132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Beiðni um utandagskrárumræðu.

[13:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil fá að nota tækifærið og fagna því að þingið starfi í júnímánuði nk. Það er löngu tímabært að Alþingi starfi í júnímánuði og við í stjórnarandstöðunni getum sem betur fer sagt að við höfum ekki nema góða reynslu af því að ræða um málefni fjölmiðla á sumarþingum.

Það er hins vegar fullkomlega skiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn vilji ekki hafa eldhúsdagsumræðu og ekki ræða efnahagsmál og það er auðvitað sama ástæðan og er fyrir því að við erum nú send heim í þinghlé. Ástæðan fyrir því er sú að hæstv. ríkisstjórn er að skríða heim í felur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara 27. maí nk. og ætlar að reyna að láta lítið fyrir sér fara í þeirri von að kjósendur Framsóknarflokksins, ekki síst kjósendur í Reykjavík, verði búnir að gleyma hæstv. ríkisstjórn á kjördag 27. maí. Það er auðvitað þess vegna sem verið er að senda þingið heim, til að hægt sé að fela ríkisstjórnina fram að 27. maí í þeirri von að óvinsældir hennar bitni ekki á Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í þeim kosningum sem þá koma með efnahagsmálin í því uppnámi sem þau eru, með varnar- og öryggismál þjóðarinnar í því uppnámi sem þau eru, með þær deilur sem verið hafa á milli stjórnarflokkanna undanfarið og með þau frumvörp sem eru að verða landsfræg að endemum hve illa þau eru úr garði gerð, eins og það sem kom frá hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, um þrísköpunarmiðstöðina því annað er þann þurs ekki hægt að kalla, eða frá hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, um ríkisútvarp allra landsmanna.