132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:19]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er augljóst að ekki er hægt um vik fyrir forseta að segja nákvæmlega til um það hvenær þingfundi ljúki þegar hv. þingmenn hafa ekki látið svo lítið að gefa það upp hversu langar ræður þeirra yrðu. Hér eru þingmenn sem bíða eftir að komast að og eðlilega reikna þeir með tiltölulega eðlilega löngum ræðum til að komast að í umræðunni. Það hefur einmitt gerst í nótt að hér hafa beðið þingmenn og ætla sér að fá að taka til máls og ljúka sínum ræðum um þetta mál. Það er mér óskiljanlegt, hæstv. forseti, yfir hverju menn eru að kvarta. Eðlilega er ekki hægt að ljúka fundi á meðan menn bíða eftir að komast á mælendaskrá og sumir þingmenn hafa ákveðið að halda það langar ræður að einhvern tíma hefði það verið kallað málþóf. En það er eðlilegt að þeir þingmenn sem vilja komast að fái að gera það. Ég treysti því, hæstv. forseti, að svo verði og menn fái að komast að samkvæmt sínum óskum á þessum þingfundi.