132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum.

606. mál
[13:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Töluverð umræða hefur orðið um erfðabreytt matvæli. Um slík matvæli eru mjög skiptar skoðanir og hefur andstaða við þau verið einna mest í Evrópu. En framleiðsla á þeim fer að mestu leyti fram í Bandaríkjunum. Þessi umræða er ákaflega mikilvæg, m.a. fyrir okkur Íslendinga sem viljum markaðssetja Ísland sem hreint land með hreinar afurðir. Heyrst hafa raddir um að með erfðabreytingu á matvælum sé tekin veruleg áhætta varðandi mengun umhverfisins og fjölbreytileika þess. Sömuleiðis, sem er ekki síður um vert, kom t.d. fram í viðtali í Morgunblaðinu við Michael Meacher, þingmann og fyrrverandi umhverfisráðherra í Bretlandi sem var hér á dögunum, að mjög háværar raddir væru uppi um að erfðabreytt matvæli hefðu veruleg áhrif á heilsufar manna og aukna hættu á ofnæmi í för með sér vegna þess að vitað er að mannslíkaminn bregst við óþekktum áreitum með ofnæmisviðbrögðum. Þetta hefur ekki verið rannsakað nógu vel. Hann heldur því fram að varðandi þetta hafi einungis verið gerðar athuganir á dýrum og að miðað við flestar þær niðurstöður sé ástæða til að hafa áhyggjur.

Virðulegi forseti. Mér finnst mest um vert í þessu að neytandinn hafi val. Rannsóknir eru að mörgu leyti ófullnægjandi að þessu leyti. Fólk leitar sér upplýsinga að miklu leyti sjálft og tekur afstöðu sjálft. Fjölmargir vilja hvorki sjálfir né að börn þeirra neyti erfðabreyttra matvæla. Því tel ég afar mikilvægt að matvæli á Íslandi verði merkt. Í því sambandi vil ég nefna reglugerðir Evrópusambandsins, sem við eigum að taka upp. Ég spyr um þær í fyrirspurn minni. Krafist er merkinga á erfðabreyttum matvælum í öllum aðildarlöndum sambandsins. Þar eru ströngustu reglugerðir hvað þetta varðar í heimi, að því er talið er. Ég tel afar mikilvægt að við göngum þann veg sem allra fyrst að taka þessa reglugerð upp. Það er réttur neytenda að vita hvort í matvælum sem þeir neyta á degi hverjum séu erfðabreyttir þættir eður ei.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um matvæli sem eru á borðum landsmanna á hverjum einasta degi. Við erum að tala um morgunkorn, um kex og annað sem unnið er úr erfðabreyttum maís frá Bandaríkjunum. Ég tel mjög mikilvægt að neytendur (Forseti hringir.) fái að velja og því verði að taka þessa reglugerð upp sem fyrst.