132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[14:20]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör við spurningu minni um þetta. Ég skil hann þannig að misræmi sé milli þessara tveggja frumvarpa, frumvarps hans sem gerir ráð fyrir gjaldtöku fyrir upplýsingar á þann hátt að um þjónustugjald sé að ræða og síðan þessa töluliðar í greininni í frumvarpi umhverfisráðherra um skattheimtu í gegnum Landmælingar á þeim upplýsingum sem þær búa yfir.

Ég skil forsætisráðherra þannig að þessi viðbót við upplýsingalögin marki stefnu fyrir öll önnur ráðuneyti og að baki þeim lögum sem minnst er á í frumvarpinu þurfi að búa einhver tiltekin ástæða, einhver ákveðin forsenda, fyrir því að gjald sé heimt sem skattur, þ.e. umfram þá þjónustu sem að baki liggur fyrir afnot af upplýsingum sem opinberar teljast.

Þetta munum við í umhverfisnefnd skoða rækilega þegar við förum yfir frumvarpið um Landmælingarnar. Ég hvet til þess að allsherjarnefndarmenn íhugi einnig þessi orð hæstv. forsætisráðherra hér í stólnum, þetta svar hans við fyrirspurn minni, og skoði vandlega þau lög sem nú heimila gjaldtöku umfram þjónustugjöld, að ég tali nú ekki um frumvörp sem berast inn í þingið með slíkum ákvæðum.