132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Frumvörp um Ríkisútvarpið og fjölmiðla.

[13:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið á daginn hvílík endemisvinnubrögð hafa verið viðhöfð af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra sérstaklega við vinnslu á frumvarpi um fjölmiðla annars vegar og um Ríkisútvarpið hins vegar. Allar götur frá því að þessi vinna hófst höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þá ekki síst fulltrúi okkar í fjölmiðlanefnd menntamálaráðuneytisins lagt ofuráherslu á að þessi mál yrðu unnin í samhengi. Það hefur ekki verið gert og nú eru ýmsar mótsagnir að koma fram. Þær blasa við og ekki er séð fyrir endann á því hvernig þær verða til lykta leiddar.

Fjölmiðlafrumvarpið varð til í því samhengi að Ríkisútvarpið var, og er enn, stofnun á vegum ríkisins. Nú stefnir hins vegar í að Ríkisútvarpið verði hlutafélag, fyrirtæki á markaði og ekki nóg með það, fyrirtæki sem stundar viðskipti og kemur til með að gera það í auknum mæli á komandi árum. Það er ljóst að önnur fyrirtæki á markaði í sams konar rekstri munu reisa kröfur um að jafnræðis verði gætt og þá einnig með skírskotun til þess mikla menningararfs og til þeirrar miklu dagskrár sem Ríkisútvarpið hefur í sínum fórum. Það er þegar farið að reisa kröfur af hálfu annarra fyrirtækja á markaði um aðgang að þessu efni.

Eitt vil ég gagnrýna að lokum, hæstv. forseti. Það er sú leynd sem hefur hvílt yfir fjölmiðlafrumvarpinu. Lagafrumvörp eiga að þola ljósið og þola umræður í þjóðfélaginu.