132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Dagskrá fundarins.

[19:19]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur stundum verið rætt um fundarstjórn forseta af minna tilefni en núna, því að mál virðast vera hér öll í einhvers konar öngþveiti. Það eru ekki gerðar neinar tilraunir til þess að koma þeim í þannig horf að það verði einhver sátt um framgang hér á þinginu. Og það er sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra leggi fram mál eins og það sem er næst á dagskránni, sem allir vita að verður gríðarlegt deilumál hér í Alþingi, fyrir nú utan það að það eru ákaflega veik rök fyrir málinu yfirleitt, nánast fáránlegt að leggja í breytingar á því og að koma með það inn til umræðu á þessum tíma sem við erum nú á. Ég velti því fyrir mér hvort þetta útspil hafi eitthvað með einhvers konar átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu að gera eða eitthvað svoleiðis, ég kann bara ekki skil á þessu. (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að ... (Gripið fram í.) Ég held að hv. þingmenn ættu þá að tala hreinskilnislega út um það hvað þeir eru eiginlega að fara.

Er það skynsamlegt að setja hér fram mál sem menn vita fyrir fram að engin leið er að koma hér í gegnum sali Alþingis nema með gríðarlega löngum umræðum, mál sem hefur enga þýðingu fyrir ríkið, ekki nokkra, mál sem virðist hafa þá einu þýðingu að draga hér inn að vekja upp deilur um einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar? Þetta mál mun kalla á endalausar umræður. Ég segi alveg eins og er að ég skil ekki hæstv. forseta að hann skuli yfirleitt bjóða upp á það að setja þinghaldið í uppnám út af máli eins og þessu sem hefur enga þýðingu fyrir ríkisvaldið með nokkrum hætti. Ríkisvaldið hefur allar tekjur af þessari starfsemi sem hægt er að hafa, mun hafa sömu tekjur áfram ef þessar breytingar verða gerðar. Eina breytingin sem þarna gæti orðið til væri sú að það væri hægt að ráðast að starfsfólkinu og ýta því út úr launakerfi ríkisins. Er það þá markmiðið með þessu, að koma með þetta frumvarp núna og koma með það á síðustu dögum þingsins, að ráðast að kjörum þess starfsfólks sem vinnur við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins? Ja, það er þá ágætt að menn segi sinn hug í þessu því að það er það eina sem mér getur a.m.k. dottið í hug að skipti einhverju máli fyrir ríkið vegna framlagningar þessa máls. En almennt séð tel ég að forsetar þingsins ættu að setjast niður og (Forseti hringir.) velta því fyrir sér hvort það væri ekki hægt að ná meira samkomulagi (Forseti hringir.) en liggur fyrir nú um störf þingsins