132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[14:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var að spyrja hvort Vísinda- og tækniráð hefði fjallað um þessa sameiningu, þ.e. Byggðastofnunar og hinna stofnananna. Það er greinilegt á þeim gögnum sem við höfum fengið í hendurnar í sambandi við sameiningu þessara stofnana að það hafði verið unnið verulega og vel að undirbúningi að því að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun. En síðar var greinilega tekin ákvörðun um að bæta Byggðastofnun inn í þetta. Þau gögn sem við höfum virðast eindregið benda til að Vísinda- og tækniráð hafi alls ekki fjallað um sameiningu Byggðastofnunar og þessara tveggja stofnana. Það er það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um. Ég get vel skilið að hann hafi þessa skoðun sem hann lýsti að þetta fari vel saman og ástæða sé til að sameina sambærilegar stofnanir.

Ég hef verið að leita mér upplýsinga og reyna að átta mig á stöðunni um það hvernig menn hafi unnið að þessi máli og hvort menn hafi skoðað það með sama hætti hvað varðar Byggðastofnun eins og hinar stofnanirnar hvaða hagkvæmni fylgdi sameiningunni og hvað væri skynsamlegt að gera.

Málið er sett fram í þessum gögnum með þeim hætti að það má skilja það þannig að Vísinda- og tækniráð hafi fjallað um sameiningu Byggðastofnunar og hinna tveggja stofnananna.

En ég held að full ástæða sé til þess, og ég bið hæstv. ráðherra að svara því bara skýrt, að hafa þá skoðun að það hafi alls ekki þar verið fjallað um að sameina Byggðastofnun og hinar stofnanirnar.