132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Fullgilding Hoyvíkur-samningsins.

683. mál
[16:40]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið með langri ræðu. Mig langar fyrst og fremst að lýsa sérstakri ánægju minni með þennan Hoyvíkur-samning. Ég tel að það skipti miklu máli að efla sem mest samvinnu við Færeyinga. Stundum er sagt að Færeyingar séu ekki útlendingar á Íslandi heldur gestir okkar. Á sama hátt skynjum við að við erum ekki útlendingar heldur gestir þegar við komum til Færeyja. Mér finnst því mjög mikilvægt að efla sem mest samvinnu þessara landa á menningarsviði, á viðskiptasviði og á hinu félagslega sviði.

Þess má til gamans geta að Flugfélag Íslands hefur nýlega sett saman pakkaferðir til Færeyja þar sem Íslendingar fara í helgardvöl til Færeyja og kynnast með þeim hætti, til þess að gera á stuttum tíma, menningu Færeyinga. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tengja þessar þjóðir sem allra best saman. Ég tel að þessi samningur hjálpi til við það.

Ég tek líka undir að við eigum að efla vestnorrænt samstarf og vinna með Grænlendingum eins og ætlunin er að vinna með Færeyingum. Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styrkja Færeyinga í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Auðvitað eigum við ekki að stýra þeirri umræðu. Við eigum fyrst og fremst að styðja þá því að það er vilji margra í Færeyjum að Færeyjar verði sjálfstæð þjóð.

Færeyingar eiga marga góða fulltrúa sem kynnt hafa menningu Færeyja á Íslandi. Í morgun var einmitt viðtal við ágæta konu sem heitir Marentza Poulsen. Hún hefur borið saman menningarheimana á Íslandi og Færeyjum, flutt inn færeyska menningu og á þann hátt kynnt okkur fyrir ýmsu skemmtilegu sem er að gerast í Færeyjum. Á sama hátt er mjög merkilegt starf Poul Mohr sem er konsúll Íslands í Færeyjum og leggur mikið af mörkum í Færeyjum til að kynna Ísland og Íslendinga þar.

Ég átti þess kost í fyrrasumar að vera fararstjóri hjá Karlakór Rangæinga sem heimsótti Mannskór Thorshavnar og reyndar fór einnig til Klakksvíkur þar sem eru „17 Sangarar“. Meðal annars er þar fyrrverandi innanríkisráðherra sem heitir Jógvan við Keldu. Hann er einmitt stjórnandi 17 Sangara og við getum, ef við stýrum þessu rétt, skipst á í svona menningarsamstarfi. Þetta skiptir þjóð okkar miklu máli og um leið skiptir þetta Færeyinga máli.

Ég kom fyrst og fremst til að lýsa mikilli ánægju minni yfir þessum samningi.