

Hvað varðar A-deild lífeyrissjóðsins segir hér, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ekki einu orði minnst á réttindi starfsmanna sem greiða í A-deild LSR. Aðeins er fjallað um lífeyrisgreiðslur skv. 24. gr. laga nr. 1/1997 en sú grein á eingöngu við um B-deild LSR. Í fyrra frumvarpinu um RÚV sf. var eftirfarandi ákvæði:

„Í 6. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laganna eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi þeim réttindum.“

Hver er réttarstaða starfsmanna sem greiða til A-deildar LSR í dag og nýrra starfsmanna samkvæmt frumvarpi um RÚV hf.?

Mun verða tryggt að starfsmenn geti áfram verið í LSR? Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild LSR til áframhaldandi aðildar að LSR er háð nokkrum skilyrðum. Sé ekki gengið tryggilega frá því í lagafrumvarpinu yrði aðildin háð samþykki RÚV hf. og að hlutafélagið tæki á sig þær skuldbindingar sem henni fylgja. Er því nauðsynlegt að mati BSRB og BHM að gengið sé tryggilega frá því að allir starfsmenn RÚV hf. eigi rétt á því að vera í LSR, og að það nái einnig til nýráðinna.

BSRB og BHM vísa í því sambandi á 3. gr. í aðilaskiptalögunum sem fjallað er um hér að framan, þ.e. að aðilaskipti geti aldrei leitt til skerðingar á áunnum lífeyrisréttindum úr þeim sjóðum sem um er að ræða.“

Ég ítreka, hæstv. forseti, að það er ekkert tæknilega lagalega sem á að standa í vegi fyrir því að núverandi starfsmenn og nýráðnir starfsmenn Ríkisútvarpsins hf. verði áfram innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem óneitanlega gefur þeim ríkari réttindi en flestir aðrir sjóðir ef vilji er fyrir hendi hjá löggjafanum og stjórn stofnunarinnar, eða hlutafélagsins ef af því verður að við samþykkjum þetta frumvarp sem því miður allt of margt bendir til að verði ofan á. Þá er þetta atriði sem þarf að fá svör við. Það væri fróðlegt að heyra álit formanns menntamálanefndar, sem ég vænti að sé hér á svæðinu að fylgjast með umræðunni, hugsanlega í andsvari á eftir þegar ég lýk ræðu minni. Ég geri ráð fyrir að hann sé á svæðinu eða einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutans að fylgjast með þessari ræðu sem ég flyt hér kl. að verða 3, vegna þess að þingið er ófært um eða óviljugt til að upplýsa mig um hve lengi stendur til að halda þessum þingfundi áfram. Ég hef áður lýst því yfir að ég láti lengd ræðu minnar ráðast af ásetningi stjórnar þingsins hvað þetta snertir. Ég get alveg fullvissað hæstv. forseta um að ég get staðið hér lengi enn og haldið áfram. Ég mun að sjálfsögðu krefjast þess að fulltrúar stjórnarmeirihlutans mæti þá í þingsal og hlusti á það sem hér er sagt um þessar lagabreytingar, um skerðingar sem eru að verða á réttindum starfsfólks, og svari fyrir gjörðir ríkisstjórnarinnar og áform í þeim efnum. Þess vegna vil ég fá að vita tvennt: Hvað hyggst stjórn þingsins halda þessum fundi lengi áfram? Gætu mætt hér á svæðið, í þingsal, fulltrúar ríkisstjórnarinnar til að svara fyrir það sem hér er verið að gagnrýna?

(Forseti (BÁ): Varðandi fyrra atriðið sem hv. þingmaður spurði um vill forseti geta þess að áform forseta eru að halda þingfundi áfram til að reyna að þoka umræðunni um þetta mál áfram. Varðandi síðara atriðið skal forseti ganga úr skugga um það hvort formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, er ekki nærstaddur eða aðrir þeir sem hv. þingmaður óskaði eftir.)

Ég mun gera hlé á ræðu minni þangað til þeir eru mættir í þingsal. (MÁ: … óbundnir …)

(Forseti (BÁ): Samkvæmt upplýsingum forseta er hv. formaður menntamálanefndar að koma í salinn þannig að það ætti ekki að vera …)

Ég held ekki áfram ræðu minni fyrr en hann er kominn hingað í salinn. Það er verið að halda áfram þingfundi hér rétt fyrir kl. 3 um nótt og ég fæ engin svör við því þegar ég spyr hversu lengi eigi að halda áfram. Ég mun láta ræðutíma minn ráðast af því. Ég vil fá upplýsingar um þetta efni og ég ætlast þá til þess að þeir sem eru í forsvari fyrir þetta frumvarp séu á staðnum, (Gripið fram í.) hlýði á umræðuna og svari fyrir þetta frumvarp (Gripið fram í.) sem mun skerða réttindi starfsfólks.

(Forseti (BÁ): Við því verður orðið, hv. þingmaður.) (MÁ: Hvar er formaðurinn?)

Hér er menntamálaráðherra komin í salinn og ég mun þá halda áfram ræðu minni. Ég hef verið að fara yfir þær skerðingar sem frumvarp hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar hefur í för með sér fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.) Ég skal fara mjög rækilega yfir þetta. Ég fæ engin svör við því hve lengi eigi að halda þessum fundi áfram og ég mun ekki hætta ræðu minni fyrr en ég fæ svör um það. Ég mun ekki gera það. Ég get vel farið mjög rækilega yfir það sem ég hef sagt og skal fúslega gera það.

Ég var að rekja skerðingar sem fólk yrði fyrir varðandi lífeyrisrétt og ég var að hrekja þau ósannindi sem voru borin hér á borð fyrr í dag við umræðuna af hálfu formanns menntamálanefndar þegar hann fullyrti að við þessa lagabreytingu yrðu réttindi starfsmanna í engu skert. Það var líka ranglega fullyrt að við þessa lagabreytingu væri betur staðið við bakið á starfsmönnum en við hliðstæðar lagabreytingar hér áður, þegar opinberri starfsemi væri breytt í hlutafélög. Þetta er rangt, þetta eru ósannindi. Ég hef rakið hvernig starfsmenn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefðu notið betri réttinda hvað varðar biðlaunaréttinn en starfsmönnum Ríkisútvarpsins eru ætluð. Ég hef einnig rakið það hvað varðar lífeyrisréttindin að þau eru lakari hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins við þessa hlutafélagabreytingu en var hjá starfsmönnum Pósts og síma. Í báðum tilvikum er um lakari réttindi að ræða þannig að yfirlýsingar hv. formanns menntamálanefndar um þetta efni eru rangar. Ég hef farið yfir þær skerðingar sem fólk verður fyrir við þessar breytingar. Ég hef furðað mig á því þegar lög voru sett hér árið 1996, mjög umdeild lög sem skertu biðlaunarétt starfsmanna ríkisins. Og enn á að skerða hann núna með þessu frumvarpi.

Það á enn að taka af þeim sem þó héldu réttinum árið 1996, það á að skerða þennan rétt enn þá núna. Hugsa sér, hvílík framkoma gagnvart fólkinu. Nú vil ég fá að vita eitt: Hvað vakir fyrir stjórnvöldum varðandi lífeyrisréttindi nýráðinna? Á að heimila þeim inngöngu í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Það er dýrara fyrir atvinnurekandann, það kostar 15,5% en ekki 12% eins og um er að ræða í almennu lífeyrissjóðunum frá næstu áramótum. Það er dýrara. Eru þessar breytingar til þess gerðar að hafa réttindin af fólki? Er verið að gera það? Hvers vegna getum við ekki fengið svör við því hvað vakir fyrir stjórnvöldum í þessu efni? Hver eru áform hæstv. menntamálaráðherra hvað þetta snertir? Menntamálaráðherra kemur til með að hafa á sinni hendi hlutabréfið í Ríkisútvarpinu. Fyrir hverju ætlar menntamálaráðherra að beita sér hvað þetta varðar, eigandinn, handhafi hlutabréfsins? Eða á að skjóta sér á bak við nýja útvarpsstjórann og nýja pólitíska útvarpsráðið, láta það ákveða það og þvo hendur sínar? Hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra hvað þetta snertir? Við verðum að fá svör við þessum spurningum.

Í álitsgerð BSRB og BHM er vikið að gjaldskyldunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til í frumvarpinu að hlutafélagið hafi frá 1. janúar 2008 tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu tekjuskatts. Afnotagjöld falla niður frá sama tíma. Þetta sérstaka gjald verður lagt á einstaklinga og lögaðila og er lagt til í frumvarpinu að það verði 13.500 krónur af hverjum gjaldanda. Samtökin lýsa áhyggjum sínum af því að þetta gæti leitt til hækkunar fyrir heimili með unglinga eldri en 16 ára. Ekki er nógu skýrt kveðið á um það í frumvarpinu að gjaldið nái ekki til námsmanna 16 ára og eldri þar sem segir: „Væntanlega næði gjaldið ekki til námsmanna sem væru 16 ára og eldri þar sem almennt má gera ráð fyrir að þeir falli undir þau tekjumörk sem ákvæðið tekur mið af, sbr. lög nr. 235/1999, um málefni aldraðra“. Hafa skal það í huga að íslenskir framhaldsskólanemar stunda gjarnan launavinnu samhliða skólagöngu sinni og hafa því margir hverjir nokkrar tekjur.“

Síðan er vikið að öryggisþætti RÚV og segir hér, með leyfi forseta:

„Eitt af meginhlutverkum RÚV er að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu eins og segir í 11. tl. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Verið er að veikja öryggishlutverk RÚV með því að hlutafélagið heyri ekki undir lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, stjórnsýslulög né önnur lög er tryggja sanngjarna og óhlutdræga meðferð mála.“

Hér minni ég á þær áherslur sem komu frá ríkislögreglustjóra og Landssambandi lögreglumanna. Þó að þeir aðilar væru ekki með ákveðnar skoðanir á hlutafélagavæðingunni sem slíkri lögðu þeir áherslu á þessa þætti.

Þá segir hér, með leyfi forseta:

„BSRB og BHM leggja mikla áherslu á að tryggt verði að RÚV hf. virði rétt stéttarfélaga starfsmanna innan RÚV sem gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna, til að semja áfram við RÚV hf. fyrir hönd núverandi starfsmanna og nýráðna. Við rekstrarformsbreytingu ríkisstofnana sl. ár hafa stéttarfélög sem eiga félagsmenn innan þeirra stofnana haldið áfram að gera kjarasamninga við hlutafélögin sem stofnuð hafa verið. Sama ætti að gilda um stéttarfélög innan RÚV, þ.e. að ekkert sé því til fyrirstöðu að þau haldi áfram að semja við RÚV hf. um laun og önnur starfskjör félagsmanna sinna.“

Síðan er vikið að starfsmannaráðunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástæða er til að vekja athygli á þeim miklu völdum yfir mannahaldi og dagskrárgerð sem samkvæmt frumvarpinu eru færð í hendur útvarpsstjóra, sem ráðinn er af útvarpsráði sem endurspeglar stjórnarmeirihluta á Alþingi hverju sinni. Hér ber að hafa í huga að jafnhliða er dregið úr starfsöryggi starfsmanna Ríkisútvarpsins eins og fram kemur annars staðar í þessari greinargerð. Í kjarasamningum BSRB og BHMR og ríkisins árið 1980 (sbr. 5. gr. samkomulags BSRB og ríkisins frá 20. ágúst 1980 um málefni opinberra starfsmanna og 5. gr. samkomulags Bandalags háskólamanna og ríkisstjórnarinnar frá 8. september 1980) var samið um að auka starfsmannalýðræði og voru í kjölfarið settar reglur um starfsmannaráð í ríkisstofnunum. Á grundvelli samninganna frá 1980 fengu Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins og Starfsmannafélag sjónvarps fulltrúa (hvort félag fyrir sig) í Framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Það er skýlaust brot á þessu samkomulagi að rifta því einhliða eins og gert er með frumvarpinu.

