132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Framhaldsskólar.

711. mál
[21:13]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvernig málið bar að á sínum tíma þá er alveg ljóst að mótmælin gegn samræmdu prófunum byrjuðu í rauninni strax þegar reglugerðin leit dagsins ljós og við og forverar Samfylkingarinnar, þeir flokkar sem stóðu að Samfylkingunni og fólk innan þeirra raða, sáum í hvað stefndi með framkvæmdina. Menn sáu að þetta mundi leiða til aukinnar miðstýringar og til mikillar einsleitni í skólakerfinu og framhaldsskólakerfinu.

Ég verð auðvitað að segja að hæstv. ráðherra, og ekki bara hæstv. ráðherra heldur forverar hennar, sjálfstæðismenn í ráðherrastóli menntamála, töpuðu þessu máli vegna þess að mótmæli nemenda voru svo kröftug, mótmæli kennara og síðan okkar þingmanna í Samfylkingunni. Það var alveg ljóst að eitthvað hlaut að gefa eftir í þessu máli og hrósa ber hæstv. ráðherra fyrir að hafa séð það í hendi sér að þetta gengi ekki til lengdar og fyrir að hafa hlustað á þessi mótmæli sem voru kröftug en líka afar málefnaleg.