132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði.

590. mál
[13:22]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Sú samkeppnisstaða sem menn eiga fyrst og fremst að hafa áhyggjur af hvað varðar íbúðalán er auðvitað samkeppnisstaða íslenskra neytenda borið saman við neytendur í öðrum löndum. Það liggur því miður fyrir að íslenskir neytendur búa við þær aðstæður að þeir þurfa að borga miklu hærri vexti en neytendur í öðrum löndum. Það sýna tvær skýrslur sem nýlega hafa verið gefnar út önnur á vegum Neytendasamtakanna og hin á vegum Norræna ráðherraráðsins. Ég hygg að það væri verðugt verkefni fyrir hv. þingmenn að beita sér fyrir því að vaxtastigið hér á landi lækki og nálgist það sem er erlendis. Það ætti að vera hlutverk íslenskra stjórnvalda að reyna að gera eins vel í þeim efnum og t.d. stjórnvöld á Norðurlöndum gera.