132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:11]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er leitt að heyra og fá staðfestingu á því að einhverjir nefndarmenn, þar á meðal hv. þingmaður, hafi verið í einhverju ójafnvægi þegar málið var afgreitt úr nefndinni en eftir stendur að við afgreiðslu þessa máls var fullkomlega farið að þingsköpum.

Ég hlýt að varpa spurningu fram til hv. þingmanns, hún er þessi: Hvernig í ósköpunum komst þetta mál á dagskrá ef það hefur ekki verið afgreitt úr nefndinni? Og hvernig stendur á því að nefndaráliti vegna málsins var dreift og því síðan breytt samkvæmt athugasemd frá fulltrúa eins stjórnarandstöðuflokksins í nefndinni? Gerist þetta allt saman einhvern veginn af sjálfu sér? Hvernig stendur þá á því að hv. þingmenn, sem hafa nú setið hér dögum og vikum saman undir umræðum um Ríkisútvarpið hf., gerðu ekki athugasemdir sem þessar aðeins fyrr? Hvernig stendur á því að menn létu allan þennan tíma líða ef þeir á annað borð telja sig vera að tala samkvæmt bestu vitund? Ég vildi gjarnan fá svör við þessum spurningum.