132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:30]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Byggðaáætlun er í smíðum og liggur hjá iðnaðarnefnd. Helsti gallinn á henni er sá að ekki er nógu markvisst gengið frá málum og ekki er nógu markvisst gengið frá því hver eigi að framfylgja þeim fyrirætlunum sem eru í byggðaáætlun. Byggðastofnun hefur verið sá aðili sem framfylgja hefur átt því sem tekin er ákvörðun um á hv. Alþingi hvað varðar byggðamál. Nú er þessi stofnun að gufa upp samkvæmt því fyrirkomulagi sem hér er lagt til og ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún að sú nýsköpunarstofnun sem hér er verið að ræða um komi í raun og veru í stað Byggðastofnunar hvað framkvæmd byggðaáætlunar varðar? Hvernig telur hæstv. ráðherra að það muni koma út og er ekki ástæða til að ætla að ákveðin tortryggni geti verið uppi vegna framkvæmdarinnar ef svo er?