132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur Samfylkingarinnar hér í dag er nú bæði vandræðalegur og broslegur. Hér fór fram mjög ítarleg umræða af minni hálfu um þessi mál síðastliðinn fimmtudag þar sem ég gerði grein fyrir stöðu þessa máls og reyndar mörgu öðru af vettvangi utanríkismála. Það voru ekki allir viðstaddir þá umræðu sem hér hafa tekið til máls og úttalað sig um það sem ég sagði þar eða úttalað sig um samanburðarfræði sín á því sem ég hef sagt og hins vegar forsætisráðherra. Ég get fullvissað þingmenn um að þar er ekki ágreiningur.

Samfylkingin er auðvitað í miklum vanda með þetta mál eins og margoft hefur komið fram hér í þingsalnum. Samfylkingin hefur ekki getað upplýst þjóðina um hver hennar stefna er í þessu máli, enda eru þar margir gamlir herstöðvaandstæðingar, fólk sem marséraði um bæinn, Ísland úr NATO og herinn burt, eins og við vitum. Þetta fólk hefur ekkert erindi í dag með sinn boðskap. Samfylkingin ætti að huga betur að stefnumótun í sinni svokölluðu þverpólitísku nefnd um utanríkis- og varnarmál. Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn mér vitanlega sem hefur stofnað upp á eigin spýtur þverpólitíska nefnd. En það veitir ekkert af miðað við þær skoðanir og þann skoðanafjölbreytileika sem uppi er í þessum efnum innan Samfylkingarinnar þar sem flóran úr Alþýðubandalaginu gamla, Kvennalistanum og Alþýðuflokknum kemur saman. Það er ekkert skrýtið að þetta fólk telji sig knúið til að stofna þverpólitíska nefnd.

En ég frábið mér að það sé komið hér og snúið út úr ummælum mínum um þessi mál. Þau liggja fyrir og ég mun auðvitað gera utanríkismálanefnd þingsins grein fyrir þessu máli þegar það er tímabært eins og ég hef áður sagt í þessum þingsal og mun ekki standa á því af minni hálfu.