132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög og þó fyrr hefði verið. Það eina sem er dapurlegt við það er að við höfum glatað fimm góðum árum sökum þess að við heyktumst á að stíga skrefið til fulls 2002 þegar tóbaksvarnalög voru þá til heildarendurskoðunar, ef ég man rétt. Ég man vel óánægju þeirra sem höfðu undirbúið þá lagasetningu, m.a. sérstakrar nefndar, og þáverandi tóbaksvarnafulltrúi, Þorgrímur Þráinsson, var ákaflega ósáttur við það hvernig sú niðurstaða þess nefndarstarfs, að stíga skrefið til fulls og gera þar á meðal veitingastaði reyklausa með þeim breytingum, týndist í meðförum stjórnvalda. Sú var tíðin að Ísland var jafnan í allra fremstu röð í þeim efnum hvað varðaði tóbaksvarnir og baráttu gegn skaðsemi reykinga. En við höfum því miður heykst svolítið á því á síðustu árum að vera áfram í forustu þjóða að þessu leyti og nú er svo komið að ýmsar aðrar þjóðir eru komnar fram úr okkur. Þar hefur tekist vel til og menn eru almennt mjög ánægðir með þær breytingar.

Ég verð að segja alveg eins og er út frá ræðuhöldum hér fyrr, frú forseti, og breytingartillögum o.fl., að úr því að Írum hefur tekist jafn vel til að gera sína bari reyklausa, trúlega hafa einhverjir þingmenn komið inn á þær stofnanir eins og þær voru á árum áður, þá ætti okkur Íslendingum ekki að vera mikill vandi á höndum að gera slíkt hið sama og fylgja fordæmi þeirra og annarra þjóða sem hafa rekið af sér slyðruorðið og stigið þetta skref til fulls. Það er auðvitað miklu meira en tímabært að gera það og eiginlega ekkert annað að gera en að harma að við skyldum ekki gera þetta strax 2002 með heildarendurskoðun laganna þá.

Varðandi breytingartillögu frá þeim félögum, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni, Sigurði Kára Kristjánssyni, Bjarna Benediktssyni og Björgvini G. Sigurðssyni, þá finnst mér heldur dapurlegt að fjórir ungir, frískir þingmenn skuli flytja tillögu af þessu tagi, því að það er auðvitað ekkert annað en að reyna að læða aftur inn í þetta frumvarp óbreyttu ástandi eins og ég lít á það. Nú hristir hv. 1. flutningsmaður hausinn og það merkir væntanlega að hann sé mér ekki sammála. Það kann vel að vera að hv. þingmenn telji í hugarheimi sínum að þarna sé til einhver önnur millileið en sú sem að nafninu til átti að fara 2002. En hvernig hefur það reynst í framkvæmd, hvernig hefur það gengið í framkvæmd að tryggja að á öllum veitingastöðum séu aðskilin rými fyrir reykingafólk og reyklaust? Það er ekki merkileg framkvæmd á því á öllum þorra veitingastaða hér á landi. Ég þekki það bara mjög vel, ekki endilega vegna þess að ég sæki þessa staði svo gríðarlega heldur m.a. vegna þess að þannig háttar til að ég þekki mjög vel eða mér eru nákomnir og í minni fjölskyldu einstaklingar sem eiga við það að stríða annars vegar að vera haldnir algjöru reykingaofnæmi og hins vegar að vera með astma eða snert af astma og þola þar af leiðandi alls ekki að komast í snertingu við reykingaloft. Ég get vel borið um það hvers konar hausverkur það er t.d. ef menn vilja fara ekki endilega á krár eða bari heldur bara á venjulega matsölustaði og það er hringt og pantað og spurt: Er ekki alveg klárt að þarna sé algjörlega reyklaust rými samkvæmt lögum? Jú, jú. Svo mæta menn á staðinn, fólk sem svona er ástatt um og það skiptir þúsundum hér á landi, fólk sem alls ekki þolir heilsu sinnar vegna að komast í snertingu við reykingaloft.