Að öllu framangreindu virtu er það eindregin afstaða BSRB og BHM að leggja til að frumvarp þetta nái ekki fram að ganga.“

Hér er vísað í kjarasamningana frá árinu 1980. Í samkomulaginu sem hér var vísað til og ég minnist mjög vel — þá sem starfsmaður ríkissjónvarpsins, það var undirritað 20. ágúst 1980, þeir Ragnar Arnalds fjármálaráðherra og Kristján Thorlacius, þáverandi formaður BSRB, undirrituðu samkomulagið — segir í 5. gr. eins og áður er vikið að, með leyfi forseta:

„Í þeim ríkisstofnunum þar sem vinna 15 manns eða fleiri verði komið á fót starfsmannaráðum sem fjalli um starfstilhögun og fleiri mál er varða starfsmennina. Sett verði reglugerð um skipun og verkefni starfsmannaráða sem unnin er af nefnd skipaðri fulltrúum beggja samningsaðila.“

Nú er það svo að þessi ákvæði í kjarasamningnum frá 1980 náðu ekki fram að ganga í mörgum stofnunum. Reyndar hef ég trú á því að traustast hafi verið kveðið á um þetta í Ríkisútvarpinu. Við náðum því, bæði starfsmannafélag sjónvarpsins og starfsmannafélag útvarpsins sem hér var vikið að, að fá einn fulltrúa, hvort félag, í framkvæmdastjórnina og það er gert á þessum grundvelli. Ég þekki þetta vel. Ég var þá formaður starfsmannafélags sjónvarpsins og átti um langt árabil sæti í framkvæmdastjórninni á grundvelli þessa samkomulags, þessa kjarasamnings. Hæstv. menntamálaráðherra segir þessu einfaldlega einhliða upp, riftir þessu samkomulagi og gott ef ekki var einhvern tíma sagt að það væri ekki í átt við nútímastjórnarhætti að burðast með fyrirkomulag af þessu tagi, það heyrði til liðnum tíma. Eða var það misskilningur hjá mér? Ég man ekki betur en að talað væri í þessa veru. Og nú vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Er ráðherrann til viðtals um að breyta þessu, um að tryggja starfsmönnum með lögum aðkomu að stjórn stofnunarinnar? Ég legg áherslu á að í álitsgerðum fjölmargra stéttarfélaga um þetta frumvarp er einmitt vikið að þessum þætti. Í margvíslegum lögum og tilskipunum sem við setjum sjálf hér á landi og tökum við frá Evrópu er lögð áhersla á aðkomu starfsmanna. (Gripið fram í.) En þegar á reynir — og þetta eru ekki bara einhverjar almennar reglur — er þetta framkoman. Þá er samningum og því sem af þeim hlýst rift einhliða. Þetta er nokkuð sem við verðum að fá algerlega afdráttarlaus svör við áður en umræðunni um Ríkisútvarpið lýkur.

Það er annað atriði sem ég hef einnig komið inn á sem ég tel grundvallaratriði að breyting verði gerð á. Hef ég þann fyrirvara mjög skýran að auðvitað vil ég ekki að þetta frumvarp verði yfir höfuð að lögum. Staðreyndin er sú að eftir því sem menn hugsa þetta mál betur og gaumgæfilegar því verr líst þeim á frumvarpið. Þeim fjölgar núna sem segja að hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnin sé að segja upp þeirri sátt sem hefur verið um Ríkisútvarpið og hefur náð frá hægri til vinstri. Við sjáum það í álitsgerðum sem berast — það heyrast stunur úr hliðarherbergi þar sem menntamálaráðherrann og formaður menntamálanefndar sitja, nenna ekki að hlusta á þennan málatilbúnað þar sem verið er að tala um grafalvarleg mál, þar sem verið er að hafa réttindin af fólki og grafa undan Ríkisútvarpinu og þeirri breiðu pólitísku sátt sem hefur verið um þetta frumvarp. Ég vísa í álitsgerðir sem við höfum vitnað í frá viðskiptalífinu, frá fyrirtækjum á markaði sem telja að Ríkisútvarpið eigi ekki að gera tvennt í senn, fá gjöld, skatta, frá borgurum landsins og njóta auglýsingatekna.

Þetta hefur alla tíð verið nokkuð umdeilt. Engu að síður er það rétt hjá Þorsteini Pálssyni, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, að þó að þetta hafi verið gagnrýnt frá hægri og frá viðskiptalífinu hafi engu að síður ríkt um þetta almennt sátt. Við sjáum það í þeim álitsgerðum sem liggja fyrir þinginu að sú sátt er að rofna, og sáttin til vinstri er líka að rofna þegar þessi stofnun er tekin frá þjóðinni og ýtt út á markaðstorgið eins og gert er með þessu frumvarpi. Menn skulu ekki taka það léttilega hvað þeir eru að gera hvað þetta snertir. Ég blæs á það þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem sjálfir standa að frumvarpi og styðja frumvarp um að leggja niður Ríkisútvarpið og selja það koma hingað núna og segjast ætla að tryggja Ríkisútvarpinu tekjustofna til frambúðar. Hvers konar rugl er þetta? Hvers konar vingulsháttur er þetta? Á að trúa svona málflutningi? Þetta er ríkisstjórnin og þetta er stjórnarmeirihlutinn sem hefur staðið að því að svelta Ríkisútvarpið, halda því í fjársvelti á undanförnum árum. Við umræðuna hefur verið bent á það að á árabilinu 1994–2004 rýrnuðu tekjustofnar Ríkisútvarpsins um 19% í hlutfalli við uppreiknaða launavísitölu. Þetta lét þessi ríkisstjórn viðgangast sem nú segist ætla að tryggja Ríkisútvarpinu gull og græna skóga og bjarta framtíð.

Hver trúir á svona ríkisstjórn? Hver trúir á svona stjórnarmeirihluta og hver trúir á málsvara ríkisstjórnarinnar sem í öðru orðinu segist vilja leggja Ríkisútvarpið niður, selja það og svelta það, og kemur svo í hinu orðinu og segist ætla að tryggja því trausta tekjustofna til framtíðar? Á að taka svona fólk alvarlega? Ætla starfsmenn Ríkisútvarpsins og ætlar þjóðin að leggja traust á svona málflutning? Ég geri það ekki. (Gripið fram í.) Þetta er bara skop og grín og glens. Þegar menn taka Ríkisútvarpið, þessa gömlu stofnun sem hefur verið með þjóðinni frá 1930 … Þetta er orðið eins konar frjálshyggjupartí í hliðarherbergi, bara glens og gaman og fliss því að fólkinu sem er sett til ábyrgðar í þjóðfélagi okkar finnst þetta ekki meira virði en svo. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni fyrir þjóðina, og þetta er umhugsunarefni fyrir okkur öll. (Gripið fram í: Og fyrir forseta þingsins?) Og fyrir forseta þingsins sem neitar að gefa mér svör um það hvenær hann hyggist ljúka þessum þingfundi.

Stendur það enn að ég geti ekki fengið svör við því?

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar það sem áður hefur verið sagt, ætlunin er að halda þingfundi áfram og leitast við að þoka þessari umræðu áfram.)

Þá vil ég fá upplýsingar um það, ef hann vildi láta svo lítið, hæstv. forseti, að svara mér því hvort framhald verði á umræðum að lokinni ræðu minni.

(Forseti (BÁ): Forseti getur ekki svarað því á þessari stundu en á alveg eins von á því að svo geti orðið.)

Við erum hér með allítarlega álitsgerð frá ríkisskattstjóra og ætla ég að fara yfir hana (Gripið fram í.) því að hún er fyrir margra hluta sakir mjög athyglisverð. — Hvert þó í logandi, hæstv. forseti, ég hef gleymt að vísa í umfjöllun Öryrkjabandalags Íslands. Það eru mistök sem ég verð að leiðrétta og mun leiðrétta hið snarasta. Umsögn Öryrkjabandalags Íslands sem er undirrituð af framkvæmdastjóra þess er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Öryrkjabandalagi Íslands hefur borist frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf., 401. mál, heildarlög. Vill Öryrkjabandalagið koma á framfæri eftirfarandi:

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um tekjustofna Ríkisútvarpsins. Í 1. tölul. 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um sérstakt gjald, nefskatt, sem innheimtur verði af öllum þeim einstaklingum sem eru skattskyldir. Lítur Öryrkjabandalagið svo á að ef innheimta á flatan skatt af öllum skattskyldum einstaklingum þá hljóti stjórnvöld að taka til endurskoðunar laun þeirra sem fá greitt samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni. Hingað til hafa öryrkjar fengið afslátt á afnotagjöldum RÚV og því mikilvægt að laun þeirra samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni hækki svo ekki komi til kjaraskerðingar.

Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á að þó svo að rekstrarformi Ríkisútvarpsins verði breytt þá beri stofnuninni að gæta jafnræðis í þjónustu við notendur og endurspegla í dagskrárgerð sinni fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Í 9. tölul. 3. gr. frumvarpsins um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, er kveðið á um skyldur Ríkisútvarpsins til að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, „þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa“. Í athugasemdum við lagafrumvarpið eru eðlilegar þarfir minnihlutahópa ekki skilgreindar eða hverjir það eru sem tilheyra minnihlutahópum, hvort um er að ræða konur, fólk með fötlun, fólk með annað móðurmál en íslensku o.s.frv. Er það mat Öryrkjabandalags Íslands að 9. tölul. 3. gr. frumvarpsins sé of víðtækur og geti orðið til þess að ákvarðanir verði of matskenndar og orsaki ójöfnuð meðal notenda þjónustu Ríkisútvarpsins. Má í þessu sambandi benda á dóm Hæstaréttar nr. 151/1999 sem viðurkenndi skyldu Ríkisútvarpsins til að haga gerð og útsendingu framboðsumræðna þannig að aðgengilegt væri heyrnarlausum.“

Undir þetta skrifar fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri samtakanna.

Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja hér að álitsgerð ríkisskattstjóra. Hann hefur sitthvað við þetta frumvarp að athuga og gerir grein fyrir því í allítarlegu máli sem hann kom til menntamálanefndar Alþingis um miðjan marsmánuð. Þar er vísað í frumvarpið — ég þarf eiginlega að hafa það hjá mér til að þetta rími allt saman, hæstv. forseti. Ríkisskattstjóri vísar fyrst í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins en þar er vikið að tekjustofnunum. Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Tekjustofnar Ríkisútvarpsins hf. eru sem hér segir:

1. Samkvæmt sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003. Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema 13.500 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

2. Tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi eða í öðrum miðlum.

3. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að frátöldu ákvæði 98. gr.

Hinn 15. febrúar og 15. maí ár hvert skal fjármálaráðuneytið greiða Ríkisútvarpinu hf. fyrir fram í hvort sinn fjárhæð sem svarar til áætlaðs fjórðungs heildartekna af gjaldi ársins samkvæmt þessari grein.

