132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Framhald þingfundar.

[20:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég undra mig mjög á þessum vinnubrögðum. Hér er allt upp í loft milli stjórnar og stjórnarandstöðu og það er mjög erfitt að sjá að það né nokkur vilji af hálfu stjórnarliðsins að ná einhvers konar samkomulagi um þinglok.

Nú vil ég, til þess að taka af allan vafa um mitt viðhorf í þeim efnum, herra forseti, segja það alveg skýrt að ég er reiðubúinn til þess að vera hér fram eftir maí og þess vegna langt inn í júní til þess að ljúka þeim málum sem mikilvæg eru. Ég held að það sé ákaflega gott fyrir stjórnarandstöðuna með tilliti til sveitarstjórnarkosninga að við notum þennan pall sem ræðustóll Alþingis er til þess að lýsa upp verk og gerðir og afstöðu ríkisstjórnarinnar ef það er það sem ríkisstjórnin vill. En ég hef nú skilið það svo að hún vilji frekar koma þinginu í burtu hið allra fyrsta og þess vegna slútta þinginu núna í vikunni og kalla það saman aftur að loknum kosningum af því að hún er hrædd við umræður hér.

Í öllu falli, ef það er eitthvað að marka þau orð sem látin hafa verið falla um vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ná einhvers konar samstöðu um verklag, finnst mér sem hér hafi verið tekinn ákaflega rangur póll í hæðina. Ef það væri hægt að hugsa sér eitthvert mál sem mætti veifa framan í a.m.k. hluta stjórnarandstöðunnar eins og rauðri dulu framan í naut þá er það þetta mál sem hér er verið að taka á dagskrá sem ríkisstjórnin leggur svona mikið kapp á að ná umræðu um. Það mætti hugsanlega frá þinglegu sjónarmiði skilja það ef um væri að ræða mál sem hefði hlotið hér einhverja umfjöllun og væri ekki á frumstigi vinnslunnar, en hér erum við að ráðast í 1. umr. um mál sem gríðarlegur ágreiningur ríkir um. Ber það, herra forseti, vott um samkomulagsvilja af hálfu ríkisstjórnarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Einmitt þessi gjörð, að vilja taka þetta mál á dagskrá núna í algjörri andstöðu við stjórnarandstöðuna sýnir að ríkisstjórnin hefur engan áhuga á því að ná nokkurri sátt um mál hér á þinginu. Hún vill koma þessu máli frá 1. umr. inn í farveg nefndar til þess að geta síðan sent þingið heim fyrir helgi og kallað það svo aftur til starfa í júní, af því að ríkisstjórnin er hrædd, Framsóknarflokkurinn er sérstaklega hræddur við sveitarstjórnarkosningarnar sem fram undan eru, enda eðlilegt vegna þess að kannanir benda til þess að hann muni gjalda afhroð. Hann leggur ekki frekar en Sjálfstæðisflokkurinn í það að hafa þingið starfandi. Þess vegna á að beita valdi og ofbeldi eins og er að verða aðall þessarar ríkisstjórnar og það á að keyra hérna nokkur gælumál ríkisstjórnarinnar í gegnum 1. umr. núna í upphafi maí og síðan á að reka þingið heim (Forseti hringir.) til þess að koma í veg fyrir að það verði umræður hér í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, (Forseti hringir.) herra forseti, og svo á að kalla það aftur.