132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:59]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að efa það að meðalfjölskyldan í landinu eða þeir sem eru með lægri tekjur en eiga lítinn fjölskyldubíl, sem mundi fá 40 þús. kr. á hvern bíl út úr þeirri leið sem við erum að nefna, fái 40 þús. kr. út úr áformuðum skattalækkunum hæstv. ráðherra. Það hefur verið sýnt fram á að skattalækkanirnar skila sér langmest til þeirra sem eru hæst launaðir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann horfi ekki til þess að 0,4% lækkun á vísitölu hafi áhrif að því er varðar verðbólguna. Hvaða aðra kosti er hæstv. ráðherra að tala um? Við höfum frá því í haust verið að tala fyrir þessari leið. Við höfum ekki heyrt að hæstv. ráðherra sé með neinar aðrar aðgerðir í undirbúningi eða einhverja aðra kosti á borðinu sem skila sambærilegu til heimilanna og til þess að hafa áhrif til lækkunar á vísitölunni. Gott og vel, ef hæstv. ráðherra sýnir okkur einhverjar aðgerðir sem skila heimilunum því sama og hefur (Forseti hringir.) þessi áhrif til lækkunar á verðbólguna þá efa ég ekki að við séum alveg tilbúin að skoða það og leggja það á vogina (Forseti hringir.) hvort er betra að fara.