Stjórn félagsins skal setja gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna.“

Eins og gefur að skilja er fjallað um þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpinu. Þar er fjallað um það í athugasemdum sem eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í 4. kafla hinna almennu athugasemda við frumvarpið (Tekjustofnar fyrirtækisins) var gerð grein fyrir því að í frumvarpi þessu er á því byggt að frá og með 1. janúar 2008 verði hætt að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum (útvarpsgjaldi). Vísast til þess sem þar sagði um þessa breytingu og rökin fyrir henni.

Í samræmi við þessa breytingu er í 12. gr. frumvarpsins lagt til að frá og með 1. janúar 2008 skiptist tekjustofnar Ríkisútvarpsins hf. í þrennt:

1. Sérstakt gjald sem lagt verður á einstaklinga og lögaðila.

2. Tekjur af auglýsingum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum.

3. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Tekjur skv. 1. tölul 1. mgr. ákvæðisins yrðu 13.500 kr. af hverjum gjaldanda og mundu skila alls um 2.470 milljónum kr.“ — þ.e. 2 milljörðum 470 millj. — „miðað við full skil, en gert er ráð fyrir að afnotagjaldið skili Ríkisútvarpinu um 2.500 milljónum kr. á árinu 2005. Eðlilegt er að fjárhæð nefskattsins verði endurskoðuð þegar nær dregur því að breyting á tekjustofnum Ríkisútvarpsins hf. kemur til framkvæmda. Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri. Væntanlega næði gjaldið ekki til námsmanna sem væru 16 ára og eldri þar sem almennt má gera ráð fyrir að þeir falli undir þau tekjumörk sem ákvæðið tekur mið af, sbr. lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Hvað varðar ráðstöfun á tekjum skv. 1. tölul. 1. mgr. ber að taka fram að Ríkisútvarpið hf. verður fyrst og fremst útvarp í almannaþágu, sbr. 3. gr. frumvarps þessa. Komi hins vegar til annarrar starfsemi af hálfu félagsins, sem tengist fyrrgreindri meginstarfsemi, þarf að halda fjárreiðum vegna þess rekstrar aðskildum, þar á meðal starfsemi sem fellur undir samkeppisrekstur. Á grundvelli samkeppnissjónarmiða verður félaginu óheimilt að nota tekjur sínar til að greiða niður kostnað af öðrum rekstri, enda sé ekki um að ræða starfsemi sem telst til útvarps í almannaþágu í skilningi 3. gr. frumvarpsins.

Hvað varðar 2. tölul. 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að birta auglýsingar er tengjast dagskrárefni þess í útvarpi og öðrum miðlum. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi rétti, en þar er heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“. Ástæða þykir að kveða með skýrum hætti á um það að Ríkisútvarpinu hf. verði heimilt að birta auglýsingar í öðrum miðlum en útvarpi að teknu tilliti til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3845/2003. Í málinu var kvartað yfir því að Ríkisútvarpið notaði tekjur sínar til þess að byggja upp vefinn www.ruv.is, en hluti hans væri fjármagnaður með afnotagjöldum á sjónvarp og útvarp. Niðurstaða umboðsmanns var m.a. sú að sala Ríkisútvarpsins á auglýsingum til birtingar á heimasíðunni gæti ekki talist heimil gjaldtaka fyrir auglýsingar í „hljóðvarpi og sjónvarpi“ skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 122/2000.

Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að helmingur tekna vegna gjaldsins sé greiddur fyrir fram þann 15. febrúar og 15. maí ár hvert af hálfu fjármálaráðuneytisins. Eftirstöðvar gjaldsins mundu greiðast á tímabilinu frá ágúst til desember í samræmi við innheimtu annarra opinberra gjalda.

Í 4. mgr. eru fyrirmæli um að setja skuli gjaldskrár fyrir auglýsingabirtingu og aðra skylda tekjustofna og er þar átt við gjaldtöku skv. 15. gr. útvarpslaga. Er það í verkahring stjórnar að setja slíkar gjaldskrár, í reynd auðvitað í samráði við daglega stjórnendur sem fara með auglýsingamál og fjármál fyrirtækisins.“

Það er stjórnin sem setur þessar reglur um fjárstreymi inn í Ríkisútvarpið að hluta til varðandi gjaldtöku fyrir auglýsingar sem er væntanlega svipað fyrirkomulag og við búum við nú, en spurningin er um hitt sem lýtur að skattheimtunni sem væntanlega þyrfti þá að ráðast af ákvörðunum Alþingis enda segir hér í 3. liðnum: „Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.“

Nú ætla ég að forvitnast um það hvernig ríkisskattstjóri tekur á þessum málum. Hann er þekktur fyrir að fara mjög rækilega og málefnalega í saumana á lagafrumvörpum sem varða skattamál. Hér segir ríkisskattstjóri, með leyfi forseta:

„Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins er lagt til að einn tekjustofna Ríkisútvarpsins hf. verði sérstakt gjald sem skattstjórar skuli leggja á samhliða álagningu opinberra gjalda og eftir þeim reglum sem gilda um álagningu þeirra gjalda. Er gjaldskyldu ætlað að ná til allra þeirra er bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt, jafnt manna sem lögaðila, með ákveðnum undantekningum þó sem settar eru fram með almennum hætti. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið, bæði í 4. kafla almennra athugasemda og í athugasemdum við 12. gr., er með þessu lagt til að hætt verði að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins með afnotagjöldum, en þess í stað fái Ríkisútvarpið tekjur af „nefskatti“. Umrætt gjald er í frumvarpinu sett fram sem skattur og fær ríkisskattstjóri ekki annað séð en að sú framsetning samrýmist fræðilegum skilgreiningum á skatti. Horfir hann þá til þess að ákvörðun gjaldsins er ætlað að vera einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds.“

Að sjálfsögðu hlaut það að vera ríkisvaldið sem ákvarðaði upphæð þessa skatts eins og reyndar kemur fram í lagagreininni og í umsögn um hana.

„Í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins er eftirfarandi lagt til varðandi framkvæmd skattheimtunnar: „Við álagningu, innheimtu, eftirlit og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að frátöldu ákvæði 98. gr.“ Í tilefni af orðalagi ákvæðisins vekur ríkisskattstjóri athygli á að með lögum nr. 129/2004 var heiti laganna nr. 90/2003 breytt í lög um tekjuskatt. Tók sú breyting gildi 31. desember 2005. Þá gerir ríkisskattstjóri athugasemd við þá fyrirætlun að 98. gr. laga nr. 90/2003 sé ekki að nokkru leyti ætlað að eiga við um umrætt gjald. Í 1. mgr. 98. gr. er kveðið á um skyldur skattstjóra til að tilkynna álagningu opinberra gjalda. Samkvæmt ákvæðinu skal m.a. senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir. Jafnframt skulu skattstjórar auglýsa rækilega, þar með talið í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið. Þá skulu skattstjórar senda viðkomandi innheimtumönnum ríkissjóðs skrá yfir þá sem á hafa verið lagðir skattar. Samrit þeirrar skrár skal sent ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda.

Réttaráhrif stjórnvaldsákvarðana markast af birtingu þeirra, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljós má því vera nauðsyn þess að birta álagningu umrædds nefskatts þeim er álagningunni sæta. Ákvæði um kærur álagningar gjalda í 99. gr. laga nr. 90/2003 er samkvæmt frumvarpinu ætlað að ná til umrædds nefskatts. Auglýsing um lok álagningar skv. 1. mgr. 98. gr. markar upphaf kærufrests. Þá þarf vart að fjölyrða um nauðsyn þess að innheimtumönnum ríkissjóðs sé tilkynnt um álagningu þeirra gjalda sem þeim er ætlað að innheimta, þar með talið álagningu hins fyrirhugaða nefskatts. Að framangreindu virtu sér ríkisskattstjóri ekki ástæðu til annars en að umræddar reglur 1. mgr. 98. gr. laga nr. 90/2003 verði látnar taka til gjalds samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins.“

Þetta er sem sagt allt í góðu lagi.

„Á fylgiskjali II með frumvarpinu er að finna umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um frumvarpið. Í umsögninni er m.a. fjallað um virðisaukaskattsskyldu Ríkisútvarpsins. Við þá umfjöllun vill ríkisskattstjóri auka eftirfarandi:

Útvarpsþjónusta fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts eins og sviðið er afmarkað í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í 3.–6. gr. þeirra laga er kveðið á um það, á hverjum hvíli skattskylda og um skráningarskyldu þeirra. Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og skila honum í ríkissjóð hvílir almennt á hverjum þeim sem í atvinnuskyni selur eða afhendir vörur ellegar innir af hendi þjónustu sem fellur undir skattskyldusviðið. Jafnframt hvílir slík skylda á ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þau selja í samkeppni við atvinnufyrirtæki vörur eða þjónustu sem fellur undir skattskyldusviðið. Þeim sem skattskyldir eru ber að tilkynna starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra. Skráning er forsenda innskattsréttar og réttra skila skattsins. Í 5. mgr. 5. gr. er sett það skilyrði skráningar að tekjur af sölu virðisaukaskattsskyldrar vöru og þjónustu séu að jafnaði ekki lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.

Verði frumvarpið að lögum verður sú grundvallarbreyting á tekjusamsetningu Ríkisútvarpsins frá því sem verið hefur að brott falla afnotagjöld fyrir veitta þjónustu sem borið hafa virðisaukaskatt, en í stað þeirra koma tekjur af umræddum nefskatti. Sú breyting tekjusamsetningar hefur ein og sér ekki áhrif á innskattsrétt Ríkisútvarpsins, en gæti hugsanlega skipt sköpum varðandi skráningu þess á grunnskrá virðisaukaskatts og þannig á bæði innskattsrétt og skyldu til innheimtu virðisaukaskatts af sölu er fellur innan skattskyldusviðsins. Virðisaukaskattsskil Ríkisútvarpsins síðastliðin þrjú ár gefa þó ekki tilefni til að ætla að svo muni verða. Virðisaukaskattsskyld velta að frátöldum afnotagjöldum hefur numið 18–20% hærri fjárhæð en nemur þeim kostnaði er innskattur hefur verið reiknaður af. Að því gefnu, að hvorki verði umtalsverð lækkun tekna Ríkisútvarpsins af auglýsingum og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess, né að umtalsverð hækkun verði á kostnaði vegna aðfanga sem bera virðisaukaskatt, verður ekki annað ráðið en að skrá beri Ríkisútvarpið hf. á grunnskrá virðisaukaskatts.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru tiltekin ætluð áhrif á tekjur ríkissjóðs af því ef Ríkisútvarpið hf. teldist vera í blandaðri starfsemi að því er virðisaukaskatt varðar. Ríkisskattstjóri fær ekki séð að til slíks geti komið miðað við fyrirliggjandi frumvarp, enda verður af frumvarpinu ekki ráðið að Ríkisútvarpinu hf. sé ætlað að stunda nokkra þá starfsemi sem fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Í því sambandi bendir ríkisskattstjóri á að móttaka skattfjár felur ekki í sér blöndun starfsemi í þeim skilningi að leiði til takmörkunar á innskattsrétti.

