132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:44]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum í nokkra daga verið að ræða ný lög um Ríkisútvarp hf. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið þess mjög áskynja eftir síðustu ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, að Samfylkingin talar ekkert einu máli hvað þetta frumvarp varðar.

Sérstaklega á það annars vegar við um háeff-málið þar sem kemur fram hjá hv. þingmanni að hann vilji ekki að Ríkisútvarpið fari í grimma samkeppni, eins og hann kallar það, við fjölmiðla á þessum markaði. Það má svo sem til sanns vegar færa að það sé ekki ætlan ríkisins að vera í grimmri samkeppni við frjáls fyrirtæki á þessum markaði.

Það hefur komið fram hjá hv. þingmanni að Ríkisútvarpið eigi að draga sig af auglýsingamarkaði. Þá er spurningin, hv. þingmaður: Hvernig eigum við að fjármagna Ríkisútvarpið? Hann talar um að það vanti skilgreiningu á almenningshlutverkinu. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann skilgreinir það. Eigum við að sjá Ríkisútvarpið sem lítið snoturt skúffufyrirtæki úti í bæ sem hefur lítið verkefni? Mér finnst að metnaður þeirra sem tala um almenningshlutverk útvarpsins sé brostinn. Menn tala bara ekki sama máli hvað almenningshlutverk og almennt hlutverk Ríkisútvarpins varðar. Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hv. þingmanni hvað hann á við í þessu máli.