132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:10]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann gaf hér í sinni ræðu. Hann fór víða yfir eins og gengur í svona umræðu því að allt sem lýtur að utanríkismálum snertir okkur á margvíslegan hátt.

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi er eðlilegt að mest fari fyrir umræðum um öryggis- og varnarmál. Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanríkisráðherra hafa aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn verið hornsteinar í öryggisstefnu Íslands í áratugi. Hér er því um mikilvægt mál að ræða, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi.

Eins og við vitum hafa íslensk stjórnvöld lengi unnið að því að ná niðurstöðu við Bandaríkjamenn um varnarmálin út frá varnarsamningnum. Hins vegar er því ekki að neita að sá grunur hefur verið uppi um nokkurt skeið að á þeim bænum væru áform um breytingar og um miðjan síðasta mánuð tilkynntu Bandaríkjamenn um ákvörðun sína í þessu efni. Mér fannst aðferðafræði Bandaríkjamanna á þeim degi ekki til fyrirmyndar. Sumir hafa orðað það á þann veg að þetta jaðri við dónaskap í samskiptum þessara ríkja og ég lýsi miklum vonbrigðum með það hvernig Bandaríkjamenn komu fram við okkur af þessu tilefni og tel að menn eigi að bæta ráð sitt í samskiptum hvað þetta varðar.

Við hljótum að gera kröfu um að Bandaríkjamenn ljúki samningaviðræðum við okkur sem allra fyrst og það er löngu kominn tími til þess að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum málum. Sjálfur hefði ég helst viljað að Bandaríkjamenn héldu áfram að annast varnir okkar eins og þeir hafa gert um langa hríð. En veruleikinn er annar í dag þannig að breytingar eru fram undan í þeim efnum. Við blasir aukið samstarf okkar við Atlantshafsbandalagið um varnarmál. Við höfum um langt skeið verið aðilar að NATO og þar eru okkar samstarfsaðilar að þessu leyti og þar höfum við látið meira að okkur kveða á undanförnum árum en áður var. Við erum mun virkari þátttakendur í starfsemi NATO en áður var og við þær aðstæður sem nú eru uppi hlýtur að blasa við aukið samstarf við NATO.

Ég vil í því sambandi geta þess, eins og væntanlega mun koma fram hér í umræðunni í dag, að formaður íslensku þingmannanefndarinnar sem er fulltrúi Alþingis á NATO-þinginu hefur gert stjórnarnefnd NATO-þingsins grein fyrir stöðunni og við munum að sjálfsögðu gera það enn frekar. Fram undan er vorþing NATO-þingsins núna í maí og við munum á þeim fundi upplýsa um stöðuna. Mér skilst að það hafi komið ýmsum á óvart innan þeirra samtaka hvaða staða er komin upp.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að sú umræða sem hefur verið uppi af einhverra hálfu um að auka tengsl við Evrópusambandsríkin hvað varðar öryggis- og varnarmálin sé alls kostar óraunhæf. Ég tek undir þau rök sem komu fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra hvað það varðar. Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í það en ég tek undir þau rök.

Eitt af því sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra var umfjöllun um aukinn þátt okkar í rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Það blasir við að við munum þurfa að leggja töluvert miklu meira undir í þeim efnum og að ríkissjóður muni þurfa að koma mun meira að þeim rekstri en verið hefur. Það er einfaldlega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar vil ég taka undir það sem kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það er ótímabært nú að taka upp umræðu um framtíðarnýtingu svæðisins sem heyrir undir varnarsamninginn og þau mannvirki sem þar eru. Þar er um að ræða flókið úrlausnarefni sem leysa þarf í nánu samstarfi við Bandaríkjamenn og reyndar NATO einnig. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra að því leyti. Hins vegar varð ég nokkuð hugsi þegar ég sá í ræðu hæstv. ráðherra hugmyndir hans um að einkafyrirtæki reki Keflavíkurflugvöll, eða eins og þar kemur fram að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins um rekstur flugvallarins og í framhaldinu verði félagið einkavætt með aðkomu innlendra og erlendra hluthafa. Að vísu vísaði hæstv. ráðherra, máli sínu til stuðnings, í fyrirkomulag sem við vitum að er víða í heiminum varðandi rekstur á flugvöllum. Ég lít svo á að hér hafi hæstv. ráðherra verið að viðra hugmyndir, því eins og hann reyndar tók fram liggja ekki fyrir neinar ákvarðanir í þessu efni.

