132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:05]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að gera hér grein fyrir málinu og vil beina til hans spurningu um þær takmarkanir sem hann teldi vera í þeim heimildum sem honum eru veittar með þessu frumvarpi.

Það er rétt að um þessa starfsemi hafa ekki gilt nein lög, því miður, og tímabært og þakkarvert að fram skuli vera komið frumvarp þar að lútandi. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þær takmarkanir sem eru á valdi hans samkvæmt lögum þessum til að senda menn til friðargæslu til annarra landa. Takmarkast það við aðgerðir alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna eða Atlantshafsbandalagsins, eða telur hann sig með frumvarpi þessu, verði það að lögum, hafa heimildir til að senda íslenska friðargæsluliða til hvaða alþjóðlega friðargæslustarfs sem vera skal og þá auðvitað að gefnu tilefni? Telur hann, að þessu frumvarpi samþykktu, utanríkisráðherra t.d. hafa heimildir til að senda íslenska friðargæsluliða í verkefni á vegum hóps þjóða sem tækju sig saman um aðgerðir utan samþykkta Sameinuðu þjóðanna og utan Atlantshafsbandalagsins, t.d. með líkum hætti og gerðist í Írak og kynni sannarlega að gerast aftur í tengslum við þá þróun sem nú er uppi í Íran?