132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef aldrei kynnst svona vinnulagi, að ekki sé hægt að gefa upp hvernig þingið eigi að starfa. Það stendur ekkert á okkur sem erum í stjórnarandstöðu og viljum ræða þetta mál að ræða málin. Ef sá er vilji þingsins og um það samstaða að hér verði talað sólarhringum saman, ef það er ætlunin að svo sé gert, er bara eins gott að það sé tilkynnt fyrir fram og þá taka menn ákvörðun um hvort þeir gera það.

En að stjórna þinginu eins og við höfum ítrekað upplifað, og ekki síst hér í nótt, finnst mér algjör frágangssök. Ég velti því fyrir mér hvernig stjórn þingsins upplifi sjálfa sig. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort æðstu stjórnendur þingsins ættu ekki að fara til sálfræðings í meðferð því framkoma á þingi, á svona stórum vinnustað (Gripið fram í.) — ég velti því fyrir mér, svo geta aðrir velt öðru fyrir sér. Ef það er ætlunin að halda samfelldan þingfund sólarhringum saman, tvo sólarhringa eða lengur, er eins gott að forseti komi einfaldlega fram með þá ósk sína og þá tökum við því bara. Þinginu er hvort sem er stýrt með valdboði en ekki í samstarfi, í engu samstarfi heldur í fullkomnu valdboði. Verði svo þá er spurt hvort hátign þingsins þóknist að taka þingfund sólarhringum saman og þingmenn, sem neyðast til að lúta því valdboði, geta þá tekið þátt í því á þann hátt ef nauð rekur til og ekki er annars úrkosta.

Frú forseti. Ef það er ætlunin með þeirri valdbeitingu sem hér er höfð í frammi að keyra þingfund fram til morguns og áfram þá viljum við fá að heyra það. En þessi stjórn þingsins er alveg forkastanleg.