132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[20:48]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki á þessum kvöldfundi að hafa langt mál um þetta frumvarp heldur fara aðeins yfir nokkur grundvallaratriði. Menn hafa rætt hér í dag um meiningar um að sameina þetta. Ég hef ekki heyrt annað en öllum þyki það heldur illa grundað allt saman og engan stuðningsmann fundið fyrir því. Ég get sem sagt tekið undir það.

Aðalatriði mitt var að ræða hér um Byggðastofnun og byggðastefnu. Í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum, hefur það verið svo lengi sem ég man eftir mér, og var ég þó mjög ungur þegar ég hóf störf þar, að menn hafa alltaf viljað hefja byggðastefnuna til vegs og virðingar. Svo geta menn deilt um hvernig til hafi tekist. En það hefur margt verið vel gert í þeim efnum, annað hefur gengið miður.

Sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tók ég þátt í störfum í haust um að athuga með framtíð Byggðastofnunar og starfssvið hennar. Þá þegar kom það fram að ég taldi þær áherslur sem voru hjá iðnaðarráðuneytinu mjög vanhugsaðar. Aðeins örfá orð um þetta.

Byggðastefna er stjórnmál. Byggðastefna er pólitík. Um byggðastefnu eiga því að fjalla þeir sem eru í pólitík, eru í stjórnmálum, alþingismenn og sveitarstjórnarmenn. Það er rangt að halda að byggðastefna sé einhver tæknileg útfærsla sem hæfi embættismönnum. Það getur aldrei verið. Embættismenn geta aldrei mótað og sett upp byggðastefnu, hversu góðir, grandvarir og velviljaðir sem þeir eru. Þetta er málið. Þetta er grundvallaratriði. Þess vegna hef ég verið á móti þessu frumvarpi.

Menn ræða nú um það, og ég heyri það héðan og þaðan, að það væri ástæða til að reyna að ná sáttum um þetta mál. Ég ætla ekki að segja neitt um það hér, virðulegi forseti. En ákaflega þykir mér það ósennilegt að ég geti sæst á þetta frumvarp. Það stendur þá varla steinn yfir steini af því sem nú stendur þar ef ég á að vera sáttur.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp fer nú að lokum þessarar umræðu til iðnaðarnefndar og fær sína þinglegu meðferð þar. Svo verðum við að sjá til hver örlög þess verða.