132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég nefndi áðan að jafnaði greiðslubyrði heimilanna er einmitt hluti af því sem Hreiðar Már Sigurðsson nefndi í ræðu sinni að væri þess valdandi að vaxtatæki Seðlabankans virkaði eins og vaxtatæki hjá öðrum seðlabönkum. Ef maður skoðar þetta eins og það er í Bretlandi þar sem ekki er um verðtryggingu að ræða og greiðsludreifingin er ekki eins og hún er í lánafyrirkomulaginu hérna þá virka vaxtahækkanir Seðlabankans alveg beint í næstu afborgun. Það hlýtur að vera gríðarlega sterkt tæki til þess að hafa áhrif á hagsveifluna. En það hefur þá þær afleiðingar að fólk þarf strax að greiða meira en því er ekki dreift yfir allt tímabilið sem á eftir að greiða afborganir á og þá verða menn bara að meta hvort sé betra.