132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:32]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að það eru sex, sjö tímar frá því ég hóf mína ræðu en þá ber þess nú að geta að það voru nokkur hlé þar á milli af þingsins hálfu. Hv. þingmaður á sannarlega hrós skilið fyrir að hafa setið hér mestalla ræðuna og hlustað á. Ég dreg þá ályktun af ræðu hv. þingmanns að hann hafi samt ekki hlustað nógu vel.

Það sem ég sagði var að fólk sem vinnur hjá hinu opinbera býr við betri kjör að tvennu leyti. Aukið atvinnuöryggi vegna þess að það hefur ákveðinn réttindi sem leiða til að ekki er hægt að segja því upp samkvæmt duttlungum t.d. yfirmanns fjölmiðils, eins og gerst hefur og við ræddum hér áðan. Sömuleiðis hefur það töluvert traustari lífeyrisrétt. Á móti kemur að fólk sem vinnur á almennum markaði hefur samkvæmt öllum gögnum sem fyrir liggja hærri laun en réttindi þess að öðru leyti, eins og ég nefndi áðan, eru minni.

Það þýðir ekki það að menn horfi ekki til allra þessara þátta þegar þeir ákveða sér ævistarf og þýðir lítið fyrir hv. þingmenn að fara að reyna að kenna mér það. Það vill svo til að ég er giftur einum sem einmitt tók þessa hluti mjög til athugunar og skoðunar þegar hún valdi sér starfsferil. En sem að verðleikum og eljusemi ávann sér einmitt, eins og hv. þingmaður gat um að ætti að vera vilji þeirra sem starfa hjá ríkinu, möguleika til þess m.a. að stýra stofnunum af hálfu ríkisins.

Út af fyrir sig ræður hv. þingmaður hvort hann kýs eftir þriggja, fjögurra tíma ræðu þar sem ég hef reynt málefnalega að fara yfir þetta frumvarp, að hans svar við þeirri ræðu sé að reyna að mistúlka orð mín eða gera mig að einhverjum mannhatara. Ég er það ekki og ég læt mig það í réttu rúmi liggja þó hv. þingmaður reyni það. En var mín ræða þannig að hann sá engan málefnalegan veil á henni nema þetta?