Eins og að framan greinir er það niðurstaða embættisins að gjald til ríkisútvarpsins beri að flokka sem skatt. Skattar af þeirri tegund sem hér er um að ræða hafa verið kallaðir nefskattar þar sem þeir leggjast jafnt á alla óháð tekjum og eignum. Kostur nefskatts er helstur sá að álagningin hans er einföld og auðvelt er að fylgjast með skattgreiðslum. Helsti ókostur nefskatts er að hann tekur ekki tillit til greiðslugetu og er íþyngjandi fyrir tekjulága, þ.e. að þeir greiða hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem hærri hafa tekjurnar. Af þessum ástæðum er sjaldgæft að nefskattar séu lagðir á, a.m.k. af stærðargráðu sem veruleg getur talist.

Fyrr á öldum voru nefskattar algengir en eru að mestu horfnir í dag. Tvö þekkt dæma úr skattasögunni eru annars vegar skattur sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á 1380 til að fjármagna stríðið við Frakkland. Skattur þessi leiddi til bændauppreisnarinnar 1381.“ — Þetta gerist nokkuð dramatískt hjá ríkisskattstjóra. Hann segir áfram, með leyfi forseta:

„Hins vegar er tilraun á síðari tímum til að leggja á verulegan nefskatt þegar stjórn Margaret Thatcher í Englandi lét lögleiða nefskatt í stað nokkurs konar fasteignagjalda til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga. Skattinum var komið á 1989–1990. Skattur þessi mætti mikilli andstöðu, milljónir manna neituðu að borga hann og náðu mótmælin hámarki sínu með óeirðum á Trafalgar Square í lok mars 1990. Andstaða innan Íhaldsflokksins leiddi m.a. til þess að Margaret Thatcher sagði af sér um haustið. Arftakar hennar lækkuðu skattinn og afnámu hann frá og með 1994.“

Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur, held ég að hljóti að vera. (JBjarn: ... ráðherrann.) Já, enda eru þarna ákveðnar vísbendingar og sögulegar tilvísanir sem sumir ættu kannski að taka svolítið alvarlega. En áfram segir, með leyfi forseta:

„Eins og að framan segir er einn helsti galli við nefskatt tengslaleysi hans við gjaldþol manna. Í fyrirliggjandi tilviki er brugðist við því með því að undanþiggja hina tekjulægstu gjaldinu. Enn fremur eru þeir sem komnir eru yfir tiltekinn aldur undanþegnir. Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru sitt hvoru megin næst mörkunum, sem vakið getur spurningu um jafnræði. Sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna eftir því hvort annað eða bæði eru ofan markanna. Þá eru skattfrelsismörk skv. frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur o.þ.h. en ekki fjármagnstekjur. Allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu.

Fyrir aldursmörkunum eru hins vegar engin rök færð fram. Tekjulágir aldraðir yrðu þá þegar undanþegnir vegna lágra tekna en aldursmörkin leiða til þess að tekjuháir aldraðir yrðu undanþegnir á meðan mun tekjulægri yngri skattaðilar bæru skattinn.

Frá skattalegu sjónarmiði hefur nefskattur á einstaklinga fáa kosti en marga galla. Helstu rökin með honum eru framkvæmdalegs eðlis, þ.e. hann er einfaldur í framkvæmd og auðveldur í eftirliti. Sé litið til þeirra röksemda og jafnframt gengið út frá því að æskilegt sé að rekstur Ríkisútvarpsins sé kostaður með sömu fjárhæð úr hendi hvers manns má benda á að einfaldara væri að lækka persónuafslátt manna sem nemur gjaldfjárhæðinni og lögbinda framlag til ríkisútvarpsins sem nemur hinni sömu fjárhæð á mann. Skattaleg áhrif yrði mikið til hin sömu, gallarnir færri og framkvæmdin einfaldari.

Samkvæmt frumvarpinu ber einnig að leggja sama skatt á lögaðila og menn. Fyrir þeirri tilhögun eru ekki færð nein sérstök rök í greinargerðinni. Skattar á fyrirtæki, sem ekki eru tengdir hagnaði þeirra hafa verið á undanhaldi en hér er snúið af þeirri braut.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins (á fylgiskjali II með frumvarpinu) kemur fram að kostnaður við innheimtu afnotagjalda hafi verið 70–80 milljónir króna á ári og er gert ráð fyrir því að sú fjárhæð sparist. Er þetta skýrt með því að sérstök innheimta falli niður og innheimta nefskattsins verði hluti af innheimtu opinberra gjalda. Varðandi þetta atriði skal bent á að nokkur fjöldi einstaklinga, sem ekki greiðir tekjuskatt eða önnur opinber gjöld (vegna bóta, ívilna skattstjóra, millifærslu á persónuafslætti o.fl.) mun verða krafinn um gjald til Ríkisútvarpsins. Mun það hafa í för með sér einhverja aukningu innheimtuumsvifa og innheimtukostnaðar.

Hvað lögaðila varðar skal bent á að gjaldskyldir yrðu samkvæmt frumvarpinu um 26.000 lögaðilar. Af þeim greiddi um helmingur tekjuskatt eða önnur gjöld til ríkissjóðs. Nýir skattgreiðendur úr röðum lögaðila yrðu því um 13.000. Þá er vert að hafa í huga að ætla má að verulegur hluti hinna nýju skattgreiðenda yrði félög sem ekki eru starfandi og hafa því engar tekjur til að greiða gjaldið af.

Í kostnaðarumsögninni er reiknað með að ekki verði unnt að innheimta gjaldið hjá þúsundum lögaðila. Verður það mat ekki dregið í efa. Ekki er fjallað um afleiðingar þess eða hvað áhrif það muni hafa. Skattyfirvöldum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leggja gjaldið á alla tekjuskattsskylda lögaðila, án nokkurra heimilda til að fella það niður. Ætla má að meðal þessara lögaðila yrðu nokkur þúsund félög sem ekki eru lengur með nokkra starfsemi, hafa engar tekjur og eiga engar eignir og í sumum tilvikum finnist ekki forsvarsmenn. Vangreidd útvarpsgjöld muni því safnast upp með dráttarvöxtum þar til gerð verði krafa um gjaldþrot og félaginu slitið í lok þess með ærnum tilkostnaði. Fyrir fáum árum var lögfest einfölduð aðferð til slita á félögum sem ekki eru lengur virk. Forsenda fyrir að fara þá leið er að félagið skuldi ekki opinber gjöld. Með álagningu útvarpsgjaldsins yrði þessi leið útilokuð í mörgum tilvikum.

Skattyfirvöld hafa um nokkurt skeið án árangurs talað fyrir því að tekin verði upp viðurlög við því að félög skili ekki framtölum og skýrslum, m.a. til að knýja óvirk félög til afskráningar. Segja má að álagning útvarpsgjalds muni koma til með að hafa slík áhrif og að því leyti muni upptaka þess verða af hinu góða, þótt vafi leiki á um hagkvæmni þeirrar leiðar.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki hjá því komist að draga í efa að sú tillaga frumvarpsins að afla Ríkisútvarpinu tekna með álagningu nefskatts sé heppileg.“

Þetta segir ríkisskattstjóri en meiri hluti nefndarinnar hefur hins vegar sitthvað við athugasemdir ríkisskattstjóra að segja og víkur þar sérstaklega að virðisaukaskattsþættinum. En varðandi bæði framkvæmd og ekki síður sanngirnisþáttinn í nefskattinum hljótum við að verða að hlusta á ríkisskattstjóra og ég held að það væri ráðlegt fyrir stjórnmálamennina sem standa fyrir þessum lagabreytingum að leiða hugann að þeim dæmisögum sem ríkisskattstjórinn vísar til, annars vegar til skattálagningar Ríkharðs II. árið 1380 sem leiddi til bændauppreisnar árið eftir og hins vegar til nefskattsins illræmda sem Thatcher-ríkisstjórnin innleiddi árið 1989 og varð að hluta til þess valdandi að Margrét Thatcher sagði af sér embætti sem forsætisráðherra árið eftir.

Ég er búinn að fara yfir ýmsa þætti þessa máls og ætla núna að rifja upp meginþættina sem lúta að réttindum starfsmanna stofnunarinnar. Ég ætla að taka það í nokkrum þemum, fyrst það sem segir almennt.

Þegar ríkisstofnun er breytt í hlutafélag hætta starfsmenn hennar að vera starfsmenn ríkisins og verða þess í stað starfsmenn viðkomandi hlutafélags þrátt fyrir að ríkið beri áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. Ég ætla að gera grein fyrir helstu atriðum sem falla niður en ekki er um að ræða neina tæmandi upptalningu af minni hálfu. Ég gæti í síðari ræðu minni að sjálfsögðu reynt að stoppa eitthvað í götin en ég ætla að víkja að helstu þáttum.

Þá er þess að geta að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki lengur um réttarstöðu starfsmanna. Helstu atriðin sem falla niður við þessa lagabreytingu eru í fyrsta lagi andmælarétturinn. Áminningarskyldan fellur niður. Skiptir það einhverju máli? Skiptir áminningarskyldan einhverju máli? Já, hún skiptir máli fyrir þann einstakling sem til stendur að reka úr starfi. Þá getur skipt máli að hann hafi fengið tækifæri til að bæta sig í starfi, leiðrétta misskilning ef um slíkt er að ræða og forða því þannig að honum verði sagt upp, hugsanlega að ósekju. Þýðir þetta að samtök opinberra starfsmanna — þetta eru áhersluatriði frá þeim komin sem ég er að vísa í — vilji halda hlífiskildi yfir fólki sem ekki sinnir starfi sínu? Nei, alls ekki. Það er enginn að tala um það. Það er verið að tala um að komið sé fram við fólk á sanngjarnan hátt og það er verið að tala um að því sé forðað að fólki sé að ósekju sagt upp störfum, hugsanlega vegna misskilnings eða vegna þess að það hafi ekki gert sér grein fyrir einhverju sem var ámælisvert í vinnu þess eða vinnubrögðum og hægt var að laga. Við minnumst þess að þegar frumvarp um afnám áminningarskyldunnar kom fram í þinginu urðu mikil viðbrögð við því á meðal starfsmanna innan almannaþjónustunnar og ekki alls fyrir löngu var athyglisvert viðtal í útvarpi þar sem kennari í stjórnunarfræðum við Háskóla Íslands — hann var reyndar að tala fyrir meiri sveigjanleika í þessum efnum — lét þess getið að menn einblíndu hugsanlega um of á einstaka starfsmenn sem ekki stæðu sig og gleymdu því að sá sem ekki risi undir skyldunum væri hugsanlega sá sem hefði brottrekstrarvaldið á hendi, þ.e. forstöðumaðurinn, og þar væri iðulega að finna brotalamirnar. Það er hætt við því að einmitt þeir forstöðumenn í stofnunum og fyrirtækjum sem ekki ráða almennilega við starf sitt reki fólk skýringalaust. Hinir sem ráða vel við starfið fara að settum lögum og reglum, finna að við viðkomandi starfsmann og gefa honum tækifæri til að bæta sig. Ef það er ekki gert er honum sagt upp og það er fullkomlega löglegt. Þetta er sem sagt réttur sem fellur niður þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki lengur en það gerist sjálfkrafa að þau falla úr gildi þegar opinberri stofnun er breytt í hlutafélag.

Skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn — sú skylda er ekki fyrir hendi í hlutafélagi. Ákvæði um aðgang almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda finnst mér reyndar að megi gjarnan missa sig. Það er ekki gott, hvorki fyrir starfsmann né stjórnanda, hygg ég. Þegar fólk sækir um störf tel ég að það sé ekki til góðs fyrir neinn að hafa þá kvöð að þurfa að upplýsa umsækjendur um störf, jafnvel þá sem ekki fengu starfið. Ég hef ákveðnar efasemdir um þetta og rætt hefur verið um að þessu ákvæði megi gjarnan farga. Þannig er það náttúrlega í þessu reglugerðarverki öllu, bæði þessum lögum og reglugerðum, að sitthvað þarf endurskoðunar við og er stöðugt verið að vinna að endurskoðun á. Það á samt ekki að taka það úr sambandi með þessum hætti.

Uppsagnarfresturinn breytist. Þagnarskyldan er einfaldlega öryggisatriði í ýmsum stofnunum á sviði heilbrigðismála, löggæslu og hugsanlega einnig í útvarpi við einhverjar aðstæður. Þegar ég heyrði það ekki alls fyrir löngu — ég held að það hafi verið sjálfur hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar sem vék að því að það gæti komið til greina að slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli yrðu núna við yfirfærsluna starfsmenn Leifsstöðvar og það er náttúrlega nokkuð sem ekki gengur en er dæmigert um mál af þessu tagi, þegar hlutirnir eru ekki hugsaðir til enda. Slökkviliðsmaður eða sjúkraflutningamaður sem er settur undir hlutafélag hefur ekki þau réttindi sem opinber starfsemi veitir honum, ekki heldur þær skyldur. Það er hlutur sem einnig þarf að hyggja það.

Þannig er t.d. verkfallsréttur opinberra starfsmanna ekki eins rúmur og annarra. Á það að vera svo? Ég hef haft ákveðnar efasemdir um það en þó verðum við að viðurkenna og horfast í augu við að það er ekki það sama að loka verslun og sjúkraflugi. Það er ekki hið sama. Það er ekki það sama að leggja niður löggæslu og öryggisgæslu hvers kyns og ýmsa aðra atvinnustarfsemi. Það verður einfaldlega að horfast í augu við það þó að ég sé þeirrar skoðunar að ef starfsfólk hefur rúm völd og sjálfsákvörðunarrétt sýnir reynslan að fólk gætir öryggis og sýnir sanngirni. Slysin verða fyrst og fremst þegar verið er að togast á um línurnar.

Skylda að hlíta breytingum á störfum og verksviði, óbreytt launakjör, réttindi o.s.frv. — þetta er eitt af því sem breyttist með lögunum 1996, hygg ég. Þá voru sett inn ákvæði sem skylda starfsmenn til að hlíta boðum um tilfærslur í starfi ef það er á sömu kjörum, það er ekki verið að rýra réttindin og kjörin hjá fólki. Ég nefni þetta sem dæmi um margvíslegan sveigjanleika sem hefur komið til sögunnar innan hinna opinberu rekstrarforma, sveigjanleika sem ekki var alltaf fyrir hendi fyrr á tíð. Ef við rifjum það upp hve mikið hefur breyst á undanförnum 2–3 áratugum var það svo, a.m.k. þegar ég var að byrja í starfi hjá Ríkisútvarpinu og um alllangt árabil gilti það um þá stofnun eins og flestar aðrar opinberar stofnanir að það þurfti að fá leyfi fyrir hverju stöðugildi frá hinu miðstýrða fjármálaráðuneyti. Þetta er löngu liðin tíð. Sveigjanleiki allur og sjálfsákvörðunarréttur stofnana er núna mun meiri en áður var. Þessar sífelldu kvartanir um að allt sé svo svifaseint og að ekki sé hægt að athafna sig hjá opinberum stofnunum, þess vegna sé nauðsynlegt að breyta þeim í hlutafélög, standast einfaldlega ekki. Sveigjanleiki er fyrir hendi. Það er óvefengjanleg staðreynd.

Síðan er náttúrlega biðlaunaréttur, ég hef farið í allítarlegu máli yfir hann og hvernig ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hyggst skerða þessi réttindi frá því sem kveðið er á um þau í núgildandi lögum. Með þessu lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið er sá réttur skertur. Þetta lýtur að réttindum og lögum þeim skyldum.

Síðan eru önnur lög, þ.e. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Stéttarfélög í hlutafélögum semja undir lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Það er annað kjaraumhverfi að því leyti. Síðan munu gilda lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla sem eru í gildi enn nema um annað sé samið. Síðan eins og ég gat um áðan gilda ólíkar reglur, mismunandi reglur um verkföll starfsmanna. Það hefur verið allur gangur á því í Ríkisútvarpinu og er það svo að strangari reglur gilda um þetta efni en í einkareknu stöðvunum. Hins vegar hefur komið til þess að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa lokað stofnuninni. Það var m.a. gert í byrjun október 1984 í upphafi margra vikna verkfalls opinberra starfsmanna en það var vegna þess að stjórnvöld höfðu þá einhliða hýrudregið starfsmenn. Laun sem menn áttu inni áttu ekki að greiðast og voru ekki greidd. Það olli því að starfsmenn lögðu niður vinnu.

Síðan hef ég farið yfir það hvernig núgildandi kjarasamningur muni gilda þar til nýr samningur verður gerður eða kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Þá eiga réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað að færast yfir til nýja atvinnurekandans. Sú staða kemur hins vegar vafalaust upp fljótlega eftir rekstrarformsbreytinguna að nýr ráðningarsamningur verður gerður við starfsmenn. Þá er óvíst hvernig tekst til að semja um sambærileg réttindi þegar nýr kjarasamningur verður gerður. Það sem er bagalegt í þessu efni er hve erfitt það er að fá upplýsingar frá talsmönnum þessa frumvarps, frá hv. formanni menntamálanefndar og hæstv. menntamálaráðherra, um hvað þessir talsmenn ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hyggist gera, á hvern hátt þau hyggist beita sér fyrir hönd starfsmanna þegar til kastanna kemur. Þetta er nokkuð sem menn vilja einfaldlega fá svör við.

Eins og fram hefur komið munu upplýsingalögin og stjórnsýslulög ekki gilda um RÚV hf. eins og þau gilda um ríkisstofnunina Ríkisútvarp. Upplýsingaréttur almennings og upplýsingaskylda stjórnvalda um RÚV hf. verður þannig ekki lengur til staðar. Jafnræðisreglan, andmælaréttur, rannsóknarregla, meðalhófsregla o.s.frv. gilda ekki lengur um starfsemi RÚV hf.

Síðan er það sá réttur sem ég hef hamrað hér á, þ.e. biðlaunarétturinn samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. II. Biðlaunarétturinn flyst til hlutafélagsins en einvörðungu til 31. desember árið 2008. Þeir sem eiga biðlaunarétt og missa starf sitt vegna niðurlagningar stöðu eftir 31. desember 2008 munu ekki njóta þeirra réttinda samkvæmt frumvarpinu. Með þessu er verið að skerða réttindi þeirra starfsmanna RÚV sem njóta biðlaunaréttar sem þeir hafa áunnið sér í starfi og er það andstætt eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar að mati lögfræðinga. Það stangast á við eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar að mati lögfræðinga. Hér er ég að vísa í álit lögfræðinga stéttarfélaganna. BSRB og BHM hafa sameiginlega mótað afstöðu sína í þessu máli. Sem sagt, réttindi starfsmanna sem heyra undir bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur sem hafna starfi hjá RÚV hf. eru ekki tryggð í frumvarpinu. Þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn er ekki um að ræða sambærilegt starf hjá RÚV hf. vegna þess að þeir njóta ekki fullra réttinda.

Ég vísa í dómsmál sem hafa gengið, mál gegn Reykjanesbæ. Starfsmaður vatnsveitna flutti til hlutafélags, ég held að það hafi verið Hitaveita Suðurnesja þó að ég þori ekki alveg að fullyrða um það, nema hvað honum hafði verið heitið því að halda alveg óskertum réttindum sem reyndist svo ekki vera. Það voru lífeyrisréttindin og önnur réttindi sem ég hef minnst á. Það var farið í mál fyrir hönd mannsins og hann vann það. Og ég spyr: Er það þetta sem menn vilja hjá Ríkisútvarpinu? Ég get alveg fullyrt að það verða málaferli út af þessu. Ég get alveg fullyrt það. Ég hef meira að segja heyrt þegar í fólki sem íhugar málaferli. Ég er sannfærður um að stéttarfélögin munu bakka það upp. Þess vegna spyr ég: Er það ekki siðaðra manna háttur að reyna að ná frekar samkomulagi um málið? Væri ekki heppilegt fyrirkomulag að reyna að semja um þessa þætti? Ég ítreka að helst vildi ég að sjálfsögðu að þetta frumvarp yrði hreinlega ekki að lögum, því yrði skotið á frest eða hreinlega vikið út af borðinu — það vildi ég helst. En að sjálfsögðu þarf að reyna, ef þrjóskan víkur ekki úr huga stjórnarmeirihlutans eru að sjálfsögðu allar breytingar á frumvarpinu sem bæta réttarstöðu starfsmanna mikilvægar.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ráðningarvernd verður engin hjá RÚV hf. og hægt verður að segja starfsmönnum upp án andmæla, rökstuðnings eða áminningar þannig að þrátt fyrir að biðlaunaréttur fylgi til 31. desember 2008 verður alltaf hægt að segja starfsmönnum upp þó að ekki sé verið að leggja starf niður.

Muna menn hvað gerðist hér fyrir 3–4 dögum þegar starfsmanni bílaumboðs var sagt upp störfum vegna þess að hann hafði keypt bíl frá öðru umboði? Ég gantaðist með það í pistli sem ég skrifaði að samkvæmt lögum og reglum væri þess vegna hægt að segja einstaklingi upp hjá RÚV sem hefði áskrift að Stöð 2. Ég er ekki að gera því skóna að slíkt gerðist, alls ekki. Ég hef ekki nokkra trú á því og segi þetta svona nánast í gríni en þó fylgir sú alvara að réttarstaðan er þessi, hún er breytt að því leyti að verndin sem einstaklingurinn hefur hjá hinu opinbera, innan almannaþjónustunnar, er ríkari, hún er meiri. Það er hlutur sem við eigum ekki að taka léttilega, alls ekki.

Síðan er það lífeyrisrétturinn. Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild LSR í dag. Iðgjöld hans miðast við þau laun sem hann hafði þegar staða hans var lögð niður og breytast iðgjaldagreiðslurnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Með öðrum orðum verður eins konar frysting á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá RÚV hf. því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs.

Lífeyrisréttur starfsmanna A-deildar er að sjálfsögðu ólíkur því sem á við um B-deildina. Í þessu lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið hf. er ekki einu orði minnst á réttindi starfsmanna sem greiða í A-deild LSR. Aðeins er fjallað um lífeyrisgreiðslur samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997 en sú grein á eingöngu við um B-deild LSR. Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild LSR til áframhaldandi aðildar að LSR eru háðir nokkrum skilyrðum. Sé ekki gengið tryggilega frá því í lagafrumvarpinu yrði aðildin háð samþykki RÚV hf. og að hlutafélagið taki á sig þær skuldbindingar sem henni fylgja.

