132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Útskriftarvandi LSH.

[13:50]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sá tími kjörtímabilsins sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fær áhuga á málefnum aldraðra og er það vel að það gerist a.m.k. einu sinni á fjögurra ára fresti. Hér var vitnað í það að akkúrat á þessum tíma, þ.e. fyrir fjórum árum vaknaði hv. þingmaður sem var þá borgarstjóri upp við þann vonda draum að hafa ekki sýnt málefnum aldraðra nokkurn áhuga allt kjörtímabilið og (Gripið fram í.) virðulegur forseti — núna fer um einhverja í þingsalnum. — Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort ég ætti að biðjast afsökunar á að tala um pólitíska fortíð forustumanna stjórnarandstöðunnar. Það er kannski rétt að ég geri það formlega og hér með biðst ég afsökunar á því að ræða um fyrri störf forustumanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Auðvitað er það hreinn og beinn dónaskapur þegar þessir aðilar koma hér og gagnrýna, að vitna í það sem þeir hafa gert. Auðvitað er þetta ekkert annað en dónaskapur. Hvað er verið að gera með að vitna í borgarstjóratíð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og vitna í að ekkert gerðist í hennar tíð, m.a. hjúkrunarheimilismálum og ýmsum fleiri sem snýr að öldruðum, ekkert? (Gripið fram í.) Fyrr en rétt fyrir við síðustu borgarstjórnarkosningar þá vaknaði viðkomandi borgarstjóri, nú hv. þingmaður, upp við vondan draum og reyndi að bjarga sér fyrir horn.

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ekki sannfærandi. Ég vek athygli á því að ég gleðst yfir því og þakka að hv. þingmaður fái þó einu sinni á fjögurra ára fresti áhuga á málefnum aldraðra. Guð láti gott á vita og við skulum vonast til þess að í þessum mikilvæga málaflokk þar sem afskaplega mikilvægt er að við gerum enn betur en við gerum nú, og að það séu allir vakandi í því. En nú eiga hv. þingmenn Samfylkingarinnar aftur í erfiðleikum (Gripið fram í.) og þeir verða bara að eiga það við sig. En, virðulegi forseti. Ég fagna áhuga þingmannsins á málefnum aldraðra sem vaknar á fjögurra ára fresti.