132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[18:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get þá glatt hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson með því að ég hyggst halda nokkuð yfirgripsmikla og djúpa ræðu um það mál þegar sú stund rennur upp. Hv. þingmaður hefur þá eitthvað til að hlakka til.

En ég er ekki viss um að vegna þess að ríkið og Ríkisútvarpið hafi aðgang að skattpeningum almennings þá muni það standa fljót og greið skil á skuld sinni við Sinfóníuhljómsveitina. Ég óttast það miklu fremur að þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, Birgir Ármannsson og Pétur H. Blöndal muni nota þessa miklu skuld, 626 millj. til að taka enn einn snúning á þumalskrúfunni sem þeir nota með því að fjársvelta Ríkisútvarpið, til að knýja það í sölu.

Leiðtogi þessara þrílembinga, frú forseti, ég tek þessi orð aftur því þau eru óvirðuleg. En leiðtogi þessara virðulegu þremenninga, Pétur H. Blöndal kom hér upp í dag og sagði að hann samþykkti frumvarpið vegna þess að það væri leið að einkavæðingu. Ég hef fært rök að því áður að ef þessir menn komast til þeirra valda og áhrifa sem hugur þeirra bersýnilega girnist þá er það einmitt fjárþröng Ríkisútvarpsins sem þessir herramenn munu nota til að pína það inn í farveg bútasölunnar sem ég tel að bíði Ríkisútvarpsins.

En að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu en vil aðeins segja hv. þingmanni að ég, eins og hann, tók þátt í umræðum í menntaskóla. Á þeim fundum voru yfirleitt haldnar fundargerðir og þar skrifuðu menn það sem fór fram á fundum en ekki eftir á eftir einhverju sem er óáþreifanlegt eins og upplifun. En þessi ágæti þingmaður virðist lifa í einhverjum draumheimi og hann dreymir hverjir eru með á meirihlutaálitinu og hvort álit séu yfir höfuð formlega afgreidd. Svo kemur að því að hann vaknar og þá felast timburmennirnir í að hann þarf að fara að leiðrétta sjálfan sig. Eða aðrir fyrir hann eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson þurfti að gera.