132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:22]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er oft hægt að finna til hluttekningar með hæstv. fjármálaráðherra í erfiðri stöðu eins og nú er uppi og hægt að skilja að hann þori ekki að taka þátt í umræðunni hér og falli frá orðinu þegar ekki eru til peningar til að verða við allra óskum.

Hér er hins vegar augljóslega knýjandi úrlausnarefni á ferðinni. Hið neyðarlega er að í ljós kom á fundi fjárlaganefndar að um síðustu áramót voru til ráðstöfunar 720 millj. í sjóðum í daggjöld til hjúkrunarheimilanna. Peningarnir til að leysa vandann, vandann í daggjöldunum sem allir vissu að var til staðar, voru fyrir hendi. Heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra höfðu í úthlutunum Alþingis á fjármunum til daggjalda hjúkrunarheimila miklu meira en nægilegt fé til ráðstöfunar, og samkvæmt mínum heimildum eru þessar 700 millj. enn til ráðstöfunar.

Við hljótum þess vegna að skora á hæstv. ráðherra að koma sér nú saman um hvor beri ábyrgð á því að verja því fé sem Alþingi hefur þegar veitt þeim til að leysa þennan vanda. Peningarnir eru þarna. Það eru líka peningar frá Reykjavíkurborg, einar 360 millj. á biðreikningi sem bíða eftir því að hæstv. forsætisráðherra sjái til þess að ríkisstjórn Íslands uppfylli samkomulag sitt við Reykjavíkurborg.

Við hljótum að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra taki þátt í þessari umræðu því að ég heyrði ekki betur en að aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra hrópaði um það á götum í Reykjavík í gær að þetta væri algert ófremdarástand hjá hæstv. forsætisráðherra og það yrði auðvitað bara að ganga í málin og laga það hjá hæstv. forsætisráðherra. Það er knýjandi að við fáum að vita hér á hinu háa Alþingi hvort tvær stefnur eru orðnar uppi í forsætisráðuneytinu, ein hjá hæstv. forsætisráðherra og önnur hjá aðstoðarmanni hans. (Forseti hringir.)