132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:48]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það viðfangsefni sem hér hefur verið vakið máls á virðist nú fyrst og fremst vera sagnfræðilegt viðfangsefni, þ.e. að verið er að leiða í ljós atburði sem áttu sér stað fyrir einhverjum áratugum. Til þess að menn geti rætt um þá af einhverri þekkingu og sanngirni er auðvitað nauðsynlegt að gögnin sem umræðan hlýtur að byggja á liggi fyrir. Tillaga hæstv. forsætisráðherra gengur að sjálfsögðu út á að óháðum fræðimönnum verði veittur aðgangur að gögnum sem skipta máli í þessu sambandi. Um það snýst málið og á ekki að þurfa að vera neitt ágreiningsefni.

Ég sé ekki að það sé tilefni til þess að þingið, þingmenn eða fulltrúar þingflokka, eins og nefnt hefur verið í umræðunni, eigi aðild að þeirri vinnu. Í tillögunni eins og hún liggur fyrir er gert ráð fyrir að embættismenn og sérfræðingar sem allir eiga að vera vel til þess fallnir að leggja mat á þessi gögn komi að því verki. Ég held að þeir hljóti að vera miklu betur til þess fallnir en einstakir þingmenn eða fulltrúar þingflokka.

Í þessari umræðu blanda menn oft saman óskyldum hlutum, t.d. athugunum sem hljóta að beinast að fortíðinni og stöðunni í dag. Við búum auðvitað við annað lagaumhverfi í dag en var á þeim tíma sem hér um ræðir. Meðal annars í því sambandi að nú ber að tilkynna mönnum um það ef t.d. símar hafa verið hleraðir hjá þeim þegar rannsóknarhagsmunir krefjast þess ekki lengur. Þannig að umhverfið er breytt að því leyti.

Við getum rætt frekari breytingar um rannsóknarheimildir lögreglu í framtíðinni. (Forseti hringir.) En þetta sagnfræðilega viðfangsefni byggir á að menn leiði í ljós (Forseti hringir.) hvaða gögn eru fyrir hendi og þingið getur síðan tekið afstöðu á grundvelli þeirra (Forseti hringir.) gagna.