Hver er útkoman? Það er iðulega þannig að hinum megin við ganginn, einn og hálfan metra frá borðinu sem á að heita reyklaust og er í reyklausu svæði, er reykt. Menn eiga tvo kosti, að fara heim eða láta sig hafa þetta. Veitingahúsin og einhverjir þjónar fórna höndum og segja: Þetta er bara svona hjá okkur. Þetta gerist aftur og aftur, bæði á Íslandi og annars staðar, þar sem reglurnar eiga að vera svona. Þetta er framkvæmdin, þetta er veruleikinn. Hitt er einhver hugarheimur.

Þá spyr ég: Getur það verið að mannréttindi þeirra sem heilsu sinnar vegna verða að geta treyst því að þeir geti farið á veitingahús og verið lausir við reykloft víki fyrir hinum sem eitra andrúmsloftið fyrir öðrum? Nei, það getur ekki verið. Það getur ekki verið að þetta eigi að snúa þannig. Þess vegna er enginn vafi í mínum huga að úr því að framkvæmdin er gjörsamlega vonlaus með því fyrirkomulagi sem á að heita við lýði í dag, og ég held að þessi breytingartillaga sé ávísun á meira og minna það sama því miður, þá þýðir þetta ekki neitt. Það þýðir enga hálfvelgju í þessu. Það verður bara að stíga þetta skref til fulls. Og ég bið hv. þingmenn að fella þessa breytingartillögu. Ég skora á alla hv. þingmenn og helst flutningsmenn hennar að draga hana til baka en alla aðra þingmenn þá að fella hana. Ég vona sannarlega að hún fái ekki nema fjögur atkvæði í mesta lagi, þ.e. atkvæði flutningsmannanna. Ég vona það innilega og að þeir muni sjá að það var yfirsjón og fljótræði að flytja þessa tillögu.

Sama tel ég að gera eigi við breytingartillögu frá hv. þm. Pétri H. Blöndal þó að það kunni að vera einhver djúp hugmyndafræðileg rök fyrir því að styðja hana eins og hv. þm. Mörður Árnason var eitthvað að reifa áðan, ég verð að játa að ég náði því nú ekki öllu saman, en hún tengist að einhverju leyti því sem varðar auglýsingar á tóbaki, sem að sjálfsögðu er fráleit hugmynd. Ég vil að menn sýni þar líka fyllstu hörku og að heilsa manna og velferð eigi að njóta vafans í þessu tilviki og legg til að sú tillaga verði líka felld.

Mér sýnast breytingartillögur heilbrigðis- og trygginganefndar í sjálfu sér vera til bóta þó að ég hafi enga óskapa samúð með þessum sérverslunum með tóbak, að þær þurfi að vera undir öðrum ákvæðum en aðrar verslanir, en það má þó kannski til sanns vegar færa að það gildi nokkuð annað um þá sem leggja leið sína inn í slíkar verslanir og dómaniðurstaða mun liggja hér einnig til grundvallar breytingartillögunni. (Gripið fram í.) Ég sagði það, hv. þingmaður, að dómaniðurstöður munu einnig liggja til grundvallar því að heilbrigðis- og trygginganefnd flytur þessa breytingartillögu.

Ég er ákaflega ánægður með að loksins skuli menn ætla að reka af sér slyðruorðið og stíga þetta skref sem átti auðvitað að gera 2002 og fimm ár hafa þá farið í súginn miðað við að gildistakan sé 1. júní 2007, sem eðlilegt má telja, auðvitað þarf einhvern svolítinn aðdraganda og eitthvert tilhlaup að þessu. En ég er alveg sannfærður um það, það er enginn efi í mínum huga að fljótlega í framhaldi af því að þessi lög ganga í gildi og menn eru komnir í sátt við þau og farnir að framkvæma þau verða allir ánægðir. Það er niðurstaðan annars staðar, bæði hjá reykingafólki og þeim sem ekki reykja og líka hjá veitingastöðunum og rekstraraðilunum. Þetta er öllum fyrir bestu. Auðvitað vilja rekendur svona staða ekki vera á einhverju gráu svæði gagnvart t.d. heilsu starfsmanna sinna. Það liggur alveg í augum uppi, það vill enginn. Þetta er öllum fyrir bestu hvernig sem á málið er litið og einboðið að samþykkja þetta og fella breytingartillöguna.