Þetta eru í grófum dráttum þau áhersluatriði sem ég hef sett fram varðandi réttindi starfsmanna. Í umfjöllun minni um frumvarpið hef ég nálgast málin frá mörgum hliðum. Ég hef talað um stofnunina sem slíka, það menningarlega félagslega hlutverk sem hún sinnir og hvaða áhrif rekstrarformsbreytingin hefur á stofnunina til að sinna þessu hlutverki. Síðan hef ég rakið hvernig aðrar þjóðir bera sig að. Í sumum samanburðarríkjum okkar er vissulega hlutafélagsform á ríkisútvörpunum og það á við víða annars staðar á Norðurlöndunum, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, en fram til þessa hafa Danir og Íslendingar verið með ríkisstofnun. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að Danir hafi verið einna duglegastir við að koma framleiðslu sinni á framfæri víða um heim, selt vinsæla sjónvarpsþætti til yfir 40 landa — og geri aðrir betur — en þó búa þeir við sama fyrirkomulag og Íslendingar hafa búið við um árabil og verða seint sakaðir um að vera ekki sveigjanlegir í sínu umhverfi öllu saman.

Ég ætla að leyfa mér að ítreka spurningu mína til hæstv. forseta þingsins um hvað vaki fyrir hæstv. forseta varðandi framhald á þessum fundi. Ég skal alveg heiðarlega segja hæstv. forseta hvað vakir fyrir mér. Hér er fjöldi manns á mælendaskrá, einstaklingar sem eru ekki á svæðinu og ég vil vita eða fá einhverjar upplýsingar um hvað vakir fyrir forseta þingsins. Ég mundi ljúka máli mínu núna á næstu mínútum ef ég fengi að vita að þingfundi lyki við það.

(Forseti (JBjart): Forseti hefur í hyggju, hv. þingmaður, að halda þingfundi áfram enn um sinn. Eftir því sem forseta sýnist eru einhverjir ræðumenn væntanlegir í þinghúsinu sem eru á mælendaskrá. Þingfundi verður haldið áfram enn um sinn.)

Nú, við erum með nefndarálit sem fylgja þessu frumvarpi, bæði frá meiri hluta menntamálanefndar og minni hlutanum. Þau eru ekki mikil að vöxtum en í þeim er farið yfir — sérstaklega meiri hlutinn tíundar mjög rækilega hverjir komu á fund nefndarinnar til að fjalla um þetta frumvarp. Það er sagt hvert frumvarpið hafi farið til umsagnar og umfjöllunar en hv. formaður menntamálanefndar brást hinn versti við þegar því var lýst yfir af hálfu stjórnarandstöðu á þingi að frumvarpið hefði verið rifið út úr nefnd. Vildi hann meina að það hefði fengið mjög vandaða, ítarlega og málefnalega umfjöllun í þinginu og í nefndinni. Reyndar heyrði ég hrósyrði í garð hv. formanns nefndarinnar fyrir verkstjórn hans í þessu máli. Hins vegar vekur það athygli mína þegar ég fer yfir umsagnir þeirra sem fengu frumvarpið til umfjöllunar hve margt þeim þykir vera óljóst í frumvarpinu, hve mjög álitsgjafarnir sem margir hafa lagst mjög vel yfir frumvarpið telja það gallað að mörgu leyti og óljóst.

Það var athyglisvert að á mjög fjölmennum fundi sem haldinn var í Ríkisútvarpinu í dag, troðfullt mötuneyti Ríkisútvarpsins í Efstaleitinu, að þar var einróma samþykkt ályktun þar sem það er sérstaklega dregið fram hve óljóst og gloppótt um margt frumvarpið er. Það er talað um óútfyllta ávísun til framtíðar. Síðan segir að starfsmenn geri alvarlegar athugasemdir um að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið eigi að ráða yfir í upphafi. Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Þá horfðu menn að sjálfsögðu á þau frumvörp sem komu úr þessari áttinni, frá starfsmannasamtökum og stéttarfélögum, og það má til sanns vegar færa að engar breytingar eru gerðar á frumvarpinu til að koma til móts við sjónarmið þessara aðila. En ályktun almenns starfsmannafundar til Alþingis um nýtt fyrirtæki, Ríkisútvarpið hf., var sett í hólf allra þingmanna undir kvöldið. Þessi ályktun er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Starfsmenn Ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Bent hefur verið á opin ákvæði í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára. Þær virðast nú hafa endað í óútfylltri ávísun til framtíðar. Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra.

Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi ekki enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi.

Starfsmenn furða sig líka á því að ekki hafi verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf.

Það er lágmarkskrafa að réttindi starfsmanna verði tryggð, sérstaklega fullur biðlaunaréttur, aðild allra starfsmanna að LSR og áframhaldandi aðild starfsmanna að núverandi stéttarfélögum innan RÚV. Starfsmenn RÚV hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin, sem eru eign starfsmanna, mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágu laununum.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að ný lög hafi ekki verið nógu vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Ég skal játa það, hæstv. forseti, að ég var áður búinn að vitna í þessa ályktun, gott ef ég var ekki búinn að lesa hana alla upp orðrétt en mér fannst bara kominn tími til, af því að það er langt síðan ég hóf ræðu mína, að minna á þessi ágætu orð frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Ég hef hins vegar ekki farið yfir nefndarálit frá minni hluta menntamálanefndar þar sem færð eru rök fyrir því að þessu frumvarpi verði vísað frá. Hér eru færð rök fyrir því í allítarlegu máli og ætla ég nú að fara yfir þessar röksemdir.

Fyrst eru hér fáeinar línur sem eru almenns eðlis. Hér segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er ekki skapaður til frambúðar sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir og þar með ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag væri stigið varhugavert skref sem í langflestum tilvikum öðrum hefur leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Þá gera margir lausir endar í frumvarpinu og málatilbúnaði í tengslum við það að verkum að málið er vanreifað.“

Aðeins innskot hér sem verður aldrei of oft ítrekað, þær stofnanir sem hafa verið gerðar að hlutafélögum með jafnvel lagaákvæðum um að ekki standi til að selja þær hafa í nánast öllum tilvikum verið seldar, ekki öllum, ekki Pósturinn, en í nánast öllum tilvikum verið seldar. Auðvitað er að mörgu leyti rökrétt að ef maður ætlar að nýta sér hlutafélagaformið gerir maður það að fullu, það er rökrétt. Ég virði það sjónarmið alveg, og skil. En hitt virði ég ekki að telja fólki trú um að ekki standi til að selja, vinna fólk þannig til fylgilags við viðkomandi frumvarp og koma aftan að því síðar. Það eru mikil fræði hvernig einkavæðingarsinnar hafa borið sig að á undanförnum áratugum.

Ég minnist þess að hingað til lands kom maður að nafni Pirie, dr. Pirie. Hann var í heimsókn hjá annaðhvort Vinnuveitendasambandinu eða Verslunarráðinu, gott ef það var ekki hið síðara. Dr. Pirie setti fram 10 reglur. Verslunarráðið kallaði reglurnar „10 boðorð dr. Piries“. Þetta var eins konar handbók í því hvernig ætti að einkavæða. Handbókin laut ekki að verklaginu sjálfu, heldur hvernig ætti að fara að gagnvart starfsmönnum stofnana og þjóðinni. Dr. Pirie var með alls konar trix í þessu, ég man að eitt boðorðið kvað á um að það ætti að fara varlega í að segja fólki allan sannleikann. Ég skal athuga hvort ég get ekki fundið þessi boðorð dr. Piries. Þetta gæti verið ágætt fyrir ríkisstjórnina ef hún lendir í vandræðum með frekari einkavæðingaráform sín, kannski gæti hún lært eitthvað svolítið af dr. Pirie.

Síðan hafa fleiri trúboðar komið hingað til lands. Hingað kom á sínum tíma í boði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Friðriks Sophussonar, Ruth nokkur Richardson. Hún hafði verið fjármálaráðherra í heimalandi sínu, Nýja-Sjálandi, og gert þar mikinn óskunda og usla. Hún kom hingað og ég minnist þess að hún hélt vakningarsamkomu á vegum fjármálaráðuneytisins á Hótel Loftleiðum. Það var geysilegt ljósasjó og Ruth Richardson predikaði þarna yfir stútfullum sal, mjög rakspíruðum af forstöðumönnum frá ríkisstofnunum. Við vorum þarna einnig frá samtökum launafólks. Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, var mjög kurteis hvað þetta varðar og viljugur að hleypa gagnrýnendum sínum að borði. Ég minnist þess að hann gerði það og heimilaði okkur sem vorum með gagnstæð sjónarmið að gagnrýna predikarana. Ég man að ég átti orðastað á þessari samkomu við Ruth Richardson. Við vorum ekki á sama máli og það kom mjög berlega í ljós á þessum fundi.

Þetta var um Ruth Richardson og dr. Pirie, og útúrdúr af minni hálfu. Ég er að fjalla um álit minni hluta menntamálanefndar sem gerir tillögu um það að þessu frumvarpi verði hreinlega vísað frá. Í minnihlutaálitinu er farið yfir meginatriði málsins og þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Lagarammi sá sem reynt er að marka starfsemi Ríkisútvarpsins með frumvarpinu er ekki ljós. Alls er óvíst að Ríkisútvarp það sem á að starfa eftir frumvarpinu verði raunverulegt almannaútvarp. Skilgreining frumvarpsins á hlutverki RÚV og skyldum er óglögg, þrátt fyrir ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu og forvera þess að kröfu ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Í stað þess að móta Ríkisútvarpinu framtíðarstefnu hefur sá kostur verið tekinn að halda að mestu áfram því róli sem fyrirtækið hefur verið á síðan rekstrarumhverfi þess gjörbreyttist við afnám einkaleyfis árið 1985. Ólíklegt er að þessi lagarammi dugi Ríkisútvarpinu til lengdar. Reglur Evrópusambandsins eru í örri þróun á þessu sviði, og keppinautar Ríkisútvarpsins innan lands hafa uppi kröfur um að það noti ekki ríkisstuðning sinn til að bæta stöðu sína í samkeppni á ljósvakavettvangi umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir almannaútvarp. Þá er ekki sennilegt að hin nýja fjármögnunarleið, nefskattur, sem á að taka upp í stað útvarpsgjaldsins, efli samstöðu meðal almennings við Ríkisútvarpið, einkum ef dagskrárframboð þess dregur dám af kröfum auglýsenda og kostenda á svipaðan hátt og í markaðsstöðvunum.

Meðmælendur frumvarpsins halda því fram að með breytingum á yfirstjórn sé losað um þau flokkspólitísku tök á Ríkisútvarpinu sem því hefur lengi verið þrándur í götu. Því miður er engin trygging fyrir því í frumvarpinu að pólitískri íhlutun linni. Að ýmsu leyti hefur menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi hverju sinni meiri möguleika en áður á að beita áhrifum sínum hvað varðar starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins. Frumvarpið er því ekki þess eðlis að það skapi frekari sátt að þessu leytinu. Efasamt er að frumvarpið stangist á við tilmæli Evrópuráðsins um sjálfstæði almannaútvarps frá 1994 og 1996.“

Strax í þessum upphafsorðum er vikið að nokkrum þáttum, annars vegar því sem augljóst er að mun gerast, að samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði eru líklegir til að sækja „rétt sinn“ fyrir ESA-dómstólnum. Þetta eru hlutir sem við hreinlega getum ekki sagt neitt um en það er mjög líklegt að hér eigi allt eftir að loga í málaferlum eftir að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn tóku þá ákvörðun að byrja að rugga bátnum eins og hér hefur verið gert.

