132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[21:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldskráin sem greitt er eftir er viðmiðunargjaldskrá, þ.e. sú gjaldskrá sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir eftir ef fólk er með tilvísun. Það er viðmiðunargjaldskrá sem við setjum. Við setjum hana vegna þess að þegar hjartalæknarnir eru samningslausir eru þeir ekki bundnir af þeirri gjaldskrá. Þeir gætu gefið út aðra gjaldskrá, en þeir eru reyndar að nota gömlu gjaldskrána, ef við getum notað það hugtak. Hún hefur ekki breyst enn mér vitanlega, þannig að það er sama gjaldskrá hjá þeim og viðmiðunargjaldskráin, en þeir gætu breytt henni.

Hvað hefur breyst í umhverfinu, spyr hv. þingmaður, sem olli því að þeir telja sig þurfa að fá hækkun á kvótanum svokallaða, fá hækkun á einingunum sem þeir eru að þjónusta í gegnum? Eitt dæmi sem þeir nefndu var að (Forseti hringir.) þingmenn hefðu lent í hjartaáföllum sem hefðu auglýst upp þjónustuna. (Forseti hringir.) Það var eitt af þeim dæmum sem voru nefnd en fleiri dæmi voru einnig nefnd.