132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Framhald þingfundar.

[20:03]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það kemur manni dálítið spánskt fyrir sjónir hvernig staðið er að þessum fundi hér í dag. Af 21 máli er búið að ræða tvö og það hefur verið vitað vikum saman að um 3. mál á dagskrá, Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, verði mikill ágreiningur. Hér eru hins vegar 19 mál, um 15 til 19 mál sem eru ekki stór ágreiningsmál, mál sem hafa verið unnin í nefndum, eru komin hingað inn til afgreiðslu en munu, að mér sýnist, ekki verða afgreidd, a.m.k. ekki á þessum sólarhring, ef þetta mál nr. 3 á dagskrá, Stofnun hlutafélags um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, verður tekið hér fyrir. Það munu býsna margir vilja ræða það mál og það hefur verið vitað frá því að það kom hér fyrst til umræðu og á dagskrá.

Ég tek því undir þá ósk sem kom fram rétt fyrir hlé frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, formanni þingflokks Vinstri grænna, að mér fyndist eðlilegt að þingflokksformenn hittust og ræddu við forseta um framvinduna í kvöld og þá eins og hv. þingmaður sagði, þó að það væri ekki nema um næstu þrjá klukkutíma.