132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:46]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bregðast örstutt við einu atriði í annars ágætri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar þar sem ég gat tekið undir afar margt í málflutningi hans. Mér fannst hann horfa á breytingartillögu mína og þriggja annarra þingmanna með jákvæðari augum en sumir aðrir sem hér hafa talað í dag þótt hann, eftir því sem ég skildi mál hans, styddi hana ekki eða treysti sér ekki til að styðja þessa breytingartillögu.

Í máli hans komu fram ákveðnar áhyggjur af því að sú aðgreining á milli reykingasvæða eða reykingaherbergja og annars rýmis veitingastaða yrði vandamál, hugsanlega með sama hætti og það er ákveðið vandamál í dag hvernig á að greina á milli reykingavæða og reyklausra svæða á veitingastöðum. Ég vildi bara draga það fram í umræðunni með skýrum hætti að sá reginmunur er á því sem felst í tillögu okkar og núverandi ástandi að gert er ráð fyrir að aðskilnaður milli reyksvæða og reyklausra svæða verði með veggjum, gleri eða einhverjum sambærilegum hætti þannig að tryggt á að vera að ekki komi upp einhver jaðartilfelli eða óljós tilfelli að því leyti þar sem gert er ráð fyrir að aðskilnaðurinn sé svo tryggilegur að það séu veggir, gler eða eitthvað sambærilegt sem greini þessi svæði að. Í dag er þetta miklu óljósara og hefur valdið ýmsum vandamálum í framkvæmd. En af því að það er einlægur ásetningur okkar flutningsmanna breytingartillögunnar að koma til móts við sjónarmið frumvarpshöfunda og þeirra sem langt vilja ganga í tóbaksbanni, við viljum koma til móts við slík sjónarmið, þá gerum við ráð fyrir heilum veggjum, gleri eða einhverju sambærilegu.