132. löggjafarþing — 110. fundur,  26. apr. 2006.

Staða garðplöntuframleiðenda.

[15:49]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að óska hæstv. landbúnaðarráðherra til hamingju með sinn eina bandamann í málinu. Hv. fyrrum formann SUS, yst á hægri væng sjálfstæðismanna. Þar fann hann þó bandamann í þessu máli.

En af hverju, virðulegi forseti, er samningsgerðinni á bak við niðurfellingu tollverndar á garðyrkjuplöntum snúið upp í einhvers konar pólitísk myrkraverk með ákaflega vafasaman tilgang, ef nokkurn, annan en að virka sem einhvers konar áhlaup á heila atvinnugrein? Harkalegt áhlaup sem markar, ef gengur eftir, hrun greinarinnar. Vinnubrögðin hjá hæstv. ráðherra í þessu máli eru vítaverð. Því hljótum við að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað býr að baki? Af hverju að fyrirkoma heilli atvinnugrein án samráðs við greinina sjálfa? Án samráðs við lýðræðislegan vettvang fólksins í landinu, Alþingi og landbúnaðarnefnd Alþingis.

Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum. Hvað með tjónið? Hvað með bætur fyrir aðförina að greininni? Hvað með afdrif Garðyrkjuskólans á Reykjum þar sem þetta virðist ætla að leiða til að aðsókn í heila deild verður að engu. Þetta markar verulega erfiðleika fyrir atvinnugreinina. Við hljótum að segja að þetta beri keim af valdníðslu hæstv. ráðherra, hvað sem honum gekk til. Hér hefur hann vettvang og tækifæri til að útskýra af hverju svo er fram gengið og af hverju er verið að stilla saman tveimur stéttum innan landbúnaðarins, hvorri á móti annarri með þessum hætti.

Gott og vel ef það væri niðurstaðan af heilbrigðu, opnu og lýðræðislegu ferli hæstv. ráðherra með samráði við greinina. Með samráði við landbúnaðarnefnd Alþingis sem gætir hér hagsmuna íslensks landbúnaðar. En svo er ekki.

Þess vegna eru þetta vítaverð vinnubrögð. Þess vegna köllum við eftir skýrum svörum hæstv. ráðherra. Af hverju þetta áhlaup á greinina án þess að það komi nokkurn tíma til lýðræðislegrar umræðu um málið?