Ég vil rifja það upp líka að fyrrverandi utanríkisráðherra beitti sér fyrir því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var breytt í hlutafélag um rekstur flugstöðvarinnar. Við vitum að sá rekstur hefur gengið mjög vel og það félag er alfarið í eigu ríkisins og er dæmi um hvernig hægt er að breyta rekstrarformi ríkisstofnana í hlutafélög. Í framhaldinu hefur það gengið mjög vel og þetta fyrirtæki er mjög framsækið á sínu sviði. Ég tel að til greina komi að Flugstöð Leifs Eiríkssonar taki einnig yfir flugbrautirnar en í öllu falli undirstrika ég þá skoðun mína að ríkið eigi að eiga þessar flugbrautir í hlutafélagsformi ef svo ber undir en ég tel hins vegar mjög koma til greina að ríkið leigi einkaaðilum rekstur flugbrautanna. Það eru dæmi um slíkt fyrirkomulag í einhverjum löndum. Ég veit t.d. að í Ungverjalandi er slíkt fyrirkomulag fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins víkja að umræðu sem hefur verið uppi um samskipti hæstv. utanríkisráðherra eða stjórnvalda við utanríkismálanefnd Alþingis. Það er mikilvægt í svona málum að þar sé gott samband og samskipti á milli, enda er kveðið á um það í þingsköpum. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra vill hafa góð samskipti við utanríkismálanefnd og ég treysti því að sjálfsögðu að svo verði. Hann hefur lagt sig fram um að hafa þau samskipti í lagi og ég veit að þannig verður það. Ég vildi bara rétt nefna þetta hér vegna umræðu sem verið hefur, t.d. í þingsölum í gær að ég held, varðandi þetta mál.

Varðandi varnar- og öryggismálin hefur stjórnarandstaðan í því máli eins og mörgum öðrum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir ýmislegt og það er í þessu máli eins og öðrum auðvelt að sitja úti í horni og gagnrýna. Ég verð að segja í ljósi þeirrar umræðu sem hefur t.d. verið hér í dag að þá er hálfskondið á köflum að verða vitni að umræðum af hálfu Samfylkingarinnar um þessi mál því að þar er svona eins og í mörgum öðrum talað út og suður. En við skulum gefa þeim tækifæri til að skýra afstöðu sína í þessari umræðu og ég held að það sé hið besta mál.

Ég ítreka það að lokum varðandi varnarmálin að Bandaríkjamenn eiga næsta leik í stöðunni og við verðum að sjá hvaða hugmyndir koma þar fram og meta þær og svara fyrir að okkar leyti þegar þar að kemur.

Það er ýmislegt annað í þessu máli sem snertir okkur. Það blasir við að þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu hafa ýmis áhrif á okkur Íslendinga. Þar er mörgum ofarlega í huga mál sem varða þyrlubjörgunarsveit hersins á Keflavíkurflugvelli sem hefur reynst okkur mjög mikilvæg í gegnum tíðina og tekið þátt í björgun margra mannslífa. Ég sé ástæðu til að nota tækifærið og færa henni þakkir fyrir það allt og lýsa aðdáun á störfum sveitarinnar að því leyti. En það er augljóst að við þurfum að leggja mikið í það að byggja upp þyrluflota Landhelgisgæslunnar og rekstur hennar. Ég held hins vegar að við ættum líka að líta í kringum okkur og kanna hvort við getum náð samstarfi við nágrannaþjóðir okkar og bræðraþjóðir varðandi eftirlit og öryggismál á hafsvæðinu við Ísland. Þar hafa þær oft verið til staðar og það ber auðvitað að þakka. Alþjóðleg umræða um öryggis- og varnarmál snýst nú á tímum meira um varnir og aðgerðir gegn ógn hryðjuverka. Heimsmyndin hefur að því leyti breyst á síðustu árum eins og við þekkjum og því hefur verið haldið fram að engin þjóð geti talið sig undanskilda í þeim efnum eða talið sig fría gegn þeirri vá. Þannig þurfum við auðvitað að hugsa í okkar málum.

Virðulegi forseti. Ég vil hins vegar rétt í lokin ítreka fyrir mitt leyti kröfuna til Bandaríkjamanna um að þeir geri sem fyrst hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli og í samskiptum við okkur Íslendinga í öryggis- og varnarmálum. Ég treysti að sjálfsögðu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórninni vel til að fara með hagsmuni okkar í því mikilvæga máli.