132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:04]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil aftur taka til máls um störf þingsins af því að Hæstiréttur felldi dóm þann 6. apríl sem varðar tóbaksvarnalögin. Umræðan á síðasta fundi þar sem þetta var rætt, 11. apríl, var mjög knöpp þar sem vegna tímaleysis komust einungis tveir ræðumenn að, hv. þingmenn, til að ræða málið. Það sem Hæstiréttur kemst að niðurstöðu um er eftirfarandi. Hann segir, með leyfi forseta:

„Verður að leggja til grundvallar niðurstöðu að með algjöru banni 6. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2002 við að sýna tóbak á sölustöðum hafi löggjafinn farið út fyrir þau mörk, sem 75. gr. og 73. gr. stjórnarskrár setja.“ — Þetta segir Hæstiréttur og segir sem sagt að þessi lagasetning stangist á við stjórnarskrána, þ.e. það ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggir atvinnufrelsi og tjáningarfrelsi.

Nú hafa menn iðulega komið hér upp um dóma Hæstaréttar þar sem lög eru sögð ekki standast stjórnarskrána, t.d. um kvóta- og öryrkjadóma. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi ræði það vegna þrískiptingar valdsins þegar Hæstiréttur dæmir lög frá Alþingi ógild. Ég hef líka bent á að í slíkum dómum, þegar Hæstiréttur fer í hlutverk stjórnlagadómstóls, ætti hann í rauninni að vera fullskipaður, það ættu alltaf allir sjö dómarar Hæstaréttar að kveða upp slíka dóma. Í þessu dæmi voru einungis fimm dómarar Hæstaréttar sem kváðu upp dóminn.

Ég tel mjög mikilvægt að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd, sem þetta mál heyrir undir, setjist niður og geri breytingar eða tillögu um breytingu á þessum umræddu lögum þannig að þau standist stjórnarskrá.