132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[15:48]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið að mörgu leyti gagnleg og kemur í ljós að í grófum dráttum eru þeir sem tekið hafa til máls sammála því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Jafnframt liggur fyrir sá skilningur, hygg ég, hjá öllum þingmönnum að þetta frumvarp sé lagt fram til að tryggja starfsöryggi þeirra manna sem unnið hafa hjá bandaríska hernum. Það er kjarni málsins. Það er af þeim sökum, hygg ég, sem við munum gera tilraun til að afgreiða þetta frumvarp nú á þessum degi. Mér þykir rétt að þetta komi fram nú við lok þessarar umræðu.

Hér hefur verið drepið á ýmis önnur mál sem varða þetta mál ekki neitt, eins og framtíð Reykjavíkurflugvallar, spurning um hvort íbúðabyggð rísi á Lönguskerjum og þar fram eftir götunum. Að síðustu hafa þessar umræður snúist nokkuð um starfslokasamninga sem ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að ekki sé tímabært að ræða í þessu samhengi.

Ég vil á hinn bóginn minna á að það eru menn á ýmsum öðrum stöðum sem hafa misst atvinnu sína án þess að hlaupið hafi verið upp til handa og fóta og beðið um starfslokasamninga. Ég get minnst á Kísilgúrverksmiðjuna í Mývatnssveit. Ríkið var stór þátttakandi að þeim rekstri. Sú verksmiðja starfaði í miklu óöryggi svo áratugum skipti. Það voru ákveðin öfl sem vildu leggja þá verksmiðju niður en ég minnist þess ekki, og mér þykir rétt að rifja það upp hér, að neinn þeirra sem lagði það til hafi sérstaklega beitt sér fyrir því að starfslokasamningar yrðu gerðir við það verkafólk sem þar missti atvinnu sína.