132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:33]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Byggðahlutverkið, segir hv. þingmaður. Hvað er hann að tala um? Eins og þetta er í dag þá er hlutverkið fyrst og fremst lánastarfsemi og atvinnuþróunarstarfsemi, ásamt skýrslugjöfum og ýmsu öðru sem ég ætla ekki að fara frekar út í, m.a. vinna við gerð byggðaáætlunar o.s.frv.

Lánastarfsemin fellur niður eins og hér hefur komið fram. Í staðinn kemur Byggðasjóður og ábyrgðastarfsemi sem verður í þessari nýju stofnun. Atvinnuþróunarstarfsemin verður að sjálfsögðu rekin áfram á landsvísu. Það þarf ekki að hólfa atvinnuþróunarstarfsemi þannig niður að einhver sérstök atvinnuþróunarstarfsemi sé fyrir landsbyggðina og svo einhver sérstök atvinnuþróunarstarfsemi fyrir höfuðborgarsvæðið eða aðra landshluta. Þetta er atvinnuþróunarstarfsemi sem gildir fyrir landið allt og það er ekki landsbyggðinni í óhag.