132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[23:24]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðasta dæmið var kannski ekki heppilegt þar sem hrópað er á enn frekari þjónustu geðlækna. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé tilbúin til að styðja það að skoða almennt tilvísunarkerfi sem byggir þá á samningum við sérfræðilækna og sem er þá allt annað en það sem kemur fram í núgildandi reglugerð og hvað hún telji að verði náð langt í afgreiðslu fjárlaga á þessu ári og því næsta, kosningaári, að byggja upp og styrkja heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest.

Ég tel, hæstv. forseti, að ein af mörgum leiðum til að draga úr kostnaði ríkissjóðs og sjúklinga en veita eftir sem áður góða þjónustu, sé að beina fólki inn á heilsugæslustigið til að byrja með og fá þar þjónustu og greiningu. En hvernig á að koma því á að það kerfi verði notað sem frumstig heilbrigðisþjónustunnar fyrir alla sama hvort þeir búa í dreifbýli eða á höfuðborgarsvæðinu, hvernig á að koma því á? Er það með tilvísunarkerfi? Er það með auknu fjármagni til heilsugæslunnar og uppbyggingu? Og er hv. þm. Jónína Bjartmarz tilbúin til að lýsa því hvernig hún sjái þá fyrir sér þessar áherslur í allra nánustu framtíð varðandi afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á hinu hv. Alþingi?