132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fara yfir það að þeir ágætu hv. þingmenn sem hafa lagt fram frumvarp um að selja Ríkisútvarpið hafa túlkað það frumvarp sem hér er til umræðu á þann veg að þetta sé skref í rétta átt. Það fer því auðvitað ekkert á milli mála að þeir hv. þingmenn sem berjast fyrir því að ná meiri hluta með sér í þeim efnum eru á sömu leið og þeir hafa áður verið. Þess vegna var fróðlegt að hlusta á hv. þingmann fara hér gaumgæfilega yfir þær breytingartillögur sem nú eru lagðar til. En það verður alltaf að hlýða á það í þessu ljósi.

Það verður hins vegar að segjast að í þau fjögur skipti sem breytingar hafa verið gerðar á upphaflega frumvarpinu hafa menn verið að stíga skref í rétta átt. Menn hafa verið að fjölga plástrum á meingölluðu máli. En því miður er ekki nógu langt gengið til að tryggja þá miklu samstöðu sem við í stjórnarandstöðunni höfum flest talið afar nauðsynlegt að reynt yrði að ná um þessa mikilvægu stofnun. Eins og farið verður nánar yfir á eftir lögðum við fram leið til að tryggja þessa sátt. En því miður var þeirri leið hafnað af hálfu meiri hlutans í menntamálanefnd.

Frú forseti. Það var eitt atriði sem sérstaklega vakti athygli mína fyrir utan þau sem ég mun taka fyrir í ræðu minni hér á eftir og það varðar eiginfjárhlutfall Ríkisútvarpsins, sem ég hef nokkrum sinnum gert að umtalsefni. Það var komið til móts við okkur með minnisblaði frá menntamálaráðherra og fjármálaráðherra hvað það varðaði. En í millitíðinni hefur komið niðurstaða um stöðu Ríkisútvarpsins í árslok 2005.

Það verður að segjast, og því er nú ver og miður, frú forseti, að þær tölur sem nefndar eru í minnisblaðinu eru ekki í neinu samræmi við þær niðurstöður sem þar komu fram. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja hv. þingmann, formann menntamálanefndar, hvort það megi treysta því, og ég held að a.m.k. hér í umræðunni sé nauðsynlegt að það komi fram frá meiri hlutanum að þessar tölur verði uppfærðar í (Forseti hringir.) samræmi við niðurstöðuna sem kom fram í ársuppgjöri (Forseti hringir.) 2005 hjá Ríkisútvarpinu.