Síðan er atriði númer tvö í þessu minnihlutaáliti sem vikið er að og það er sú hætta að flokkspólitísk ítök og yfirráð yfir Ríkisútvarpinu muni ekki fara dvínandi heldur sé þvert á móti verið að auka möguleikana á þeim ítökum. Við höfum farið mjög vel yfir það í umræðu um málið í dag. Það liggur hreinlega í því að áfram verður stjórnarmeirihlutinn látinn ráða. Það kýs stjórn stofnunarinnar og það er endurspeglun á stjórnarmeirihlutanum hverju sinni sem síðan ræður útvarpsstjóra, útvarpsstjóra sem verður nær einráður, alvaldur, einvaldur um framkvæmd dagskrár og allt mannahald í stofnuninni. Hann ræður og hann rekur fólk. Menn hafa spurt: Horfa menn þá eitthvað sérstaklega til einstaklinga í því efni? Nei. Menn eru að horfa til fyrirkomulags og þá skiptir ekki máli hver einstaklingurinn er. Auðvitað skiptir það alltaf máli. Það er einstaklingsbundið hvernig menn koma fram, að sjálfsögðu, en við erum fyrst og fremst að tala um fyrirkomulagið, ekki einstaklingana. Við erum að tala um fyrirkomulag sem er til mjög langs tíma. Við skulum ekki gleyma því. Síðan segir áfram í álitsgerð minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Löngu var kominn tími til þess að skapa Ríkisútvarpinu nýjan lagaramma og gera því auðveldara að vera sjálfstætt og öflugt almannaútvarp. Frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi er því miður ekki fullnægjandi. Það varð til sem málamiðlun milli stjórnarflokkanna tveggja, og milli andstæðra afla innan Sjálfstæðisflokksins, og hefur síðan smám saman verið lagfært þannig að standist lágmarkskröfur Eftirlitsstofnunar EFTA um samkeppnisaðskilnað á ríkisrekinni útvarpsstöð. Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu með háeffuninni miðast við fyrirtæki í rekstri með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi en ekki almannaþjónustu þar sem eðlilegt þykir að allar viðeigandi upplýsingar liggi fyrir og að vald einstakra stjórnenda sé temprað. Gagnsæi í starfsemi á ekki að hafa að leiðarljósi við rekstur Ríkisútvarpsins hf. heldur er þvert á móti hætt við að breytingin leiði til leyndar og pukurs.“

Ég vísa, hæstv. forseti, og vitna í álitsgerð minni hluta menntamálanefndar um háeffvæðingu Ríkisútvarpsins. Í þeirri álitsgerð er vikið sérstaklega að vinnubrögðum stjórnarflokkanna í þessum málatilbúnaði öllum. Segir þar um það efni, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ýmsa vankanta síðari áratugi í dagskrárframboði, rekstri, mannaráðningum o.fl. lítur yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga enn svo á að Ríkisútvarpið sé einhver dýrmætasta sameign þjóðarinnar og treystir því betur til frétta og fróðleiks en öllum öðrum fjölmiðlum. Þar skiptir máli að í 76 ár hefur Ríkisútvarpið verið áhrifarík menningar- og uppeldisstofnun, hjálparhella í atvinnulífi til sjávar og sveita og miðill fyrir lýðræðisumræðu og afþreyingu. Staða Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps á Íslandi á liðinni öld var svo sterk að ekki verður víða til jafnað í Evrópu.“

Ég held að þetta séu orð að sönnu. Hér er talað af sömu væntumþykju um Ríkisútvarpið og Bretarnir gerðu í skýrslu sinni um BBC sem ég vísaði til áðan. Þar vísaði ég í formálsorð breska menningarmálaráðherrans þegar skýrsla um BBC kom út: Review of the BBC's Royal Charter. A strong BBC, independent of government, í marsmánuði árið 2005, fyrir nánast réttu ári. Áfram segir í álitsgerð minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Í flestum nálægum ríkjum er litið svo á að þegar um slíka þjóðfélagsstofnun er að ræða beri stjórnmálamönnum að leita sem breiðastrar samstöðu um nauðsynlegar breytingar í tímans rás. Hér er einfaldast að minna á Bretland, þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa borið gæfu til einstakrar samvinnu um þjóðarútvarpið BBC þrátt fyrir grimmileg átök um næstum alla aðra grunnþætti í bresku samfélagi á 20. öld.“ — Það er nefnilega það. Þetta eru sömu hughrifin og ég varð fyrir og var að lýsa. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Núverandi ríkisstjórn hefur ekki litið svo á þessi mál að nein þörf væri á samstarfi eða samráði um breytingar á Ríkisútvarpinu. Jafnvel eftir að þjóðin knúði ríkisstjórnina til samvinnu við stjórnarandstöðuflokkana um tilhögun fjölmiðlamála var ákveðið að stjórnarflokkarnir skyldu áfram véla um Ríkisútvarpið, þrátt fyrir eindregnar óskir stjórnarandstöðunnar um að þessi mál væru bæði undir í vinnunni að fjölmiðlamálum. Þessi munur á vinnubrögðum menntamálaráðherra að fjölmiðlamálum annars vegar og málefnum RÚV hins vegar er undarlegur og vekur ýmsar spurningar.

Ekki hefur ráðherranum þó tekist betur til en svo að frumvarpinu frá fyrra þingi, sem þá stöðvaðist, var breytt verulega vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA og héldu þær breytingar áfram fram á síðustu dvalarstundir frumvarpsins í menntamálanefnd. Rétt er að minna á að bréf Eftirlitsstofnunarinnar og íslensku ráðuneytanna um þetta átti upphaflega að binda trúnaði, loksins þegar þau fengust afhent í nefndinni. Við það var ekki hætt fyrr en ljóst varð að slík binding væri á svig við upplýsingalög. Athyglisvert er einnig að mikilvægt bréf ESA, sem leiddi til breytingartillagna frá meiri hlutanum, var ekki kynnt í menntamálanefnd fyrr en 24. mars en er dagsett 20. janúar.“

Hæstv. forseti. Ég sá í þeim gögnum sem fylgdu umsögnum úr menntamálanefnd bréf eða álitsgerð frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd þar sem sérstaklega er fundið að þessu og þetta tíundað.

„Þegar þessi ferill málsins er hafður í huga er í sjálfu sér viðeigandi að meiri hluti menntamálanefndar skuli að lokum hafa tekið málið út úr nefndinni gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga. Við bentum þá á að enn hefði ekki verið rætt við fulltrúa tveggja lykilstofnana vegna málsins, annars vegar Ríkisendurskoðunar sem á að annast endurskoðun hlutafélagsins og hafa meðal annars eftirlit með aðskilnaði samkeppnisrekstrar svokallaðs frá almennum rekstri, hins vegar Samkeppniseftirlits, en í þess hlut kemur meðal annars að taka á málum sem varða samkeppni á markaði auglýsinga og kostunar, en á hvort tveggja leggur Eftirlitsstofnun mikla áherslu í bréfi sínu til íslenskra stjórnvalda dags. 30. janúar. Þá var á það bent að ekki hefði verið farið yfir tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp (f.o.f. R (96) 10 um að tryggja sjálfstæði almannaútvarps, samþykkt 4. ráðherrafundar Evrópuráðsins um fjölmiðlastefnu, Prag 1994). Þess var óskað að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til fyrir lægju upplýsingar um eiginfjárstöðu hins nýja hlutafélags, sem fulltrúi úr menntamálaráðuneytinu taldi að yrði innan 2–3 vikna, en þeirri ósk var hafnað.

Af þessu má vera ljóst að rannsókn nefndarinnar í málinu er áfátt á mikilvægum sviðum. Auk þess var aldrei efnt til umræðu um einstök atriði málsins innan nefndarinnar með þeim hætti að metnar væru tillögur um breytingar frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar og þess ekki freistað á nokkurn hátt að ná saman um frumvarpið í heild eða einstaka hluta þess.“

Niðurstaðan er síðan tíunduð undir þessum liðum:

„a. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

b. eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar og Samkeppniseftirlits er óljóst og ókannað hvort þessar stofnanir búa yfir faglegri hæfni til að skera úr um viðkvæm álitamál sem varða fjárhagslegan aðskilnað milli starfsemi á sviði almannaútvarps og á sviði markaðsstöðvar,

c. ekki er gert ráð fyrir viðeigandi gagnsæi í starfsemi og rekstri Ríkisútvarpsins, t.d. með því að um það gildi upplýsingalög,

d. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

e. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, sbr. m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

f. engin ákvæði frumvarpsins tryggja að innlent efni aukist í dagskrá Ríkisútvarpsins,

g. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö“ og þetta er atriði sem við þurfum náttúrlega að fá svör við frá ráðherra um hvað vaki fyrir stjórnvöldum í þessum efnum, að sjálfsögðu. Hér er vísað í mörg álitamál sem eðlilegt er að ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn og talsmenn hans geri grein fyrir. Svo að ég haldi áfram, með leyfi forseta:

„h. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni“ og hér höfum við samþykktina frá í dag sem ég las upp áðan þar sem starfsmenn tala um óútfyllta ávísun til frambúðar þegar alvarlegar athugasemdir um að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið eigi að ráða yfir, og lýsa þeir furðu á því að ekki hafi verið tekið tillit til umsagna sem bárust til menntamálanefndar og þá horfa þeir væntanlega til þeirra umsagna sem stéttarfélögin og heildarsamtök starfsmanna hafa sett fram og eru ítarlega unnar álitsgerðar lögfræðinga. Síðan segir, með leyfi forseta:

„i. nefskattur sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda.“ — Þetta er sjónarmið sem kom á dramatískan hátt fram í skemmtilegri umsögn ríkisskattstjóra þar sem hann vísaði í reynslu Ríkharðs II. árið 1380 sem leiddi til bændauppreisnar árið eftir og nefskatts Margrétar Thatcher 1989 sem olli því að hún hrökklaðist frá völdum 1990. Kannski gerist eitthvað svipað hér. (Gripið fram í: Er það hægri stjórnar …?) Já, þetta er sennilega og vonandi hlutskipti þessarar stjórnar sem er með í hliðarherbergi núna á færibandi hvert frumvarpið á fætur öðru. Það er eitt sem þingið hlýtur að leiða hugann að, hvers konar handarbakavinnubrögð þetta eru af hálfu stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Við höfum verið sökuð um að tala lengi í málum. Við höfum verið sökuð um málþóf. Ég fullyrði að þeir sem hafa talað hér hafa talað af málefnalegri þekkingu og eru að reyna að knýja á um svör við spurningum sínum. Síðan er náttúrlega hitt, að þegar menn verða þess áskynja að stjórn þingsins ætlar að koma í bakið á stjórnarandstöðunni með því að reyna að flýta umræðunni, með því að reyna að ljúka umræðunni þótt margir séu á mælendaskrá, fara menn að spyrja sig ýmissa spurningu.

Skýringin á því hve lengi ég tala nú er sú að ég ætla ekki að láta stjórn þingsins komast upp með það að slíta þessari umræðu eins og vakir greinilega fyrir henni og ganga þannig erinda stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Mér finnst furðulegt að geta ekki upplýst mig um það hve lengi standi til að halda þessum fundi áfram þegar augljóst má vera að ég er að reyna að koma í veg fyrir að aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar verði hlunnfarnir, að þeir vakni upp við það á morgun að eiga ekki kost á að koma inn í umræðuna vegna þess að henni var haldið áfram svo lengi inn í nóttina. Þetta er ástæðan fyrir því að ég er að tala lengur, miklu lengur en ég hafði ætlað mér að gera.

