132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Upplýsingar í ársreikningum um lán til stjórnenda fyrirtækja.

663. mál
[15:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn til fjármálaráðherra er flutt í ljósi niðurstöðu héraðsdóms í Baugsmálinu og fjallar um þann þátt sem snýr að upplýsingum í ársreikningum um lán til stjórnenda fyrirtækja. Fram hafa komið athyglisverðar og vel rökstuddar ábendingar sérfræðinganna Stefáns Svavarssonar og Áslaugar Björgvinsdóttur, sem bæði eru dósentar við Háskólann í Reykjavík, sem nauðsynlegt er að Alþingi fjalli um. Stefán hefur m.a. kallað eftir því að samræma þurfi lög um hlutafélög, skattalög og lög um ársreikninga og telur að skrá eigi öll lán fyrirtækja í ársreikning. Áslaug hefur m.a. sagt að löggjafinn hafi ekki innleitt með réttum hætti tilskipun Evrópusambandsins en 43. gr. ársreikningslaga hafi verið ætlað að innleiða félagaréttartilskipun sambandsins um framsetningu ársreikninga.

Þar er sérstakt ákvæði um að tilgreina skuli lán og fyrirgreiðslur sem stjórnendur, hluthafar og móðurfélög fá frá hlutafélögunum en niðurstaða héraðsdóms hafi verið sú að túlka lagagreinina þröngt og með því litið svo á að hún eigi aðeins við formlegar lánveitingar. Að mínu mati hefur niðurstaða héraðsdóms skapað ákveðna réttaróvissu sem Alþingi ber að taka á því það er ekki hægt að líða að í ljósi einhverrar óvissu um hvað sé lán í skilningi ársreikningslaga geti stjórnendur fyrirtækja dulbúið sér tekjur í formi skattfrjálsra lána.

Í fróðlegum fyrirlestri sem Áslaug Björgvinsdóttir hélt nýlega kom fram að það bjóði heim misnotkun ef bara eigi að vera gegnsæi um formlegar lánveitingar en ekki hinar óformlegu fyrirgreiðslur. Einnig bendir Áslaug á að viðskiptalán þurfi að vera uppi á borðinu til að menn geti þá lagt sjálfstætt mat á hvort þau séu lögmæt. Hún bendir á að lán til tengdra aðila geti falið í sér mikla áhættu fyrir fjárhag félaga. Þetta eru þarfar og gagnmerkar ábendingar sem stjórnvöldum og Alþingi ber að taka mark á.

Spurningin er hvort ráðherra telji að það þurfi að samræma lög um hlutafélög, skattalög og lög um ársreikninga eins og sérfræðingar hafa bent á opinberlega og að skrá eigi öll lán fyrirtækja í ársreikninga hvort sem um er að ræða formleg eða óformleg lán. Enn fremur er ráðherra spurður að því hvort hann telji miðað við lagatúlkun héraðsdóms í Baugsmálinu að mistök hafi orðið við innleiðingu félagatilskipunar Evrópusambandsins um framsetningu ársreikninga. Loks er hæstv. ráðherra spurður að því hvort breyta þurfi ársreikningslögum til að skýrt liggi fyrir hvað eru lán í skilningi laganna.

Lagasetning um viðskiptalífið hefur legið í þá átt að auka gegnsæi og tryggja betur vernd minni hluthafa. Dómur héraðsdóms um Baugslánin gengur gegn þessu. Því er ráðherra spurður þeirra spurninga sem ég hef hér gert grein fyrir.