132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Mannekla á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

[13:51]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Skortur á ákveðnum fagstéttum innan spítalans hvort sem átt er við hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða eða aðrar stéttir kemur niður á sjúklingum vegna lakari þjónustu, kemur niður á almenningi vegna lengri biðlista en ella og á starfsfólkinu vegna slítandi starfsumhverfis. Í þessari umræðu vil ég einblína á öryggi sjúklinga. Mig langar að fara yfir atriði sem ekki er víst að þjóð og þing átti sig á.

Árið 2005 voru 30.000 innlagnir á Landspítala – háskólasjúkrahús. Landlæknir hefur bent á að sé svipuð tíðni mistaka hér á landi og rannsóknir sýna erlendis þá mætti ætla að 3.000 óhöpp eða misfellur hafi átt sér stað á Landspítalanum í fyrra. Þar af mætti ætla að 600 þessara óhappa á Landspítalanum hafi verið alvarleg. Samkvæmt þessari tölfræði sem á sér stoð í fjölmörgum erlendum rannsóknum sem landlæknir hefur bent á kemur í ljós að ætla má að 180 dauðsföll hafi verið á Landspítala vegna óhappa árið 2005 og hefði mátt koma í veg fyrir 90 þeirra dauðsfalla.

Þetta eru ótrúlegar tölur en við komumst ekki hjá því að ræða þær. Sé ástandið hérlendis eins og það er erlendis deyr einstaklingur á Landspítalanum fjórða hvern dag vegna óhapps sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Á móti hefur verið bent á framúrskarandi starfsfólk í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skiptir án efa öllu máli fyrir öryggi sjúklinga. En við getum ekki fullyrt án rannsókna að þessi veruleiki sem er margstaðfestur erlendis eigi ekki við Ísland.

Auðvitað er ástæða fyrir mistökum í heilbrigðiskerfinu margs konar. En ein af þeim ástæðum getur verið mannekla og slítandi starfsumhverfi. Sé eitthvað í heilbrigðiskerfinu sem eykur hættuna á mistökum í heilbrigðiskerfinu eigum við að bregðast hratt og vel við því.