132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög.

[12:22]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Í raun eru þetta tveir dómar sem þarf að lesa saman. Ég er hér með dómsmálið. Þetta er upp á 57 síður, hæstv. forseti, og ég hef ekki haft tíma til að lesa þetta yfir með kunnugum. En ég tek undir það að maður deilir ekki við dómarann, maður deilir ekki við Hæstarétt. En Hæstiréttur telur að farið hafi verið út yfir meðalhóf hvað varðar sérverslun með tóbak. Það má vel vera. En hvort þurfi að breyta lögum varðandi þessa sérverslun eða hvort við viljum áfram hafa sérverslun með tóbak, það er eitthvað sem við þurfum að skoða.

En það er ekki að ástæðulausu að hart er barist gegn tóbaksneyslu, sérstaklega barna og unglinga en einnig fullorðinna, og áhersla lögð á að fá fólk til að hætta að reykja því að skaðsemin er ótvíræð og þarf ekkert að vitna í fleiri rannsóknir hvað það varðar.

En sú leið sem við höfum farið, bæði auglýsingabannið og eins sú staðreynd að það er óheimilt að sýna tóbakið í almennum verslunum, er leið sem aðrar þjóðir eru nú að skoða, bæði Norðmenn og Kanadamenn. Það er trúlega ástæðan fyrir því að þetta ameríska fyrirtæki sækir svona hart inn á þennan litla íslenska markað sem skiptir í rauninni engu máli hvað varðar sölu, að fordæmið er fordæmisgefandi fyrir aðrar þjóðir sem líta hingað til okkar og sjá hvað þetta gefur góða raun og hve almenn ánægja er með þetta úti í þjóðfélaginu, og eru að hugsa sér að fara sömu leið. Þá fer þetta fordæmi að skipta máli á hinum stóru mörkuðum.