Síðan er undir bókstafnum j í þessum niðurstöðukafla minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„j. fjárhagsleg staða hlutafélagsins sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í óvissu og ráðgert hlutafé svo lítið að félaginu virðist ætlað að hefja starfsemi sína með neikvæða eiginfjárstöðu,

k. ekki hefur verið gengið frá ráðstöfun þeirra verðmæta sem Ríkisútvarpið býr nú yfir í söfnum sínum og ekki fyrirhugaðir samningar við aðra rétthafa um þau,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa borið við að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins, sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi.“ — Þegar þetta allt er tekið saman leggur minni hluti menntamálanefndar til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

„Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir þetta rita hv. þm. Mörður Árnason, sem er framsögumaður, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Hæstv. forseti. Mig langar undir lok ræðu minnar að velta svolítið vöngum yfir lýðræðislegum þáttum sem tengjast þessu máli, lýðræðinu. Annars vegar er það svo að við í stjórnarandstöðunni erum stundum sökuð um að beita ólýðræðislegum vinnubrögðum með því að tala mikið og lengi í málum og torvelda þannig lýðræðislegum meiri hluta á Alþingi að ná sínu fram. Er þetta rétt? Það er rétt að gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir alvarleg slys í löggjöf. Þegar ég hugsa til baka óska ég þess að við hefðum stundum staðið vaktina betur og ég heyri það úr stjórnarmeirihlutanum einnig að sumir eru þeirrar skoðunar t.d. varðandi lög um auðlindir í jörðu sem samþykkt voru á árinu 1998. Þá hefðum við betur reynt að standa þessa vakt saman.

Þegar á heildina er litið, þegar litið er á yfirgnæfandi meiri hluta lagafrumvarpa sem fara í gegnum þingið renna þau á mjög markvissan og skilvirkan hátt í gegnum Alþingi. Um mjög mörg mál er tiltölulega mikil sátt. Í rauninni heyra þau til undantekninga, málin sem við tökumst harkalega á um. Ef ekki er um að ræða meiri háttar ágreining leiða menn hann til lykta í rökræðu á tiltölulega skömmum tíma. Þetta er hin almenna regla. Það heyrir til algerra undantekninga að málin komist í hnút. Ég ætla að nefna Kárahnjúka, Íslenska erfðagreiningu, einkavæðingu Landssímans og vatnalögin. Í öllum þessum tilvikum erum við að tala um grundvallaratriði, í sumum tilvikum um meiri grundvallaratriði en öðrum. En þegar við erum t.d. að festa í lög ákvæði um eignarrétt á vatni til langrar framtíðar þurfum við að vanda okkur. Þá megum við ekki horfa í það þótt það taki nokkra daga, við erum að tala um fáeina daga, til að reyna að koma vitinu fyrir þá sem hafa valdið á hendi. Á endanum er það stjórnarmeirihlutinn sem hefur valdið á sinni hendi. Það eina sem við erum að gera og eina vopnið sem við höfum er að reyna að hægja á hraðanum.

Ég er t.d. alveg sannfærður um að núna fyrst gera margir sér grein fyrir afleiðingum þess að taka Ríkisútvarpið og henda því út í markaðsumhverfið. Ég er alveg sannfærður um að margir eru núna fyrst að gera sér grein fyrir þessu. Það er aðeins vegna þess að það hefur aðeins hægt á hraðanum.

Væri það til góðs að taka frumvarp sem liggur hér í hliðarherbergi og fjallar um að gera Áfengisverslun ríkisins að hlutafélagi, og bara ganga frá því á morgun með afbrigðum? Það er meiri hluti fyrir þessu í þinginu, væri okkur sagt. Á ekki meiri hlutinn að ráða því? Nei. Það væri ekki æskilegt.

Ég vil segja að auki að þegar um er að ræða stofnun eins og Ríkisútvarpið, sem ég tel einnig heyra til þessara grundvallarmála, stofnun sem við eigum öll og höfum öll átt allar götur frá 1930 þegar það varð til og berum hygg ég öll tilfinningar til þeirrar stofnunar, þá höfum við mismunandi skoðanir á hvernig eigi að starfrækja hana og reka hana. Við höfum mismunandi skoðanir á því og ég efast ekki um að margir þeirra, og undanskil ég þá sem vilja leggja hana niður, sem telja hlutafélagaformið besta rekstrarformið, að það vaki ekkert annað en gott fyrir þeim líka. Gefum okkur að við séum öll að reyna að gera gagn með tillögum okkar, þá hefur ekkert okkar leyfi til að knýja vilja okkar fram með hraði. Það á að leita allra leiða og gefa langan tíma áður en starfsemi og stofnun af þessu tagi er rifin upp með rótum og breytt í grundvallaratriðum. Það hefur enginn rétt til að beita meirihlutavaldi með hraði til að knýja slíkar breytingar í gegn.

En er þetta ekki búið að vera lengi í umræðunni? kynni einhver að spyrja. Nei, þetta er ekki búið að vera lengi í umræðunni. Það er ekki lengra síðan en í haust að Framsóknarflokkurinn sagði okkur að ekki kæmi til greina að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Það er ekki lengra síðan en í haust. Það var þá sem aðrar útlistanir komu til sögunnar þar sem sagt var að ályktanir þinga Framsóknarflokksins opnuðu á þann möguleika að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi að því tilskildu að það yrði áfram í þjóðareign. Þá kom sú útlegging til sögunnar og ég vitnaði áðan í blaðagrein eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þar sem hann rekur þetta mál, þar sem hann rekur álitsgerðir og ályktanir þinga Framsóknarflokksins og hvernig þær ber að skoða sem eina heild. Mér fannst það sannfærandi hvernig hann setti málin fram. Ekki er lengra síðan en í haust að við stóðum frammi fyrir þeim veruleika að Framsóknarflokkurinn mundi ekki heimila hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Síðan breytist það. Gott og vel. Fyrir ekki svo ýkjalöngu var Sjálfstæðisflokkurinn að tala fyrir því að Ríkisútvarpið væri búið með sinn tíma og ætti að leggja það niður og selja það. Það eru frumvörp til umræðu sem ganga út á þetta, nákvæmlega þetta. Það sem nú er að gerast er að gerast á skeiði breytinganna, þar sem hugmyndir eru að kvikna, þar sem hugmyndir eru að fæðast og deyja. Við erum á tíma mikillar gerjunar hvað varðar Ríkisútvarpið. Á slíkum tíma á að gefa svigrúm. Það á að gefa sér góðan tíma til að íhuga málið. Það hefur enginn ráðherra rétt til að gera annað en nákvæmlega það að fara sér hægt.

Svo ég klári þetta aðeins með vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þá er það ótækt að við höfum áætlun um störf þingsins sem gerir ráð fyrir að við ljúkum þinghaldinu í byrjun maímánaðar, en hvað gerist nú? Að óvörum koma inn frumvörp sem gera ráð fyrir grundvallarbreytingum. Við heyrum nú síðustu daga um ágreininginn sem er um frumvörp hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um nýjar stofnanir og endurskoðun á starfseminni. Síðan er frumvarp sem rétt sisvona gerir Flugmálastjórn að hlutafélagi. Á að afgreiða það á nokkrum dögum? Eða stendur til að efna til vorþings eða sumarþings? Gott og vel. Alveg sjálfsagður hlutur. Við skulum bara hafa það í allt sumar en þarf þá ekki að gera það með einhverju skipulagi og einhverjum fyrirvara þannig að menn viti að hverju þeir ganga?

Þetta vildi ég, hæstv. forseti, segja um lýðræðið í þessari stofnun, að okkar hlutverk og okkar tæki sem við höfum er að reyna að hægja örlítið á óðagotinu, á þróuninni, óðagotinu þegar það gerist hvað verst. Ég fullyrði að á undanförnum árum hefur með þessu móti iðulega tekist að koma í veg fyrir stórslys.

Ég vísaði áðan í lífeyrisfrumvarpið sem kom fyrir þingið vorið 1996, sem tókst að henda út úr þinginu sem betur fer. Við þurfum ekki að fara lengra en í þetta frumvarp sem nánast allir álitsgjafar segja að hafi þó batnað frá því að það birtist í vor. Þó skal ég ekkert fullyrða um það fyrir mitt leyti. Ég er ekkert viss um að það hafi gert það. En engu að síður eru til mörg dæmi um lagafrumvörp sem hafa notið góðs af því og þar með þjóðin, að þau voru ekki keyrð í gegn.

Eitt frumvarp vil ég nefna í því efni. Það var frumvarp um vatnsveitur. Það var liður í þessari stóru endurskoðun á vatnalögunum. Endurskoðun á vatnalögunum hefur verið að birtast í ýmsum frumvörpum á undanförnum árum og önnur er í burðarliðnum, eru á færibandinu. Eitt af þeim frumvörpum var frumvarp um vatnsveitur. Það átti að klára það í einu vetfangi í þinginu. Það tókst að koma því út úr þinginu. Það var að nýju sent til álitsgjafa í þjóðfélaginu sem fóru í saumana á frumvarpinu. Sest var yfir málið sumarlangt og um haustið náðist breiðari sátt um útkomuna. Ég þekki það vel því ég fylgdist vel með því starfi. Ég held að það hafi verið mjög til góðs að það frumvarp náði ekki strax fram að ganga. Þannig er hægt að taka fjöldann allan annan af lagafrumvörpum sem hafa gott af því að fá að bíða. Við náðum því sem betur fer að fresta því að vatnalögin nýju yrðu gild fyrr en haustið 2007 þannig að stjórnarandstöðunni eða hugsanlega þeim sem nú eru við stjórnvölinn gefist kostur á að skipta um skoðun, skoða málin aðeins nánar og okkur í stjórnarandstöðunni gefst þá tækifæri til að afnema þessi lög ef við komumst til valda, ef þjóðin verður svo lánsöm að henni takist næst að skipta um stjórn í landinu, sem ég held að sé fyrir löngu orðinn tími til og eins er það með þetta frumvarp um Ríkisútvarpið.

Ég held að hyggilegt væri að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn endurskoði núna sinn gang og íhugi það hvort ekki væri ráðlegt að skjóta þessu máli á frest, láta það liggja yfir sumarið í samræmi við þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur sett fram um að vísa málinu frá.

Ég læt þá þessari ræðu minni lokið en ítreka mjög hörð mótmæli mín við vinnubrögðum stjórnar þingsins sem ég furða mig eiginlega á að skuli hafa gengið erinda stjórnarmeirihlutans á Alþingi núna með því að neita mér um upplýsingar um hvenær þessum þingfundi ljúki ef ég ljúki máli mínu, þar sem augljóst mátti vera að ég var að reyna að koma í veg fyrir að þingmenn sem eru á mælendaskrá en trúðu því að þingfundi mundi ljúka fyrr í kvöld eða í nótt, jafnvel einhvern tíma upp úr miðnættinu eins og hefur tíðkast á þinginu í vetur. Ég var að reyna að koma í veg fyrir að þeir yrðu hlunnfarnir þar sem þeir voru farnir úr húsi trúandi því að málinu yrði frestað, að þingfundi yrði frestað. Aðra skýringu hef ég ekki á því að geta ekki svarað því hvenær þessum fundi ljúki. En eitt get ég alveg fullvissað stjórn þingsins um að þetta er ekki til þess að auðvelda samskiptin í þinginu.